Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fram fyrirspurnir á Alþingi um kostnað vegna þeirra fyrirspurna sem þingflokkur Pírata hefur lagt fram. Sjálfur hefur hann á sjö ára ferli á Alþingi aðeins lagt fram eina fyrirspurn áður og eitt frumvarp sem fyrsti flutningsmaður.
Brynjar hefur verið gagnrýninn á stjórnmál Pírata og segir flokkinn kæfa þingið í fyrirspurnum. Lagði hann því sjálfur í vikunni fram tíu fyrirspurnir til allra ráðuneyta og óskaði eftir upplýsingum um fjölda fyrirspurna og sér í lagi kostnað ráðuneytanna við að svara fyrirspurnum Pírata.
Björn Leví svaraði sjálfur fyrirspurninni að hluta á Facebook síðu sinni í gærkvöldi. Segir hann að á yfirstandandi þingi séu Píratar með flestar fyrirspurnir, eða rúman fjórðung heildarfjölda fyrirspurna sem eru 351 talsins. Einungis muni þó 6 fyrirspurnum á þeim og flokknum í öðru sæti, Miðflokknum. Tvö þingin þar á undan hafi Píratar einnig trónað á toppnum, en þar áður hafi Vinstri græn leitt þingflokkana í fjölda fyrirspurna.
Þá bendir Björn Leví á að vegna fyrirspurna hans um aksturskostnað þingmanna hafi kostnaðurinn lækkað úr 42,7 milljónum árið 2017 í 30,7 milljónir árið 2018 og svo í 26,1 milljón árið 2019 samkvæmt áætlun. „Ég skal lofa því að fyrirspurnirnar mínar kostuðu minna en þetta klúður stjórnvalda,“ sagði hann jafnframt um mistök við lagasetningu við lög um almannatryggingar sem urðu til þess að ríkið þurfti að greiða lífeyrisþegum 5 milljarða króna. „En þau urðu vegna þess að þingmálinu var troðið í gegnum þingið rétt fyrir þinglok 2016,“ bætti hann við.
„Ég býð því Brynjar velkominn í gagnsæisklúbbinn“
„Að öðru leyti er þetta ágætis spurning hjá Brynjari,“ skrifar Björn Leví. „Auðvitað eigum við að vita þetta. Það er bara dálítið kaldhæðnislegt að ég og Jón Þór [Ólafsson, þingmaður Pírata] höfum þegar spurt um þetta, á aðeins annan hátt að vísu. Ég nú nýlega með því að spyrja um kostnað lögbundinna verkefna. Það má vera að sundurliðunin verði ekki nægilega góð til þess að sjá nákvæmlega þessar upplýsingar en að sjálfsögðu eiga þær að vera til, eins og allt annað í opinberum fjármálum. Ég býð því Brynjar velkominn í gagnsæisklúbbinn. Það vantar alltaf fleiri því ógagnsæið í opinberum fjármálum er algjör hörmung.“
Eina frumvarpið um refsingu við tálmun
Brynjar var kosinn á þing árið 2013. Síðan þá hefur hann aðeins lagt fram eitt frumvarp sem fyrsti flutningsmaður, ef undan er skilið nefndarfrumvarp sem hann lagði fram þegar hann var til skamms tíma formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Frumvarpið sem Brynjar lagði fram hefur hann lagt fram þrisvar sinnum frá 2017, en það varðar refsingu við tálmun eða takmörkun á umgengni. Í nýjustu útgáfu þess vilja flutningsmenn, allir þeirra þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að tálmun varði sektum eða fangelsi allt að fimm árum, en að slík brot sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu.
Þá hefur hann lagt fram eina fyrirspurn áður en hann spurðist fyrir um fyrirspurnir Pírata. Var sú fyrirspurn um sorgarorlof feðra, en hann lagði hana fram nú í mars á þessu ári.
Athugasemdir