Það var einn sólbjartan sunnudagsmorgun fyrir mörgum árum að síminn hringdi og hringjarinn sagði við mig djúpri röddu án þess að segja til nafns: Einn maður framar öðrum hefur ekki fengið að njóta sannmælis og liggur enn óbættur hjá garði. Þessi nýi símavinur kann aldeilis að fanga athygli mína svo snemma að morgni helgidags, hugsaði ég, og hjartað sló örar því ég aðhyllist sannmæliskenninguna, þá kenningu að réttlæti felist öðrum þræði í að menn fái að njóta sannmælis fyrir orð sín og gerðir. Og hver er það? spurði ég hringjarann. Fyrst kom löng þögn og síðan kom svarið: Gengis Kan! Símtalið varð ekki miklu lengra.
Gengis Kan (1162–1227) réð sem keisari fyrir stærsta samfellda heimsveldi sögunnar og teygði sig yfir gervallan landmassa Asíu að mörkum Evrópu. Innrásir morðóðra Mongóla undir stjórn hans kostuðu ótaldar milljónir mannslífa. Gengis Kan nýtur nú sem fyrr ekki mikils álits í Kína þótt hann ryddi silkibrautina, en hann er þjóðhetja í Mongólíu, heimalandi sínu. Evrópumenn eru margir á báðum áttum, samt ekki hringjarinn, enda sluppu þeir að mestu undan herjum keisarans.
Klemmd milli tveggja risa
Mongólía er risavaxið land, fimmtán sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og níu sinnum fjölmennara og að því skapi strjálbýlla. Kommúnistar tóku völdin í landinu 1924 og stjórnuðu því með harðri hendi undir handarjaðri Sovétríkjanna. Hélzt sú skipan allt til ársins 1992 enda voru Sovétríkin þá liðin undir lok. Landamæri Mongólíu og Rússlands að norðanverðu eru 3.500 km löng og landamæri Mongólíu og Kína að sunnanverðu eru 4.600 km á lengd. Samtals eru landamæri Mongólíu allan hringinn á við sexfaldan hringveginn kringum Ísland.
Fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna hefur vegnað misvel á eigin vegum. Bezt hefur gengið í Eystrasaltsríkjunum þrem, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Þau köstuðu af sér hlekkjunum með sögufrægri hjálp Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra fyrir Íslands hönd, hjálp sem enn er mikils metin í þessum löndum og þau minnast um þessar mundir er þau fagna 30 ára frelsisafmæli sínu. Þau gengu ótrauð inn í ESB 2004 og bjóða nú fólki sínu beztu lífskjör sem í boði eru meðal fv. sovétlýðvelda, ekki bara hæstu tekjurnar og lengstu ævirnar heldur einnig lýðræði og mannréttindi.
Tekjur á mann í Eystrasaltslöndunum höfðu á Sovéttímanum verið miklu lægri en í Rússlandi eins og í ljós kom þegar múrarnir hrundu, enda voru þessi þrjú smáríki öll þau ár aðeins vanræktur útkjálki Sovétríkjanna líkt og Karelía er enn í dag vanræktur hluti Vestur-Rússlands. En nú eru tekjur á mann í Eistlandi og Litháen fimmtungi hærri en í Rússlandi. Einnig Lettland sem hefur átt við erfið mál að glíma býður sínu fólki hærri tekjur á mann en Rússland með alla sína olíu. Með hruni olíuverðs á heimsmarkaði að undanförnu er viðbúið að Rússland dragist lengra aftur úr Eystrasaltslöndunum í efnahagslegu tilliti næstu ár.
Og svo er annað: Fleira skiptir máli en efnahagurinn einn saman. Meðalævin er nú komin upp í 79 ár í Eistlandi, 75 ár í Lettlandi og 76 ár í Litháen á móti 73 árum í Rússlandi. Og lýðræði og mannréttindi blómstra við Eystrasalt.
Hagtölur og félagsvísar
En Mongólía? Hvað skyldi vera að frétta úr Góbíeyðimörkinni?
Þegar Sovétríkin féllu á gamlaársdag 1991 var munurinn á kaupmætti árlegra þjóðartekna á mann í Mongólíu og Rússlandi fjórfaldur Rússum í vil. Nú er tekjumunurinn bara tvöfaldur þar eð hagvöxtur í Mongólíu hefur verið mun örari en í Rússlandi. Mongólar lifa nú að jafnaði níu árum lengur en þeir gerðu 1990, en Rússar lifa nú tæpum fjórum árum lengur en þeir gerðu 1990 og Kínverjar tæpum átta árum lengur. Þetta segir okkur að fleira skiptir máli fyrir hagsæld fólks og velsæld en tölur um tekjur á mann.
Meðalævi Mongóla hefur lengzt úr 48 árum 1960 í 70 ár nú. Minnkandi barnadauði á mikinn þátt í þessum umskiptum. Meðalævi Rússa hefur lengzt úr 66 árum 1960 í 73 ár nú. Hliðstæðar tölur um Ísland eru 73 ár 1960 og 83 ár nú. Sem sagt: Mongólar hafa bætt 22 árum við meðalævi sína frá 1960, Rússar sjö árum og Íslendingar tíu. Með meðalævi er átt við þann aldur sem nýfætt barn getur tölfræðilega vænzt þess að ná.
Hver kona í Mongólíu fæddi sjö börn að jafnaði 1960 borið saman við sex börn í Kína, fjögur á Íslandi og tvö og hálft í Rússlandi. Nú eru frjósemistölurnar komnar niður í 1,7 börn í Kína eins og á Íslandi, 1,6 í Rússlandi og þrjú í Mongólíu. Mongólar voru komnir niður í 2,1 barnsfæðingu á hverja konu árin eftir aldamótin 2000, og það er talan sem tryggir óbreyttan fólksfjölda fram í tímann, en þeim virðist hafa snúizt hugur og fjölgar nú aftur ört.
Aðrir félagsvísar segja svipaða sögu um Mongólíu: um menntun fólksins, lýðheilsu, lög og rétt, jöfnuð í tekjuskiptingu og fleira. Sá vísirinn sem mestu kann að skipta þegar öllu er á botninn hvolft er lýðræðisvísitalan. Á lýðræðisvog bandarískra stjórnmálafræðinga í háskólanum í Maryland þar sem mest notaða lýðræðisvísitalan er soðin saman hefur Mongólía fengið fullt hús stiga allar götur frá 1997. Freedom House, óháð stofnun sem hefur fylgzt með lýðræði um allan heim og kortlagt það samfleytt frá 1972, tekur í sama streng. Þar fær Mongólía að vísu ekki fullt hús stiga heldur 84 stig af 100 mögulegum borið saman við 89 til 94 stig í Eystrasaltsríkjunum, 20 stig í Rússlandi og tíu stig í Kína. Ísland fær 94 stig eins og Eistland, Danmörk fær 97 stig, og Finnland, Noregur og Svíþjóð fá 100 stig, fullt hús þar.
Auðlindir og spilling
Gott ástand lýðræðis í landfræðilegri þvingu milli ólýðræðislegra risavelda á báða vegu er engin allsherjartrygging fyrir velsæld og velsæmi, allra sízt þegar náttúruauðlindir eru helzta útflutningsafurðin eins og í Mongólíu sem framleiðir og flytur út ógrynni af kolum, málmum og olíu. Spillingarvísitölur frá Transparency International bera vitni. Spillingarvísitala Mongólíu hefir aldrei komizt upp fyrir 39 stig af 100 mögulegum borið saman við 56 til 74 stig í Eystrasaltsríkjunum nú, 28 stig í Rússlandi og 41 stig í Kína. Mongólía er þarna á svipuðu róli og önnur ríki á hliðstæðu þróunarstigi.
Þau hjá Gallup hafa svipaða sögu að segja. Árið 2012 sögðu 83% svarenda Gallups í Mongólíu að spilling væri „útbreidd í öllu stjórnkerfi Mongólíu“, borið saman við 64% í Eistlandi, 67% á Íslandi, 75% í Lettlandi, 80% í Rússlandi og 90% í Litháen. Kína var einhverra hluta vegna ekki með í úrtakinu.
Í Mongólíu hefur of mikill auður og of mikið vald safnazt á fárra hendur í kringum auðlindabúskapinn.
Vandinn hér er sá að spilling getur grafið undan lífskjörum almennings til langs tíma litið sé hún ekki upprætt í tæka tíð. Bandaríski hæstaréttardómarinn Louis Brandeis 1916–1939 orðaði sömu hugsun vel. Hann sagði: „Birta … er bezta sótthreinsunarlyfið“. Í Mongólíu hefur of mikill auður og of mikið vald safnazt á fárra hendur í kringum auðlindabúskapinn. Þessum auði og þessu valdi þarf að dreifa til að treysta lýðræðið í sessi og tryggja lífskjör fólksins fram í tímann. Að því marki liggja færar leiðir. Ein leiðin er að koma á fót sérstakri stofnun til að kljást við spillingu. Svíar settu slíka stofnun (Riksenheten mot korruption) á laggirnar hjá sér 2006. Það má kalla hyggilegar forvarnir í svo að segja óspilltu landi. Taílendingar höfðu áður komið sér upp slíkri stofnun með stjórnarskrárbreytingu 1999. Ég þekki forstjórann sem sagði mér fyrir nokkru að hún hefði fengið gríðarlega grjóthnullunga fljúgandi inn um gluggana til sín á forstjóraskrifstofunni í Bangkok. Enginn meiddist. Ég hef marglagt það til að Íslendingar komi sér upp sams konar viðbúnaði til aðhalds og eftirlits, helzt með skotheldum gluggum. Slíkur viðbúnaður er til þess fallinn að efla traust og samheldni og búa í haginn fyrir framtíðina.
Ég hef einnig lagt þetta til í Mongólíu.
Athugasemdir