Ráðgjafafyrirtækið Capacent hefur nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda en framkvæmdastjóri fyrirtækisins segist ekki geta upplýst um hversu margir starfsmenn hafa verið færðir í minna starfshlutfall nema með samþykki stjórnar. Það samþykki fái hann ekki fyrr en eftir helgi í fyrsta lagi. Hagnaður fyrirtækisins nam rúmum þrettán milljónum króna árið 2018 og lagði stjórn til að greiddur yrði út arður að upphæð 7,3 milljónir króna á árinu 2019. Ársreikningur fyrir árið 2019 hefur ekki verið birtur.
Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri Capacent, staðfesti í samtali við Stundina að fyrirtækið hefði nýtt sér hlutabótaleiðina. „Já, það er rétt,“ sagði Halldór en vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo komnu máli. „Ég hefði nú viljað fá fullvissu um það frá minni stjórn um að mér væri alveg bært að tjá mig um þetta, þannig að ég myndi vilja vera alveg klár á því að ég mætti það. Svo skal ég glaður svara þessu.“
Spurður hvernig á því stæði að hann þyrfti heimild stjórnar til að tjá sig um málið sagði Halldór að hann vildi bara fullvissa sig um að honum væri það heimit og sömuleiðis upplýsa stjórn fyrirtækisins um að hann hefði fengið spurningar sem þessa. Spurður hvenær sú heimild yrði tiltæk sagði Halldór: „Á mánudag ætti ég að geta verið alveg klár í spjallið.“
Samkvæmt heimasíðu Capacent á Íslandi vinna um 50 ráðgjafar hjá fyrirtækinu sem hjálpa viðskiptavinum sínum að finna og ráða fólk í störf, móta skipulag fyrirtækja, efla stjórnun og mannauð og aðstoða við hagræðingu í rekstri, auk annars. Ekki var hægt að fá upplýsingar um það að svo stöddu máli hvers vegna fyrirtækið hefði talið þörf á að nýta hlutabótaleiðina eða hvernig efnahagskreppan af völdum Covid-19 hefði hitt fyrirtækið fyrir.
Athugasemdir