Þegar ég skreið upp í rútukálf með meirapróf fyrir tæpum tveimur árum síðan, þá þrefölduðust mánaðarlaunin mín. Ég varð fljótlega svolítið rogginn með sólgleraugu á sveittum skalla, blátönn í eyranu og guðsgræna dollarana blaktandi upp úr rassaskorunni. Ég var farinn að halda að ég væri eitthvað.
Maður sem enginn hafði nokkurn tíma nennt að hlusta á í matarboðum var allt í einu kominn með helling af þakklátum áheyrendum. Opineygðir túristar hlustuðu í andakt þegar ég baulaði um Alþingi Íslendinga inn í hljóðkerfið. Þetta var auðvitað heilmikil upphefð og nú þegar síðasti túristinn er búinn að slökkva ljósin í Leifsstöð ofbýður mér virðingarleysi fjölmiðla. Veistu hver ég var? Af hverju geta fjölmiðlar ekki druslast til að kalla starf mitt „Ferðaþjónustu“? Og af hverju eru allir svona vondir við Grím í Bláa lóninu? Má hann ekki vera með dollara í rassaskorunni í friði eins og við hin?
Étinn með spurningum
Þegar ég hugsa út í það, þá er ekki víst að Ferðaþjónusta lýsi því best sem ég var að gera. Vændisþjónusta nær miklu betur utan um það. Svona meðvituð útvíkkun á rassgati, dag eftir dag, var auðvitað ekkert annað en vændi.
Ég seldi tíma minn og mannlega hlýju. Þurfti að gera flest sem vændissali gerir fyrir utan það að gyrða niður um mig úti í hrauni. Vanvita túristar átu mig að innan með spurningum um allt og ekkert. Ég efast um að nokkur vændismaður eða -kona á Kúbu þurfi að svara því hvort það sé alltaf snjór í fjöllunum. Eða hvort það sé alltaf rigning á Íslandi? Heyrðu, það er rok! Er ALLTAF rok á Íslandi?
Einhverjum finnst kannski gróft að tala um vændi í þessu samhengi og kannski er ég að gera lítið úr mansali. Við skulum venda kvæði okkar í kross og kalla þetta þá frekar þrælahald.
Dagleiðin hans afa
Það er svolítið merkilegt að víkingaskipin sem fluttu forfeður okkar yfir hafið frá Noregi á sínum tíma voru álíka stór og meðal Gray Line rúta. Þessi fallegu sjóskip voru full af írskum þrælum en þúsund árum síðar skiptum við þeim út fyrir ameríska ellilífeyrisþega, þýska aumingja og kínverskar unglingsstelpur. Við gátum ekki látið þetta fólk þræla neitt af viti en við létum það í staðinn borga fyrir að skoða fossa og knúsa smáhesta.
Við sóttum pakkið – eða PAX eins og það er kallað – á rútustöðvar og brunuðum með það út úr bænum á nítján sæta steypireyðum. Yfirleitt þurftum við ekki að fara með þrælana lengra en upp að Gullfossi, austur í Reynisfjöru eða vestur á Djúpalónssand. Þegar ég keyrði með PAX niður Kambana með hljóðnema borandi í kinnina þá hófst ræðan hjá mér nokkurn veginn svona:
Jæja, kæru farþegar. Landslagið er óvenju opið og fallegt í dag. Þarna til vinstri sjáum við Heklu, síðan Tindajökul og Eyjafjallajökul beint af augum. Langafi minn, Guðmundur Þorbjarnarson, var vanur að fara hér um með sauðfé og hesta. Hann fór nákvæmlega sömu leið en með annað tímaskyn. Dagleiðin hjá langafa voru rétt rúmir sjötíu kílómetrar þannig að tveir dagar hjá honum eru varla tvær klukkustundir hjá okkur.
Og hér er ég að aka ykkur sömu leið hundrað árum síðar. Finnst ykkur það ekki stórkostlegt? Stóri munurinn er auðvitað sá að þið endið ekki í sláturhúsi. Það hefur svo sem hvarflað að mér að skilja ykkur eftir í sláturhúsinu austan við Selfoss og bruna í burtu með Public Enemy í botni í græjunum svo ég heyri ekki kæfð ópin úr allra þjóða kvikindum þegar ykkur er slátrað eins og svínum við færibandið.
Afdankaður rithöfundur í smárútu
Satt best að segja finnst okkur leiðsögumönnum túristar vera óttalegir kjánar. Hvaða heilvita manni dettur í hug að kaupa sér far með afdönkuðum rithöfundi í smárútu á hjara veraldar? Þegar ég fer til útlanda sjálfur skutla ég töskunni inn á næsta Airbnb og fer á barinn að spjalla, narta í smárétti og sturta framan í mig nokkrum vínglösum. Stundum loka ég mig inni á gistingunni með handrit, reyni kannski aðeins við gestgjafa eftir kvöldmat – ef það er færi. En ég fer andskotinn ekki að leita að frægum stöðum á kortinu eða taka sjálfsmynd á tuttugu sekúndna fresti. Hvað er það? Haldið þið í alvöru að það sé ekki til nóg af myndum af ljótu fólki fyrir framan Skógafoss?
Þið flissið? Já, flissiði bara … ég mun sturta ykkur í Jökulsá ef þið hagið ykkur ekki!
„Það eru til dómar um okkur öll“
Auðvitað talaði ég ekki svona við farþegana, ég vissi að Tripadvisor myndi refsa mér ef ég misstigi mig. Sumir félagar mínir féllu í valinn fyrir að tala illa um Donald Trump, aðrir fyrir að gretta sig á vitlausum stöðum eða vera einfaldlega illa upp lagðir og fámálir. Það eru til dómar um okkur öll, alveg eins og um vændiskonur þessa heims. Þeir sem kunna að gúgla, þeir finna.
Alhæfingar
Þórarinn Leifsson ók alla nóttina án þess að segja orð. Valería virtist ekki njóta þess þegar ég þrengdi mér inn í hana, hún nennti ekki einu sinni að þykjast. Við vorum öll dæmd og síðan hefndum við okkar þegar við hittumst á kaffistofunum. Ræddum okkar á milli um túristana sem við vorum með þann daginn. Við alhæfðum um þjóðir.
„Bretar voru í öðru sæti vegna þess að þeir höfðu svipaðan húmor og við“
Enskumælandi voru vinsælastir vegna þess að flest okkar vorum með ensku sem annað tungumál. Bandaríkjamenn í öndvegi, líklegir til að gefa þjórfé og þægilegir í alla staði. Á þessu voru þó undantekningar, þeir gátu verið hávaðasamir og heimskir. Bretar voru í öðru sæti vegna þess að þeir höfðu svipaðan húmor og við, enda náskyldir okkur gegnum írska þræla. Aðrar þjóðir voru metnar neðar. Spænskumælandi þjóðir þóttu frekar og lélegar í ensku. Frakkar fálátir og þurrir. Það sama átti við um Þjóðverja sem voru þar að auki oft óþarflega kröfuharðir og smámunasamir. Skandínavar ögn skárri en þó svo sjaldgæfir að það nennti enginn að pæla í þeim. Kínverjar voru ekki vinsælir, gáfu aldrei þjórfé, skildu ekki neitt og voru þar af leiðandi alltaf að týnast bak við næstu sjoppu. Indverjar voru illa þokkaðir, áttu það til að vera hrokafullir og viljandi seinir í rútuna. Neðst á listanum voru Ísraelsmenn. Sumir geðbilaðir eftir herþjónustu og svo árásargjarnir að bílstjórar báðust grátandi undan að aka með þá.
Þögnin á kaffistofunum
Svona töluðum við. En núna ríkir þögnin ein á kaffistofum Suðurlands. Þetta er búið.
Síðasti túrinn minn fyrir hrun var með þrettán spænskumælandi í fimm daga ferð á Suðurströnd og Snæfellsnes. Fremstur í flokki fór baskneskur áhrifavaldur sem ferðaskrifstofa í Madrid gerði út. Rauðhærður gleðibangsi með 24.700 áhangendur á Instagram. Ég læt murka lífið úr honum með ísexi í fyrsta kafla í handriti sem ég er að klára. Á reyndar eftir að ákveða hver sé morðinginn. Ekki leiðsögumaðurinn – það væri of augljóst.
Annars var þetta skemmtileg vika í blábyrjun mars og dró aldeilis til tíðinda síðasta daginn.
Ég var að gefa fólkinu upp tímasetningar laust fyrir klukkan tvö á föstudegi við gömlu bryggjuna á Arnarstapa þegar ég varð afi. Og þegar ég skilaði þeim öllum í bæinn lá dótturdóttir mín spriklandi í fanginu á mömmu sinni aðeins fjögur hundruð metrum frá hótelinu. Þau að fara, hún svona nýkomin í heiminn. Og um leið breyttist allt, því viku síðar hrundu allar bókanir í kringum mig eins og spilaborg.
Síðustu farþegarnir
Ég tékkaði á spænska hópnum í Whatsup-grúppunni fyrir nokkrum dögum síðan.
Svo dapurlegt allt saman, segir Lára í Zaragoza.
Láttu ekki hugfallast, við komumst í gegnum þetta saman, segir Carmen katalónska og sendir boð um að allir ætli út á svalir um kvöldið og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Carmen og Ramón voru í uppáhaldi hjá mér, alveg eins og yndisleg hjón frá Medelín sem segjast núna vera fegin að fá strákana sína tvo úr einangrun.
Fransisco í Valensíu er nokkuð brattur, búinn að bjóða okkur feðgum á fótboltaleik eftir kófið. Mikið sem við hlökkum til.
Sílenskar vinkonur – dómarar í undirrétti – senda myndir af sístækkandi vínbirgðum, rauðu freyðivíni. Við erum alveg góðar, skrifa þær. Í einangrun en vel birgar. Þær birta Tiktok myndir með risakattaaugu og kampavínsglös. Þær voru vanar að sitja beint fyrir aftan mig og jarma um norðurljósin. Ég þoldi þær aldrei.
Situr uppi með Þjóðverja
Ísabella í Almeríu leigir eitt herbergi út frá sér á AirBnb og situr núna uppi með vegalausan Þjóðverja. Fluginu til Frankfurt var aflýst og maðurinn veit ekki einu sinni hvernig hann á að skila leigubíl út á völl. Ég segi henni frá barnabók sem ég skrifaði einu sinni um mannætu. Þýska mannætan Armin Meiwes hafði kveikt í mér. Engar áhyggjur, segir hún. Hann er gott fólk. Mjög ÞÝSKUR en samt buena gente.
Ég kveð þrælana mína á Whatsup. Auðvitað þykir mér vænt um þau – langflest að minnsta kosti. Ég er bara mannlegur eftir allt saman. Og þau eru manneskjur, ekki bara PAX.
Núna verð ég að klára handritið að nýrri bók áður en partíið byrjar aftur. Áður en ég veit af mun einhver flotastjórinn hringja og ég stökkva upp í næstu smárútu og spæna upp Ártúnsbrekkuna með græjurnar í botni.
Athugasemdir