Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði af sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í upphafi fundar á Alþingi í dag. Segir hún persónu sína dregna í svaðið þegar hún sinnir eftirlitshlutverki sínu í nefndinni.
„Tilraunir okkar í minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að sinna eftirlitshlutverki nefndarinnar hafa einungis orðið meirihlutanum tilefni til valdníðslu og linnulausra árása,“ sagði hún í ræðu sinni. „Skýrasta dæmið um þetta er hvernig meirihlutinn stendur í vegi fyrir frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra, en forsætisráðherra kallar það góða niðurstöðu.“
Sagði hún að með þessu væri meirihlutinn að setja hættulegt fordæmi og veikja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdavaldinu. „Til að réttlæta þessa aðför sína kýs meirihluti nefndarinnar að draga persónu mína sífellt niður í svaðið og nota mig sem blóraböggul,“ sagði hún. „Þessi aðferðarfræði, að skjóta sendiboðann er þaulreynd þöggunnar og kúgunar taktík. Ég mótmæli þessari aðför, mér misbýður þetta leikrit og ég ætla ekki að taka þátt í því lengur.“
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mat það svo nýverið að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Frekari könnun á hæfi hans væri tilgangslaus.
„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra,“ segir í áliti meirihlutans. „Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur. Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hélt opinn fund í dag þar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var gestur. Til umræðu var ákvörðun hans um að beita sér gegn því að Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, yrði ráðinn sem ritstjóri fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review.
Athugasemdir