Um 92% Íslendinga styðja Guðna Th. Jóhannesson í komandi forsetakosningum, samkvæmt könnun sem gerð var fyrir kappræður Stöðvar 2 í kvöld. Í kappræðunum mættust Guðni og mótframbjóðandi hans Guðmundur Franklín Jónsson.
Kappræðurnar einkenndust af átökum. Heimir Már Pétursson, annar þáttarstjórnenda, gerði ítrekað athugasemdir við framgöngu Guðmundar Franklín.
„Þú ert alltaf að spyrja mig út í loftið,“ sagði Guðmunur Franklín við Heimi Má snemma þáttar. „Ég vissi ekki að þú værir lögspekingur líka, meðfram þáttarstjórnuninni,“ sagði hann síðar, eftir að Heimir Már gerði athugasemd við skilning Guðmundar á stjórnskipun Íslands. „Ég er mjög stoltur af öllu sem ég hef gert, öfugt við kannski þig, Heimir,“ sagði Guðmundur þegar síga fór undir lok þáttarins og kvartaði undan persónulegum spurningum hans.
Endurvakti ásökun frá 2016
Guðmundur Franklín vitnaði til orða Guðna um að hann hefði talað um „fávísan lýðinn“, sama og borið var á hann fyrir kosningar 2016 vegna fræðilegrar umræðu hans í fyrirlestri í Háskólanum á Bifröst, og fullyrti að Guðni hefði sagt Íslendinga rasista, spurði hann Guðna hvort hann væri stoltur af því að vera Íslendingur.
Að því loknu kom að Guðna að spyrja Guðmund. Forsetinn dæsti. „Hvers skal spyrja?“ sagði Guðni og þagði um stund. „Ertu stoltur af framgöngu þinni í kvöld?“
Í svari sínu við annarri spurningu Guðna sagði Guðmundur Franklín að Vigdís Finnbogadóttir hafi sennilega verið „glóbalisti líka“, eins og Guðni, en áður hafði Guðni svarað því til að hann væri Evrópusinni og alþjóðasinni, en neitaði að svara spurningu um afstöðu sína til Evrópusambandsaðildar.
„Þá verðurðu bara að flytja til Bandaríkjanna“
Guðmundur Franklín var spurður út í stuðning sinn við Donald Trump. Í svari sínu sagðist hann telja að hvorki Trump, Pútín né Macron ættu erindi í umræðu um íslensk stjórnmál. „Aftur á móti dáist ég að efnahagsaðgerðum Donalds Trumps í Bandaríkjunum og hann er búinn að taka Bandaríkin úr kreppu.“
Þegar Guðmundur lýsti fyrirætlunum sínum um að grípa inn í ýmsa löggjöf gerðu bæði þáttarstjórnendur og Guðni athugsemdir við skilning Guðmundar á forsetaembættinu.
„Þá verðurðu bara að flytja til Bandaríkjanna,“ sagði Guðni að því tilefni.
Þá gerði Guðmundur Franklín athugasemd við að forsetaframboð Guðna hefði lýst því yfir að ekki yrði eytt krónu í kosningabaráttuna, en að Guðni segði í þættinum að kostnaður væri um ein til tvær milljónir króna.
„Af hverju segirðu alltaf ósatt, Guðni? Af hverju lýgurðu að þjóðinni?“
Að sögn Guðna höfðu fyrri ummæli fallið í útvarpsþætti þar sem Sveinn Waage, hluti stuðningsmannateymis hans, hefði setið fyrir svörum.
Guðmundur Franklín, sem er hagfræðingur og fyrrverandi verðbréfasali á Wall Street, kveðst bjóða sig fram til þess að verða öryggisventill og koma í veg fyrir sölu auðlinda, ekki síst eftir COVID-19 kreppuna.
Guðni, sem er prófessor í sagnfræði, telur hins vegar að forseti Íslands eigi að horfa til þess sem sameinar þjóðina og telur hugmyndir Guðmundar um valdsvið forsetans ekki samræmast stjórnskipun Íslands.
Uppfært: Leiðrétt hefur verið orðalag í tilvitnun í Guðna í setningunni „hvers skal spyrja?“
Athugasemdir