Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi dróst saman um 60 prósent í mars mánuði miðað við sama tíma á síðasta ári. Í byrjun mánaðarins nam veltan um 80 prósentum af veltu sama tíma á síðasta ári en síðustu daga mánaðarins var hún orðin aðeins fjögur prósent.
Þetta kemur fram í gögnum sem Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur tekið saman. Samdrátturinn sem um ræðir tekur til kortaveltu erlendra ferðamanna án flugsamgangna og er samdráttur í öllum flokkum sem tilteknir eru. Heildarvelta erlendra korta nam 6,95 milljörðum króna í mánuðinum.

Mest dróst eyðsla erlendra ferðamanna saman í flokknum ýmis ferðaþjónusta en þar var samdrátturinn 75,8 prósent í mánuðinum. Þar nam veltan tæpum 800 milljörðum króna, borið saman við um 3,2 milljörðum króna í mars árið 2019. Velta í gistiþjónustu nam 1,8 milljörðum í mars síðastliðnum og dróst saman um 2,5 milljarða milli ára. Erlend kortavelta í veitingaþjónustu var 931 milljón króna og dróst saman um 58 prósent frá fyrra ári.

Athugasemdir