Einu sinni fyrir margt löngu skipti ég um heimilisfang án þess að flytja. Ég bjó á stúdentagörðum að Suðurgötu 73 en með einu pennastriki breyttist heimilisfangið í Eggertsgötu 8, án þess að ég hreyfði mig neitt. Það var eitthvað svolítið skrýtið við þetta en því fylgdi svo sem engin röskun á lífi mínu, fyrir utan smávægilegt ómak við að tilkynna hér og þar um breytt heimilisfang. Það sem við höfum upplifað undanfarnar vikur á sitthvað sameiginlegt með þessu, en það er samt auðvitað svo margfalt áhrifameira að því verður ekki saman jafnað. Flest erum við þessa dagana aðallega heima hjá okkur en við höfum samt flutt, ekki bara í aðra götu heldur í annan heim eða hliðarveruleika.
Ný þekking
Eiginlega er magnað að hugsa til þess hvernig lífið var fyrir örfáum vikum, þegar fæst okkar óraði fyrir því sem fram undan væri. Eitt af því sem hefur einkennt þessa nýju tilveru er óraunveruleikatilfinning, eins og búast megi við því á hverri stundu að vakna upp af draumi.
Á þessum stutta tíma höfum við tileinkað okkur með hraði nýja þekkingu. Þar má nefna aðferðir við handþvott, sprittun, hanskanotkun, grímunotkun, samskiptafjarlægð og fleira sem varðar sóttvarnir. Svo er það að átta sig á hinum og þessum aðferðum við að hemja útbreiðslu sjúkdóma og möguleg áhrif smitsjúkdóma á samfélög, svo ekki sé talað um mismunandi áhrif smitsjúkdóms á samfélag eftir því hve hratt hann breiðist út. Þar þarf að reyna að skilja mismunandi reiknilíkön og áhrif veldisvaxtar.
Ekki má gleyma samfélagsáhrifum og öðrum mögulegum áhrifum þeirra aðgerða sem gripið er til í því skyni að hemja útbreiðslu, eins og áhrifum á efnahagslífið og ýmislegt sem varðar heilsu og líðan fólks. Svo eru það áhrif ferðalaga, mismunandi aðferðir og reglur í öðrum löndum og fréttir af ástandi víða um heim. Og líklega hafa aldrei jafnmargir verið meðvitaðir um fjölda gjörgæslurúma og öndunarvéla á landinu.
Enginn finnur sig óhultan
Þetta eru allt atriði sem varða þekkingu okkar á heiminum, en auðvitað hafa margir þurft að upplifa enn frekari áföll, eins og tekjutap og atvinnumissi, óvissu um framtíðarmöguleika, heilbrigðisstarfsfólkið stendur í ströngu, fólk þarf að búa við skerðingu á þjónustu sem er því afar mikilvæg, ofbeldi eykst á heimilum og svo eru auðvitað þau sem hafa upplifað farsóttina, sem þetta snýst allt um, á eigin skinni eða eiga ástvini sem hafa fallið frá eða liggja þungt haldnir. Vitaskuld hafa þau orðið verst fyrir barðinu á þjáningum og erfiðleikum en fyrir okkur öllum er heimurinn breyttur.
Ekkert okkar getur litið á sig sem óhult fyrir farsóttinni: Við sem höfum ekki fengið hana enn gætum átt eftir að smitast og veikjast, sum okkar eru í áhættuhópum og hafa ástæðu til að óttast um líf sitt og heilsu og flest eigum við ástvini í áhættuhópum sem við erum dauðhrædd um. Það er þannig ekki aðeins öll þessi nýja þekking á breyttum heimi og forsendum sem við höfum þurft að tileinka okkur á ógnarhraða heldur er margt sem veldur þungum áhyggjum og við þurfum að kynnast okkur sjálfum upp á nýtt.
Afstaða sem mótar sjálfsmynd
Við höfum ekki undan að reyna að taka afstöðu til stórra og mikilla álitamála sem við höfðum líklega ekki velt mikið fyrir okkur áður. Afstaða í slíkum málum er oft mikilvægur hluti af sjálfsmynd fólks þannig að þetta varðar beinlínis sjálfsþekkingu og sjálfsmynd. Við sjáum og heyrum fólk setja fram mjög harða afstöðu varðandi ótal mál sem tengjast farsóttinni og reynum að koma okkur henni upp sjálf. Fyrir nokkrum vikum höfðum við flest enga sérstaka skoðun á neinu af þessu, nema helst þau sem hafa sérþekkingu á faraldsfræði eða öðru því tengdu.
Afstaða í slíkum málum er oft mikilvægur hluti af sjálfsmynd fólks þannig að þetta varðar beinlínis sjálfsþekkingu og sjálfsmynd.
Hvaða stefnu finnst mér að eigi að taka varðandi grímunotkun? Hvað finnst mér um stefnu og aðgerðir stjórnvalda í þessari stöðu? Finnst mér að aðgerðirnar ættu að vera meiri eða minni eða eru þær hæfilegar? Hvaða væntingar hef ég til ástandsins eftir viku, mánuð, sex mánuði eða ár? Á hverju get ég byggt afstöðu mína? Hvaða upplýsingum get ég treyst í öllu flóðinu af farsóttartengdu efni?
Útvíkkaður hugur
Samkvæmt kenningunni um útvíkkaðan hug (e. extended mind thesis) sem hefur verið áhrifamikil í hugfræði og hugspeki síðustu áratugina eiga hugarferli okkar sér ekki aðeins stað innan höfuðsins heldur ná út í nærumhverfið. Það gerist með því að við mótum umhverfi okkar og aðlögum þannig að það gagnist okkur við hugsun.
Nærtækt dæmi er notkun okkar á skriffærum, hvort sem það er penni, ritvél eða tölva, við að koma hugsunum okkar á framfæri. Þetta á líka við um ýmsa aðra hluti á heimilum og vinnustöðum sem er komið fyrir til að auðvelda okkur hugrænar athafnir. Þannig getur skipt sköpum að koma hlutum þannig fyrir að auðvelt sé að nálgast þá til að framkvæma athafnir sem við viljum leggja áherslu á, hvort sem þær varða tilfinningalíf, tjáningu, skoðanamyndun eða að framkvæma athafnir í samræmi við skuldbindingar.
Breyting á hlutverki heimilis
Fyrirkomulag hluta í nærumhverfi okkar getur þannig haft mikil áhrif á hvað við hugsum og framkvæmum; ef hálfur dagurinn fer til dæmis í að leita að einhverju til að skrifa með þá sit ég ekki og skrifa á meðan og ef mikil truflun á sér stað í umhverfinu getur fólk ekki notað athyglina til að framkvæma það sem það hafði ætlað sér. Þetta fyrirkomulag raskast við breytingu á aðstæðum, til dæmis þegar við flytjum. Flestir þekkja að það tekur tíma að koma sér fyrir á nýjum stað og koma á þeirri daglegu rútínu sem hjálpar okkur við að einbeita okkur og koma hlutum í verk. Bent hefur verið á mikilvægi þess að fólk eigi sér öruggt heimili því án þess fylgir mun meira álag við að framkvæma ýmis verk sem vefjast síður fyrir öðrum.
Segja má að við búum núna öll við svipaðar aðstæður og ef við værum nýflutt. Vissulega erum við flest heima hjá okkur og þannig á kunnuglegum stað og þurfum ekki að eyða tíma í að finna út hvar sé best að geyma lyklana eða rifja upp í hvaða kassa við settum kartöflupottinn. En mörg okkar eru að nota heimilin með talsvert öðrum hætti en áður, jafnvel undir miklu álagi, og alls konar aðstæður sem varða hversdagslega rútínuhegðun eru mikið breyttar. Sama heimili í nýjum heimi.
Athugasemdir