Alþingi Íslendinga hefur ekki sett nein skilyrði í lagasetningu um fjárhagslegan stuðning vegna COVID-19 um að fyrirtæki í skattaskjólum eða á lágskattasvæðum geti ekki fengið slíka fjárhagsaðstoð. Þetta hefur, hingað til, ekki verið gert í neinu lagafrumvarpi vegna afleiðinga COVID-19.
Slík skilyrði hafa verið innleidd í mörgum Evrópulöndum, meðal annars nágrannalöndunum Danmörku og Svíþjóð, sem og í Frakklandi og Póllandi.
Nú er Ísland vissulega fámennarara en þessi ríki og því má ætla að ekki séu eins mörg dæmi um notkun fyrirtækja á skattaskjólum.
Hins vegar þá eru ekki nema örfá ár síðan að Panamaskjölin svokölluðu sýndu fram á hlutfallslega mikla notkun Íslendinga á félögum í skattaskjólum í gegnum lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama. Fjöldi félaga sem íslenskir aðilar áttu var jafnvel í sumum tilfellum meiri en fjöldi félaga frá ríkjum með íbúafjölda upp á fleiri milljónir. TIl að mynda voru um 600 félög tengd Íslendingum í viðskiptum við Mossack Fonseca á meðan þar var að finna 600 félög með tengsl við Svía þrátt fyrir að Svíþjóð sé 30 sinnum fjölmennara en Ísland.
Gagnrýnt að skilyrðið útiloki of fáa
Í Danmörku hefur þetta skilyrði til dæmis útilokað 19 fyrirtæki frá því að njóta fjárhagslegs stuðnings ríkisins vegna afleiðinga COVID-19.
Þar í landi hefur verið bent á að skilgreining danskra yfirvalda á skattaskjólum gangi ekki nægilega langt og að þar með sé þetta skilyrði laganna að vissu leyti upp á punt þar sem það útiloki einungis 19 fyrirtæki frá ríkisaðstoðinni.
„Þetta er klárt skilyrði að fyrirtæki mega ekki nota skattaskjól ef þau ætla að fá að njóta þeirrar aðstoðar sem ríkið hefur upp á bjóða í kórónakrísunni“
Ástæðan er sú að Danmörk ákvað að einungis dönsk fyrirtæki sem eru í beinni eigu fyrirtækja í skattaskjólum sem eru á svarta lista Evrópusambandsins geti verið útilokuð frá ríkisaðstoðinni. Óbeint eignarhald, í gegnum röð félaga, útilokar því ekki dönsk fyrirtæki frá því að njóta ríkisstuðningsins og beint eða óbeint eignarhald í lágskattaríkjum eins og Kýpur, Möltu eða Lúxemborg ekki heldur.
En eftir sem áður er Danmörk með einhver slík skilyrði um notkun skattaskjóla í COVID-19 löggjöf sinni um fjárhagsaðstoð til fyrirtækja sem Ísland er til dæmis ekki með.
Um þetta hefur talsmaður danskra sósíaldemókrata í skattamálum, Troels Ravn, sagt: „Þetta er klárt skilyrði að fyrirtæki mega ekki nota skattaskjól ef þau ætla að fá að njóta þeirrar aðstoðar sem ríkið hefur upp á bjóða í kórónakrísunni. Þessi ríkisstjórn hefur, ef einhver hefur gert það, tekið skýra afstöðu gegn þeim sem reyna að komast hjá greiðslu skatta.“
Danskir fjölmiðlar hafa hins vegar fjallað um fyrirtæki eins og flugvélamatarfyrirtækið Gate Gourmet sem hefur fengið 42 milljónir danskra króna í hlutabætur. Endanlegur eigandi félagsins er í skattaskjólinu Cayman-eyjum en þar sem eignarhaldið er í gegnum röð eignarhaldsfélaga í Lúxemborg og Sviss þá á skilyrðið í dönsku lögunum ekki við þetta fyrirtæki. Fyrirtækið í Danmörku þarf að vera í beinni eigu fyrirtækisins í skattaskjólinu til að skilyrðið eigi við um það.
Ekki tekið tillit til hugmynda Indriða
Síðast í fyrradag skilaði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis frá sér breytingartillögu vegna lagsetningar um greiðslu ríkisins á hluta launa starfsmanna sem fyrirtæki hafa sagt vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19.
Indriði Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri, sendi nefndinni umsögn þar sem hann kom með tvær ólíkar útfærslur á því hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að fyrirtæki á lágskattasvæðum nýttu sér stuðninginn. Með lágskattasvæðum átti Indriði við svæði þar sem greiddur tekjuskattur er minna en 2/3 hlutar sambærilegs skatts á Íslandi.
Samkvæmt annarri hugmynd Indriða áttu „tengsl við lágskattasvæði ein sér“ að geta útilokað fyrirtæki frá því að geta nýtt sér stuðninginn: „Tillaga A felur í sér að tengsl við lágskattasvæði ein sér, þ.e. að hafa búið til möguleika á tekjuflutningi þangað, nægi til þess að útiloka viðkomandi aðila frá stuðningi með fé úr sjóðum almennings sem þeir hafa sýnt að þeir vilji ekki greiða sinn hluta til,“ eins og segir í erindi Indriða.
Hin hugmynd Indriða var að fyrirtæki þyrfti að sýna fram á að það hefði ekki haft tengsl við fyrirtæki á lágskattasvæðum í þrjú ár. „Tillaga B er frábrugðin að því leyti að með henni er gengið skemmra. Í henni er miðað við að til þess að öðlast rétt skv. lögunum þurfi að liggja fyrir að viðkomandi félag hér á landi eða raunverulegur eignandi þess hafi ekki átt í fjárhagslegum samskiptum við aðila sem staðsettur er á lágskattasvæði síðast liðin þrjú ár. Formleg en óvirk tengsl af þessum toga hafi því ekki áhrif á rétt hans,“ sagði í tillögu Indriða.
Efnahags- og viðskiptanefnd tók ekki tillit til þessarar tilllögu og eru engin slík skilyrði um að notkun lágskattasvæða eða skattaskjóla komi í veg fyrir að fyrirtæki geti nýtt sér þessa ríkisaðstoð á tímum COVID-19. Þá var, eins og liggur auðvitað ljóst fyrir sökum þess að Indriði sendi þessa umsögn inn til að byrja, engin slíkt skilyrði um lágskattasvæði eða skattaskjól í upphaflegu frumvarpi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar.
Mörg fyrirtæki með tengsl við lágskattasvæði
Þetta gerist samtímis og listi Vinnumálastofnunar og skýrsla Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina eru birt og í umræðunni. Í þeim gögnum koma fram nöfn þeirra fyrirtækja á Íslandi sem notað hafa hlutabótaleiðina á síðustu á mánuðum.
Mörg þessara fyrirtækja eru með eignarhald á lágskattasvæðum og eða nota fyrirtæki á slíkum svæðum með einum eða öðrum hætti í starfsemi sinni. Líklegt má telja að mörg þeirra fyrirtækja sem ákváðu að nýta sér hlutabótaleiðina muni einnig nýta sér úrræði ríkisins um að það greiði hluta launa starfsmanna þeirra á uppsagnarfresti ef þeim verður sagt upp.
Sem dæmi um fyrirtæki sem eru með beinu eða óbeinu eignarhaldi í skattaskjólum eða á lágskattasvæðum sem nýttu hlutabótaleiðina má nefna Sjóklæðagerðina, 66 gráður norður; matvælafyrirtækið Mata hf.; flutningafyrirtækið Samskip og hótelfyrirtækið Gistiver.
Þá nota fyrirtæki eins og til dæmis flugfélagið Air Atlanta félög á lágskattasvæðum eins og Möltu til að greiða laun starfsmanna sinna út í heimi jafnvel þó eignarhald félagsins sé alfarið á Íslandi.
Ef ríkisvaldið leyfir það eru öll fyrirtæki í rétti
Eins og fjallað hefur verið um í Stundinni í nokkrum fréttum þá voru ekki sett inn nein ákvæði um skattaskjól í lögum um hlutabótaleiðina, stuðnings- eða brúarlán, nú eða nú síðast í lögin um þáttöku ríkisins í greiðslu launa á uppsagnarfresti.
Þegar Stundin ræddi við framkvæmdastjóra matvælafyrirtækisins Mata, Eggert Árna Gíslason, og spurði hann hver væri endanlegur eigandi Möltufélagsins Coldrock Investments Limited á Möltu, sem aftur er í eigu annars félags á Möltu sem heitir HEGG, sagði hann að hann ætlaði ekki að ræða það: „Ég kýs bara að tjá mig ekki um þessi mál. Mér finnst ég ekki hafa neina ástæðu til að tjá um þetta. Ef það hefði legið fyrir í byrjun að hafa einhverjar takmarkanir á því hverjir mættu nýta hlutabótaleiðina þá hefði ég bara sætt mig við það. En ég ætla ekki að fara í einhverja umræðu í baksýnisspeglinum um þetta.“
Eins og Eggert bendir á var Mata hf. í fullum rétti til að nota hlutabótaleiðina af því engin skilyrði um eignarhald á lágskattasvæðum eins og Möltu höfðu verið sett inn í lögin. Mata hf. fylgdi því einfaldlega gildandi reglum og lögum.
Sömu sögu má segja um önnur fyrirtæki sem eru í eigu félaga á lágskattasvæðum. Með því að setja engin skilyrði í lagasetninguna um fjárhagsaðstoðina vegna COVID-19 er meirihlutinn á Alþingi að leggja blessun sína yfir möguleikann á því að fyrirtæki með tengsl við skattaskjól fái stuðning úr ríkissjóði.
Flutningsmenn frumvarpanna um COVID-19 stuðninginn er með þessu ekki að taka undir þær forsendur sem Indriði Þorláksson, til dæmis, byggir sína gagnrýni á skort á skilyrðum um bann við notkun skattaskjóla á.
„Skattaskjól sem slík eigi því að útiloka frá samskiptum á við önnur ríki og alþjóðasamfélagið“
Eins og Indriði orðaði það í umsögn sinni um frumvarpið um greiðslur ríkisins á launum á uppsagnarfresti vegna COVID-19: Þá hefur sú skoðun „verið hefur að styrkjast í fjölþjóðlegu samstarfi, að skattaskjól séu sem slík skaðleg fyrir þjóðir heims frá efnahagslegu og félagslegu sjónarmiði, ræni lönd skatttekjum, séu hemill á efnahagslegar framfarir og auki misskiptingu eigna og tekna. Tilgangur þeirra sem þau nota sé sá einn að komast undan því að greiða sinn hluta af samfélagslegri starfsemi. Skattaskjól sem slík eigi því að útiloka frá samskiptum á við önnur ríki og alþjóðasamfélagið.“
Athugasemdir