Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss og áður Vestmannaeyja, segir almenning á Íslandi beita lögregluna ofbeldi. Setur hann það í samhengi við mótmæli í Bandaríkjunum um þessar mundir vegna ofbeldis lögreglu þarlendis í garð almennings.
Elliði birti færslu á Facebook í gærkvöldi með ljósmynd af bróður sínum, Svavari Vignissyni, sem er lögreglumaður í Vestmannaeyjum. „Um allan heim mótmælir fólk nú eðlilega ofbeldi lögreglu í USA í garð almennings,“ skrifar Elliði. „Hér á Íslandi glímum við við ofbeldi almennings gagnvart lögreglu. #gerumbetur “
Bæjarstjórinn tilgreinir ekki nánar hvað hann á við með ofbeldi íslensks almennings gagnvart lögreglu. Í Bandaríkjunum er áætlað að lögreglan hafi drepið um þúsund manns í fyrra, að því er kemur fram í rannsóknum Mapping Police Violence. Svart fólk var um fjórðungur þeirra sem drepnir voru, þrátt fyrir að vera aðeins 13 prósent af íbúum landsins.
Mótmæli hafa staðið yfir í borgum Bandaríkjanna undanfarna daga og hefur lögreglan beitt mótmælendur táragasi, skotið á fólk með gúmmíkúlum og keyrt lögreglubíla inn í hópa mótmælenda. Uppþotin hafa átt sér stað í kjölfar þess að George Floyd, þeldökkur maður, lést eftir handtöku lögreglu í Minneapolisborg, eftir að lögreglumaður setti hné sitt og hvíldi þunga sinn á hálsi mannsins.
Illugi Jökulsson rithöfundur er einn margra sem blanda sér í samræðurnar á Facebook síðu bæjarstjórans. „Elliði, í alvöru talað, þetta er svo gjörsamlega, gjörsamlega, gjörsamlega ósambærilegt að þig setur verulega ofan í mínum augum við þetta,“ skrifar hann. „Það er ekki út af pólitík af neinu tagi, heldur er þetta bara svo sorglega dómgreindarlaust.“
Athugasemdir