Í dag verður mikilvæg atkvæðagreiðsla á Alþingi. Þar verður tekið fyrir mál sem ég hef skrifað um áður . Afglæpavæðing vímuefna hefur verið rædd mikið síðastliðin 4 ár og reynsla Portúgala hefur vakið athygli allra sem kynna sér málefnið. Á Íslandi höllum við okkur að refsistefnunni sem gerir heilbrigðismál að löggæslumálum og amast við þeim samþegnum okkar sem aðhyllast ekki Ríkisvímuna. Á einhverjum tímapunkti þarf að særa út draug Richard Nixon og notast við manngæsku í erfiðu málefni þar sem hitt úrræðið er fullreynt.
Ég trúi því að manngæska þjóðarinnar nái til vímuefnaneytenda og fólk í landinu sé reiðubúið til að leggja af þá grimmd sem stunduð er í nafni okkar allra. Spurningin er hvort hjörtu Alþingismanna séu of köld og þurfi meiri tíma til að sjá að refsistefnan er gjaldþrota. Nei-atkvæði við þessu máli verða gegn gangi sögunnar og gegn stefnuyfirlýsingu sitjandi ríkisstjórnar.
„Þingheimur getur lagt niður vopn á morgun eða haldið áfram að herja á okkar minnstu bræðrum og systrum án sjáanlegs árangurs.“
Þrátt fyrir að flestir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa verið aldir upp í SUS sem í gegn um tíðina ályktar nánast árlega um lögleiðingu vímuefna þá virðist eitthvað vera í vatninu í Kirkjustræti sem hristir af þau bernskubrek við embættiseiðinn. Það er enginn hissa á að heyra af því að flokkurinn sem vildi “Vímuefnalaust Ísland árið 2000” er líka mótfallinn, ekki má lýsa því yfir að stríðinu sé tapað á þeirra vakt. VG er flokkur sem ætti að vera samþykkur, hafandi manngæsku að leiðarljósi umfram fjárhagshagsmuni, en hver veit hvernig hrossakaupin ganga fyrir sig í Stjórnarráðinu?
Þingmenn sverja eið að stjórnarskránni. Það á ekki að skipta máli hverjir flokkshagsmunirnir eru né heldur hvað þótti gott slagorð 1995. Það skiptir máli hvað er gott fyrir fólkið í landinu í dag og á morgun. Sá hluti þegnanna sem neytir vímuefna hefur sætt nægum ofsóknum. Þingheimur getur lagt niður vopn á morgun eða haldið áfram að herja á okkar minnstu bræðrum og systrum án sjáanlegs árangurs.
Athugasemdir