„Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að það er ekki hægt að innræta mönnum sjálfsvirðingu,“ sagði þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson í gærkvöldi.
Alþingi þarf að fresta málum. Of mikið álag. Sumarleyfi framundan. Það þarf að hitta fólkið í kjördæminu. Keyra.
Það var verið að ræða Orkusjóð. En Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fór upp í pontu. Án jakka.
Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, greip inn í til að verja heiður Alþingis. Stofnunar sem hefur aðeins traust 23 prósent landsmanna.
Kannski vegna þess að Björn Leví er ekki í jakkafötum?
Skömmu áður hafði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hvíslað í eyra Steingríms.
„Forseti verður að gera athugasemd við það að háttvirtur þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, er ekki klæddur í samræmi við það sem tilmæli eru um hér í þingsal. Forseti beinir eindregið þeim tilmælum til þingmanns að hann hugi að klæðaburði sínum og finnst ekki við hæfi að menn gangi í ræðustól á Alþingi með þessum hætti,“ sagði Steingrímur J, þingmaður og fyrrverandi formaður VG, verndaraflokks verkamanna, arftaka Alþýðubandalagsins.
Hann hélt síðan áfram. „Forseti minnir á tilæmi sín um það hættvirtur þingmaður hugi að klæðaburði sínum. Þau eru mælt af miklum þunga og af mikilli alvöru. Nú telur forseti komið út fyrir mörkin.“
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, fór fram á hlé á fundi vegna málsins.
Í bakgrunni heyrast þingmenn ræða um að opna glugga.
Vandinn var sá að ekki mátti opna glugga í miðbænum og Vesturbænum. Ástæðan var að 650 metrum frá logaði ennþá í húsinu við Bræðraborgarstíg 1. Þrír voru látnir.
Varað hafði verið við ástandi hússins, meðal annars í frétt Stundarinnar fyrir þremur og hálfu ári. Enginn sérstakur getur tekið ábyrgð á því. En á Alþingi hefur skort loftræstingu vegna þess að húsið var að brenna.
73 einstaklingar voru skráðir til heimilis í húsinu, sem hýsti augljóslega ekki svo marga. Flestir erlendir verkamenn sem höfðu komið til Íslands með von um betra líf.
Við vitum ekki allt sem gerðist, en við vitum að um það leyti sem slökkviliðið réði niðurlögum síðustu loga eldsvoðans, eyddi löggjafarsamkoman okkar, undir stjórn eins helsta vinstrileiðtoga síðustu áratuga, hálftíma í að ræða að þingmaður væri ekki í jakkafötum.
Aðbúnaður á heimilum verkafólks í Reykjavík hefur verið til umræðu frá því snemma á síðustu öld. Á tímabili börðust verkalýðsleiðtogar fyrir því að húsnæði verkafólks í gamla Vesturbænum yrði rifið. Stundin hefur greint frá því að á bilinu fimm til sjö þúsund manns hafa búið í iðnaðarhverfum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár, þar af 860 börn. En enginn vill taka ábyrgð á aðbúnaði fólksins. Líklega af því að enginn einn ber ábyrgð. Er það eldvarnaeftirlitið, heilbrigðiseftirlitið, lögreglan, borgarstjórn, borgarstjóri, eða bara eigendur húsnæðisins? Eða fólkið sjálft? Eða þarf að yfirfara reglurnar og lögin til að skerpa á ábyrgðinni og verja erlent verkafólk, líf þess og velferð?
Auðvitað er Alþingi ekki alslæmt. Margir vinna þar vinnuna sína af dugnaði og heilindum. Seinna í gærkvöldi þakkaði Björn Leví fyrir góða nefndarvinnu um lög um hollusuhætti og mengunarvarnir með mótherjum sínum í meirihlutanum. Hann var kominn í jakka. Virðingu Alþingis var borgið.
Athugasemdir