Dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga hefur ákveðið að endurgreiða 17 milljóna króna hlutabætur sem starfsmenn kjötvinnslu fyrirtækisins, Esju Gæðafæði, fengu í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupfélagi Skagfirðinga.
Stundin fjallaði um notkun Kaupfélags Skagfirðinga á hlutabótaleiðinni fyrir helgi.
Í tikynningnni um endurgreiðsluna segir: „Að gefnu tilefni skal tekið fram að kjötvinnslan hefur aldrei greitt kaupfélaginu arð. Vegna umræðu um arðgreiðslur er áréttað að Kaupfélag Skagfirðinga starfar á grundvelli laga um samvinnufélög. Af þeirri ástæðu hefur það alla tíð, eða í 130 ár, nýtt langstærstan hluta framlegðar starfseminnar til innri uppbyggingar í stað hefðbundinna arðgreiðslna hlutafélaga til eigenda sinna.“
50 prósent tekjufall
Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri Esju og forstöðumaður kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, ræddi um þá ákvörðun félagsins að nýta sér hlutabótaleiðina í frétt Stundarinnar. „Esjan er fyrst og fremst matvælafyrirtæki sem þjónustar veitingahús og stóreldhús á markaði. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það hvaða áhrif það hefur á okkur þegar engir ferðamenn eru hér á landi. Mörgum veitingahúsum hefur verið lokað og mötuneyti eru lokuð.“
Ágúst sagði að tekjufall Esju vegna COVID-19 hafi verið 50 prósent í apríl.
„Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það hvaða áhrif það hefur á okkur þegar engir ferðamenn eru hér á landi“
Kaupfélag Skagfirðinga keypti kjötvinnsluna Esju árið 2016 sem og kjötverslunina Gallerí Kjöt. Samkeppniseftirlitið þurfti að samþykkja kaupin á kjötvinnslunni vegna sterkrar stöðu Kaupfélags Skagfirðinga á kjötmarkaðnum á Íslandi. Esja hefur verið rekin í gamla húsnæði Osta og smjörsölunnar á Bitruhálsi í Reykjavík sem kaupfélagið keypti fyrir nokkrum árum.
Esja var með tæplega 2,8 milljarða tekjur árið 2018 en skilaði nærri 200 milljóna tapi.
Listinn lengist
Í tilkynningunni í dag útskýrir Kaupfélag Skagfirðinga ákvörðun sína um endurgreiðsluna svona: „Með þessari ákvörðun er sú stefna kaupfélagsins undirstrikuð að leita allra leiða til þess að ná því markmiði innan samstæðunnar án sértækrar aðstoðar frá íslenska ríkinu. Þess vegna verður fenginn ríkisstuðningur á grundvelli hlutabótarleiðar endurgreiddur.“
Þetta dótturfélag Kaupfélagsins bætist við hóp þeirra fyrirtækja sem hafa ákveðið aðendurgreiða hlutabætur. Fyrir helgi tilkynni Skeljungur meðal annars um slíka endurgreiðslu í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla.
Athugasemdir