Hótelkeðjan Gistiver, sem er í eigu Hreiðars Más Sigurðssonar og eiginkonu hans Önnu Lísu Sigurjónsdóttur, nýtir hlutabótaleiðina svokölluðu í COVID-19 faraldrinum. Stærsti hluthafi Gistivers er eignarhaldsfélagið Hólmsver ehf. með tæplega 80 prósenta hlut en eiginkona Hreiðars Más á rúm 20 prósent. Sonur Hreiðars og Önnur Lísu, Arnór Hreiðarsson, er framkvæmdastjóri Gistivers.
Nafn fyrirtækisins kemur fram á lista Vinnumálastofnunar yfir fyrirtækin sem nýta eða nýttu hlutabótaleiðina.
Gistiver á og rekur sjö hótel og gistiheimili víða um land, að fullu leyti eða að hluta, meðal annars í Stykkishólmi, Reykjanesbæ, á Búðum og í Reykjavík. Meðal hótela félagsins eru Hótel Egilsen á Stykkishólmi, Hótel Berg í Reykjanesbæ og ION Hotel á Nesjavallasvæðinu. Nöfn ION Hotel og Hótel Búða eru einnig á lista Vinnumálastofnunar notuðu einnig hlutabótaleiðina en þau eru rekin á sér kennitölum þó Gistiver ehf. eigi hlut í þeim. Þannig má segja að þrjú fyrirtæki innan samstæðu Gistivers ehf. hafi nýtt sér hlutabótaleiðina.
Hreiðar Már Sigurðsson var bankastjóri Kaupþings fyrir hrunið 2008. Eftir hrunið hefur hann haslað sér völl sem fjárfestir, sérstaklega í ferðamannageiranum.
„Það fór bara allt í skrúfuna“
Í samtali við Stundina segir Anna Gréta Hafsteinsdóttir, hótelstjóri á Hótel Bergi einu af hótelum Gistivers, að COVID-19 hafi haft hörmulegar afleiðingar fyrir hótelið. „Það fór bara allt í skrúfuna. Það er svo einfalt. Í stuttu máli voru eiginlega allir okkar kúnnar erlendis frá,“ segir Anna Gréta aðspurð um notkun hótelsins á hlutabótaleiðinni en þetta er sama sagan og með nær öll hótel á Íslandi í kjölfarið á útbreiðslu COVID-19.
Eins og Stundin hefur fjallað voru ekki sett nein skilyrði í löggjöf um aðgerðir til að aðstoða fyrirtæki vegna afleiðinga COVID-19 fyrirtækin sem það gera nýti sér ekki skattaskjól eða lágskattasvæði. Þetta átti bæði um brúarlán, lokunarstyrki og eins hlutabótaleiðina. Oddný Harðardóttir, þigkona Samfylkingarinnar, reyndi hins vegar að fá frumvarpinu um COVID-aðstoðina breytt þess efnis að notkun á lágskattasvæðum og skattaskjólum myndi útiloka stuðning frá ríkinu. Þessi breytingatillaga rataði ekki inn í lögin.
Fjármögnun frá Tortóla
Eins og Stundin fjallaði um í febrúar 2019 var eignarhaldið á Gistiveri ehf. í gegnum sjóð hjá Sjóðsstýringarfyrirtækinu Stefni sem heitir Stefnir - Icelandic Travel Service Fund I. Eigandi þessa sjóðs var fyrirtækið Vinson Capital S.á.r.l. í Lúxemborg sem er í eigu Önnu Lísu Sigurjónsdóttur. Nánar tiltekið átti þessi sjóður í stýringu Stefnis félagið Hólmsver ehf. sem svo átti nærri 80 prósent í Gistiveri.
Þetta félag tók við rúmlega 310 milljóna króna eignum frá Tortólu í lok árs 2017. Tortólufélagið heitir Fultech S.á.r.l. og átti eignir upp á rúmlega 2,5 milljónir evra.
Þetta er ekki eina Tortólufélagið sem Hreiðar Már Sigurðsson hefur tengsl við. Í Panamaskjölunum komu meðal annars fram upplýsingar um félagið Robinson Associates sem Hreiðar Már færði yfir á nafn konu sinnar og eiginkonu Sigurðar Einarssonar eftir að hann hlaut dóm í Al Thani-málinu svokallaða.
„Þessir safnreikningar eru þannig að við sjáum ekki hverjir viðskiptavinir erlendra fjárfesta sem fjárfesta hjá okkur eru“
Félagið var í árslok 2017 sameinað Vinson Capital S.á.r.l. Í Lúxemborg með áðurnefndum eignatilfærslum og var þannig hægt að koma umræddum eignum frá Tortólu og til Lúxemborgar. Félagið í Lúxemborg átti umræddar eignir í ferðaþjónustu á Íslandi í gegnum þennan sjóð Stefnis.
Eins og þáverandi framkvæmdastjóri Stefnis, Flóki Halldórsson, sagði við Stundina í febrúar 2019 vissi Stefnir ekki hvaða fjárfestar væru á bak við þennan sjóð. Sjóðurinn var stofnaður í gegnum safnreikning í lúxemborgíska bankanum Banque Havilland, arftaka Kaupþings í Lúxemborg, á sínum tíma „Þessir safnreikningar eru þannig að við sjáum ekki hverjir viðskiptavinir erlendra fjárfesta sem fjárfesta hjá okkur eru. Við göngum bara úr skugga um að um sé að ræða fagfjárfesta og gerum ráð fyrir að erlenda fjármálafyrirtækið hafi staðfest þá sem fagfjárfesta […] Við áttum einn mann í fjárfestingarráði sjóðsins og Banque Havilland átti tvo að mig minnir en þetta fjárfestingarráð hefur ekki hist í mörg ár,“ sagði Flóki.
Sjóðsstýringarfyrirtækið sem hýsti sjóðinn og heimilaði fjárfestingar eigenda hans og var í forsvari fyrir þær vissi þar af leiðandi ekkert hver átti sjóðinn eða hvaðan fjármagn hans kom.
Sjóði Stefnis hefur verið slitið
Stundin greindi frá því í október í fyrra að Stefnir væri á „á lokametrunum“ í því að slíta umræddum sjóði. Í slíkum tifellum þá eignast eigendur hlutdeildarskírteina, hluthafarnir, í sjóðnum eignirnar sem sjóðurinn á.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er búið að ganga frá slitum sjóðsins. Sjóðurinn tengist Stefni því ekki lengur. Nafn sjóðsins kemur ekki lengur fram á yfirlitinu á heimasíðu Stefnis yfir þá sjóði sem félagið stýrir. Nafn sjóðsins kemur heldur ekki lengur fram á fram á yfirliti Fjármálaeftirlitsins um fagfjárfestasjóði.
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Vinson Capital S.á.r.l. í Lúexemborg átti félagið eignir upp á 2.7 milljónir evra í árslok 2018, tæplega 420 milljónir króna . Meðal eigna var „meira en 20 prósent“ í áðurnefndum sjóði á Íslandi sem átti meirihluta í Gistiveri.
Þetta þýðir þá að eigendur sjóðsins, fyrirtækið Vinson Capital Sárl. í Lúxemborg, sem meðal annars tók við eignum frá Tortólufélaginu Fulltech árið 2017, er nú milliliðalaus eigandi eigna sem sjóðurinn átti áður. Meðal þessara eigna er eignarhaldsfélagið Hólmsver ehf. sem á Gistiver ehf. sem nýtti sér hlutabótaleiðina.
Athugasemdir