„Ég gerði öllum ljóst að það var mjög rangt að gera þetta,“ segir sænskur hagfræðiprófessor, sem starfar við Stokkhólmsháskóla og hefur meðal annars setið í Nóbelsnefndinni í hagfræði og verið formaður ríkisfjármálaráðs Stokkhólms, undrandi á því að íslenska fjármálaráðuneytið hafnaði tillögu hans um Þorvald Gylfason hagfræðing sem eftirmann sinn í ritstjórastóli fræðiritsins Nordic Economic Policy Review, á þeim grundvelli að hann hefði einhverjar tilteknar stjórnmálaskoðar aðrar en ráðherrans.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er með þveröfuga skoðun. Honum fannst þetta ekki einungis rétt, heldur að hann hefði rétt á því að koma í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason fengi að ritstýra fræðitímaritinu, meðal annars vegna þess að: „Ekki þarf að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hvaða hug Þorvaldur hefur borið til þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í undanfarin ár.“
Þetta hafði aldrei gerst áður, taldi fulltrúi Finna hjá Norrænu ráðherranefndinni, Markku Stenborg, sem var „mjög hissa“ á því að íslenska fjármálaráðuneytið hafnaði því að fá íslenska hagfræðinginn í stöðuna. „Á pappírunum virðist hann vera einstaklega hæfur umsækjandi,“ sagði Markku og bað um rökstuðning. Ástæðan sem starfsmaður íslenska fjármálaráðuneytisins gaf upp var að íslenski hagfræðingurinn væri formaður stjórnarandstöðuflokks, Lýðræðishreyfingarinnar. Það reyndist vera rangt, byggt á úreltri Wikipedia-síðu. Og auðvitað hefur Lýðræðishreyfingin ekki verið neitt afl í íslenskum stjórnmnálum, aldrei náð inn á þing, og snúist um stjórnarskrármálið umfram annað.
Bjarni segir að ritið Nordic Economic Policy Review sé ekki pólitískt óháð. „Þetta er ekki óháð fræðirit, heldur er því ætlað að styðja við stefnumótun norrænu ríkjanna í efnahagsmálum.“
Í lýsingu Norðurlandaráðs er hins vegar sagt að ritið eigi að „gera nýjustu hagfræðirannsóknir aðgengilegar þeim sem taka ákvarðanir og svo víðari hópi og eiga framlag til norrænnar þekkingarmiðlunar um efnahagsleg stefnumál og áskoranir.“ Og þetta er ekki fengið frá Wikipedia-síðu, heldur heimasíðu Norðurlandaráðs.
Í 2019 útgáfu Nordic Economic Policy Review var til dæmis fjallað fræðilega um stefnu Norðurlandanna og Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Árið 2018 var fjallað um vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndunum.
Bjarni Benediktsosn telur sig eiga rétt á því að móta þessa norrænu þekkingarmiðlun: „Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri ... Í þessu tilviki endurspeglast vilji minn um að tilnefna hvorki né samþykkja Þorvald Gylfason til þessara starfa.“
Bjarni segir ekki að Þorvaldur sé óhæfur til verksins, heldur að hann eigi ekki samleið með honum, meðal annars vegna þess að hann hefur gagnrýnt Bjarna. En við vitum til dæmis nokkurn veginn hvaða sjónarmið Bjarni hefur um ójöfnuð og loftslagsmál. Freistnivandi Bjarna er mikill, það hentar honum pólitískt að Nordic Economic Policy Review styðji hans eigin stefnu sem mest. En hentar það okkur hinum að draga úr sjálfstæði slíkra umfjallana?
Á endanum snýst þetta um rótgróið viðhorf Sjálfstæðisflokksins gagnvart meðferð á opinberu valdi, nokkuð sem er ekki bara hugmyndafræði heldur virk stefna.
Bjarni ákvað að Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálaprófessor, sem skipaður var pólitískt á sínum tíma, og sem er einn háværasti stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði ráðinn til að skrifa opinbera skýrslu um erlendar orsakir bankahrunsins. Í niðurstöðum fór Hannes mjúkum höndum um formenn Sjálfstæðisflokksins og felldi gildisdóma um aðra. Hann gagnrýndi Mannréttindadómstól Evrópu fyrir þá niðurstöðu dómsins að ekki hefðu verið brotin mannréttindi á Geir Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, í Landsdómsmálinu, og sagði að rannsóknarskýrsla Alþingis hefði ekki gagnrýnt Samfylkinguna nægilega mikið, en Davíð Oddsson, vin hans, of mikið. Skýrsluna birti hann þremur árum á eftir áætlun og fékk 10 milljónir króna fyrir, miðað við það sem gefið var út í upphafi.
Þannig borguðum við skatta til þess að framfylgja þeim vilja Bjarna Benediktssonar að láta Hannes Hólmstein móta þekkingu um efnahagsmál Íslendinga. Staðan var auðvitað ekki auglýst, og því mátti hann þetta lagalega séð.
Annar sjálfstæðismaður, sem stýrir riti, er Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður og ritstjóri Morgunblaðsins. Honum hefur fallið í skaut að stýra miðlun þekkingar og upplýsinga á Íslandi, meðal annars á tímabili um hvernig hann rækti eigin verk í umboði almennings.
En Þorvaldur Gylfason hagfræðingur gat ekki ritstýrt hagfræðiriti vegna þess að hann var formaður Lýðræðishreyfingarinnar fyrir einhverjum árum og skrifar gagnrýna pistla um stefnu og verk Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, sem gerir út á þá stefnu að lækka skatta, sér ekkert athugavert við að hann noti skattana okkar til að hafa pólitísk áhrif á þekkingarmiðlun. Og í yfirlýsingunni sinni á Facebook í morgun sneri hann þessu við. Það var ekki hann sem gerði eitthvað rangt, heldur hinir stjórnmálamennirnir sem gagnrýndu hann fyrir það. „Spurning er bara hvort það væru ekki óeðlileg afskipti af þeirra hálfu af ráðningu í starf sem aldrei hefur verið auglýst.“
Það getur verið rétt eða rangt mat hjá fráfarandi ritstjóra Nordic Economic Policy Review að vilja velja Þorvald Gylfason sem eftirmann sinn. En þetta snýst ekki um það, heldur um hvernig farið er með vald í okkar umboði.
Bjarni vill núna sannfæra okkur um að hann eigi þetta og megi þetta. En það er alveg sama hvort einhver hafi verið ósammála Bjarna Benediktssyni og gagnrýnt hann, við eigum ekki að meta starfsmenn í okkar umboði út frá því. Atvinnumöguleikar fólks eiga ekki að skerðast við að gagnrýna valdafólk, þótt það séu mörg dæmi um tilraunir til að hrekja fólk úr starfi fyrir gagnrýni. Fræðileg þekkingarmiðlun á varla að vera á hendi valdamikilla stjórnmálamanna í lýðræðisríki. Og varðandi réttinn: Við öll eigum fjármálaráðuneytið, ekki Bjarni Benediktsson.
Næsta verkefni Nordic Economic Policy Review er að greina áhrif fjármálareglna á efnahagslegan stöðugleika, meðal annars út frá kostum og göllum verkfæra Evrópusambandsins. Við vitum alveg hvað Bjarna finnst um Evrópusambandið, en sama hvað hann segir, við kusum hann ekki til að hafa pólitísk áhrif á fræðilega þekkingarmiðlun, og ekki gerðu Norðurlöndin það.
Fyrirvari um hagsmuni: Þorvaldur Gylfason skrifar reglulega pistla í Stundina um efnahgsmál, alþjóðlega og á Íslandi.
Athugasemdir