COVID-faraldurinn hefur vakið ýmsar spurningar um hvernig samfélög eru skipulögð sem sumar snúast um hvaða hlutverki markaðir eiga að gegna í samfélögum. Dæmi um slíkt er nýleg yfirlýsing, undirrituð af yfir 3.000 fræðimönnum úr yfir 600 háskólum á heimsvísu, þar sem kallað var eftir samfélagsbreytingum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Ákallið snýst einkum um markaði, það er að vinna sé ekki eins og hver önnur markaðsvara og að mannlegri heilsu og aðhlynningu hinna viðkvæmustu verði ekki stýrt af markaðsöflum einum saman. Þetta er einkum áhugavert vegna þess að um allnokkurt skeið hefur hlutverk markaða verið svo gott sem sjálfgefið. Þegar eitthvað er sjálfgefið getur verið erfitt að átta sig á því hver vandamálin við það eru.
Gagnleg tæki
Markaðir eru tæki. Það er auðvelt að missa sjónar á því þegar maður fylgist með stjórnmálaumræðu þar sem umtalsverðu púðri er varið í að vera með eða á móti mörkuðum og markaðslausnum. Dálítið eins og ef smiðir skiptust í fylkingar eftir afstöðu til klaufhamarsins þar sem sumir vildu helst nota hann í allt á meðan andstæð fylking væri almennt mjög efins um ágæti hamarsins enda trésögin öðrum verkfærum fremri.
Hvort verkfæri er gott ræðst af verkinu sem þarf að vinna og hvort því er beitt af kunnáttu. Ef verkefnið er að negla nagla í eða draga úr vegg er klaufhamarinn prýðilegt tól en síður svo ef verkefnið er að skipta spýtu í tvo jafnstóra helminga. Þó klaufhamarinn sé tiltölulega einfalt verkfæri þarf vissa kunnáttu til að beita honum til að naglinn bogni ekki eða brotni, auk þess sem röng umgengni við verkfærið getur leitt til óhappa. Þá snýst kunnátta ekki bara um að vita hvernig á að nota og umgangast hamarinn heldur einnig um hvenær hann hentar ekki eða hvenær önnur tól henti betur jafnvel þó það sé hægt að notast við hamarinn.
Markaðir virkja samkeppni og hagsmuni til verðmætasköpunar. Á markaði fær fólk að keppa við hvað annað með það fyrir augum að hámarka eigin hag. Samkeppnin á að leiða til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni enda muni óhagkvæm og óskilvirk fyrirtæki taka sig á eða leggja upp laupana. Slík samkeppni getur skilað bæði einstaklingum og samfélagi betri lífskjörum en að því gefnu að regluverkið í kringum markaði dragi úr mögulegum skaðlegum afleiðingum markaðarins og beini starfsemi markaðarins í þannig farveg að það gagnist samfélaginu. Það er ekki sjálfgefið að hagsmunir fyrirtækja og fjármagnseigenda fari saman við hagsmuni samfélagsins og því þarf regluverk til að beina starfsemi á markaði þannig að hún geri samfélaginu gagn eða valdi því að minnsta kosti ekki skaða.
Markaðir eru sumsé tæki og býsna góð tæki til að skipuleggja framleiðslu og dreifingu ýmiss konar vöru og þjónustu, ef þeim er beitt af kunnáttu.
Markaðsvæðing
Lögmál verkfærisins er þekkt hugsanavilla. Sálfræðingurinn Abraham Maslow orðaði villuna þannig að það sé freistandi að sjá allt sem nagla ef eina tólið sem maður á er hamar. Við erum að vísu ekki í þeirri stöðu, verkfærakista nútímasamfélagsins er mun betur búin. Það er frekar það að ef eitthvert verkfæri hefur reynst okkur vel í sum verk sé freistandi að prófa að beita því á allt annað. Það er dálítið þar sem þjóðmálaumræðan hefur verið undanfarin ár. Fólk á ólíkum stöðum hins pólitíska litrófs hefur mismikið dálæti á mismunandi verkfærum og karpið snýst um hvert þeirra sé best að nota fremur en hvað við ætlum að byggja. Ágreiningur um leiðir fremur en markmið. Á undanförnum áratugum eru markaðir það tæki sem hefur vaxið hvað mest í vinsældum.
Sálfræðingurinn Abraham Maslow orðaði villuna þannig að það sé freistandi að sjá allt sem nagla ef eina tólið sem maður á er hamar.
Bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn Michael Sandel gerir greinarmun á markaðshagkerfi og markaðssamfélagi. Í markaðshagkerfi er mörkuðum beitt sem verkfæri í þágu samfélagsins. Í markaðssamfélögum gegnsýrir markaðshugsun alla þætti tilverunnar, það er samfélagið þjónar mörkuðum sem er beitt á viðfangsefni þar sem önnur tól eiga betur við. Mörkin á milli markaðshagkerfa og markaðssamfélaga eru þó ekki neitt sérstaklega skýr heldur geta samfélög verið markaðssamfélög í meira eða minna mæli. Sandel telur að á undanförnum áratugum hafi flest samfélög tekið á sig sífellt fleiri einkenni markaðssamfélaga.
Árið 1944 gaf hagsögufræðingurinn Karl Polanyi út fræga bók, The Great Transformation. Eitt af meginþemum bókarinnar er að markaðir séu ofnir inn í samfélagið sem þýðir að markaðir hvíla raunar alltaf að einhverju leyti á samfélagslegum stoðum, svo sem löggjöf, trausti, gildi og viðmiðum og ýmsum menningarlegum þáttum. Eitt sem leiðir af því er að markaðir eru aldrei fullkomlega frjálsir því þeir geta ekki virkað í félagslegu tómarúmi. Nýlegt dæmi um þetta er þegar fyrirtæki nýttu sér hlutabótaleiðina svokölluðu á sama tíma og þau greiddu hluthöfum arð en endurgreiddu svo Vinnumálastofnun vegna þeirrar reiði sem það vakti í samfélaginu. Frá sjónarhorni markaðarins gerðu þessi fyrirtæki ekkert rangt, þau nýttu tækifæri til að hámarka hag sinn. Þau brutu hins vegar gegn félagslegum gildum og viðmiðum sem liggja utan markaðarins og endurgreiddu hlutabæturnar út af mögulegum afleiðingum þess.
Þrátt fyrir að markaðir geti ekki virkað í félagslegu tómarúmi taldi Polanyi vissa tilhneigingu til að reyna að nálgast slíkt ástand með því að draga úr félagslegum áhrifum á markaði. Sú aukna markaðsvæðing sem Sandel greinir er einmitt dæmi um slíka þróun. Á undanförnum áratugum hefur einmitt verið áhersla á að koma fleiri þáttum samfélagsins á markað, til dæmis með sölu eigna hins opinbera og einkavæðingu opinberrar starfsemi. Á sama tíma hefur verið þrýstingur á að draga úr og einfalda regluverk í kringum markaði. Þegar ekki er hægt að koma verkefnum í hendur einkaaðila hefur ósjaldan verið brugðið á það ráð að koma á nokkurs konar gervimörkuðum þar sem reynt er að innleiða eins marga eiginleika markaða í opinberan rekstur og hægt er.
Mælikvarðarnir sem eru notaðir í opinberum og einkarekstri eru þó nokkuð ólíkir. Árangur í einkarekstri skilar sér í arðsemi. Árangur í opinberum rekstri snýst um hagræðingu, að gera það sama eða jafnvel meira með minni tilkostnaði. Stundum er hægt að auka hagkvæmni með því að breyta verkferlum eða innleiða nýja tækni en oftar en ekki þýðir hagræðing einfaldlega aukið álag, verri starfsgæði og vinnuaðstaða og tíðari kulnun. Langvarandi hagræðingarkrafa og aðhald geta þannig veikt samfélagslega innviði.
Markaðir og gildismat
Markaðssamfélagið gerir markmið markaða að sínum eigin. Fremur en að markaðir séu notaðir til að auka framleiðni á tilteknum sviðum verður framleiðni eitt af meginmarkmiðum samfélagsins. Nýverið orðaði fjármálaráðherra þessa áherslu mjög skýrt undir yfirskriftinni „Ísland í uppfærslu 2.0“. Það átti að nota COVID-tímann til að tryggja meiri afköst, framleiðni og auka samkeppnishæfni Íslands. Því markaðsvæddara sem samfélag er, því meira víkja önnur gildi fyrir markaðsgildum að því marki sem þau fara ekki saman við markaðsgildi. Eitt dæmi er að réttur fólks til mannsæmandi launakjara víkur fyrir arðsemi fyrirtækja. Annað dæmi er þjóðmálaumræðan í Bandaríkjunum þar sem málsmetandi aðilar færa rök fyrir því að atvinnulífið vegi þyngra en líf og heilsa fólks.
Það er samt mikilvægt að hafa í huga að ekkert samfélag er né getur orðið fullkomlega markaðsvætt. Það eru alltaf til staðar félagslegri þættir sem setja markaðinum skorður, til dæmis siðferðisleg gildi um hvernig við getum farið með hvert annað. Við getum skoðað það í samhengi við vinnumarkaði þar sem vinnuafl gengur kaupum og sölum. Vinnuafl er sérstök vara að því leyti að seljandinn fylgir alltaf með í kaupunum. Þegar við kaupum okkur bíl afhendir seljandinn okkur lyklana og fer. Þegar við kaupum vinnuafl þurfum við að fá seljandann með til að beita vinnuafli sínu í okkar þágu.
Af þessu leiðir að kaupandinn vinnuafls hefur ekki sama frelsi og til dæmis bíleigandi til að ráðstafa „eigninni“. Okkur er frjálst að fara illa með bílana okkar (upp að þeim tímapunkti sem þeir fá ekki lengur skoðun og eru teknir úr umferð) en almennt siðferði setur okkur skorður um hvernig við getum farið með starfsfólkið okkar. Af því félagslegt taumhald er veikburða stjórntæki erum við að auki með ýmiss konar lög og reglur um réttindi starfsfólks til að tryggja launafólki öryggi, afkomu og mannlega reisn. Réttindi starfsfólks eru ekki sjálfgefin og raunar umdeild á hverjum tíma enda setja þau atvinnurekendum skorður sem geta dregið úr hagkvæmni og skilvirkni. Markaðsvæðing vinnuafls, sem fræðimennirnir 3.000 gerðu að umtalsefni í yfirlýsingu sinni, snýst einmitt um þetta.
Fræðimennirnir gera einnig athugasemd við að farið sé með heilsu fólks og aðhlynningu sem markaðsvörur, en það mikilvæga gildi að ævilengd og heilsa eigi ekki að ráðast af efnahag hefur einmitt víða hopað gagnvart markaðsgildum.
COVID í markaðssamfélagi
Á vissan hátt hefur COVID-faraldurinn dregið fram annmarka markaðssamfélagsins. Bandaríkin eru líklega skýrasta dæmið enda líklega það þjóðfélag sem hefur gengið lengst í markaðsvæðingu samfélagsins. Á meðal þess sem hefur verið Bandaríkjunum fjötur um fót í baráttunni við veiruna er að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mjög misskipt enda bandaríska heilbrigðiskerfið ákaflega markaðsvætt. Þá hafa veik réttindi vinnandi fólks verið til trafala enda margt fólk sem stendur frammi fyrir því vali að hætta á að veikjast eða vera tekjulaust. Bæði þessi einkenni bandarísks samfélags eru mjög í samræmi við sterka áherslu á markaði þar í landi en í þessu tilfelli rekast þær áherslur á við annað mikilvægt markmið: Heilbrigðisöryggi.
Ísland hefur ekki farið varhluta af markaðsvæðingu undanfarinna áratuga frekar en önnur þjóðfélög þó íslenskt þjóðfélag sé ekki markaðssamfélag í sama mæli og það bandaríska. Vinnandi fólk nýtur til dæmis ákveðinna grundvallarréttinda og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er almennt. Samfélagslegir innviðir gætu hins vegar verið sterkari. Ýmis opinber starfsemi hefur búið við langvarandi aðhaldskröfu sem hefur leitt til aukins álags sem meðal annars birtist í því að kulnun er vaxandi vandamál.
Það er freistandi að líta á COVID-19 sem nokkurs konar álagspróf á ýmis kerfi hins opinbera og halda því fram að þau hafi staðist prófið, að það sé til marks um að allt sé í lukkunnar velstandi. Þá er ágætt að hafa í huga að það þurfti að stofna bakvarðasveitir fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu til að mæta álaginu sem fylgdi faraldrinum. Það á líka eftir að koma í ljós hverjar afleiðingarnar af viðbótarálaginu af COVID-faraldrinum fyrir starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu verða en í mörgum tilfellum var álagið umtalsvert fyrir.
Athugasemdir