Sættir hafa ekki náðst á milli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, annars vegar og dóttur hans, Aldísar Schram, Ríkisútvarpsins og Sigmars Guðmundssonar fréttamanns hins vegar.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Hildur Briem héraðsdómari beindi spurningum til lögmanna málsaðila í gær um það hvort sættir hafi náðst en útséð er nú um það. Gagnaöflun heldur áfram í málinu, en dagsetning aðalmeðferðar hefur ekki verið ákveðin.
Jón Baldvin krefst þess að fjórtán ummæli í viðtali á RÚV verði dæmd dauð og ómerk, þar af tíu hjá Aldísi og fjögur hjá Sigmari. Einnig er krafa um birtingu afsökunarbeiðni.
Aldís var í viðtali hjá Sigmari og Helga Seljan í Morgunútvarpi Rásar 2 þann 17. janúar í fyrra. Í stefnu Vilhjálms Vilhjálmssonar lögmanns eru tiltekin á annan tug ummæla Aldísar og fern ummæli Sigmars. Helga er ekki stefnt vegna viðtalsins, en aðeins er fjárkrafa gerð á Sigmar.
Í viðtalinu sagði Aldís að Jón Baldvin hefði misnotað stöðu sína sem sendiherra í Bandaríkjunum í persónulegum tilgangi. Þannig hafi hann nýtt sér stöðu sína til að fá lögreglu til að brjóta sér leið inn á heimili Aldísar, ásamt lækni, án þess að nokkuð benti til þess að þörf væri á slíku inngripi. Gögn sýna að Jón Baldvin hafi fjórum sinnum sent beiðnir um nauðungarvistun með faxi frá sendiráðinu. Í eitt skipti var slíkt merkt sem „aðstoð við erlend sendiráð“ í gögnum lögreglunnar.
Sjö konur stigu fram undir nafni í Stundinni í fyrra og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda Aldísar dóttur sinnar, lýst því yfir að hún glími við geðhvarfasýki og sagt að ásakanir kvennanna allra séu „órar úr sjúku hugarfari“ Aldísar. Þessu hefur hann haldið fram í blaðagreinum og viðtölum allt síðan árið 2012 þegar Guðrún Harðardóttir lýsti klúrum bréfaskrifum hans til sín þegar hún var á táningsaldri.
Athugasemdir