Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur að nýskipaður dómari við Landsrétt hafi hlotið ósanngjarnt forskot fyrir að hafa áður verið skipaður við réttinn framhjá ráðleggingum hæfnisnefndar. Með nýju skipuninni sé Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir að staðfesta fyrri niðurstöður hæfnisnefndar sem forveri hennar fór á svig við.
„Eruð þið nokkuð búin að gleyma Landsrétti?“ spyr Björn Leví í grein í Morgunblaðinu í dag. „Þið vitið, nýja millidómstiginu okkar sem var mörg ár í undirbúningi og fyrrverandi dómsmálaráðherra klúðraði á lokametrunum með því að skipa ekki hæfustu dómarana.“
Ásmundur Helgason var skipaður dómari við Landsrétt 31. mars í annað sinn, en hann hafði verið skipaður af Sigríði Andersen, þá dómsmálaráðherra, þegar Landsréttur var stofnaður. Sigríður hunsaði ráðleggingar hæfnisnefndar og valdi fjóra dómara til setu í réttinum sem ekki höfðu verið metnir hæfastir af hæfnisnefnd. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í kjölfarið íslenska ríkið brotlegt vegna vinnubragða hennar.
Ásmundur Helgason var einn dómaranna. Hann sagði í kjölfarið upp dómarasæti sínu en hefur nú verið skipaður aftur. „Hlaut hann þetta nýja sæti sitt umfram þrjá aðra umsækjendur, þar af var einn umsækjandi sem áður var meðal þeirra hæfustu en mátti þola að vera tekinn út í staðinn fyrir aðra sem voru neðar á lista,“ skrifar Björn Leví. „Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að ég hef enga ástæðu til þess að véfengja niðurstöðu hæfnisnefndar, líkt og fyrrverandi dómsmálaráðherra gerði. En það er nauðsynlegt að skoða málið vel út af þeim aðstæðum sem fyrrverandi ráðherra skapaði.“
„Niðurstaðan er kannski rétt en hún er langt frá því að vera sanngjörn“
Björn Leví segir ákveðið samræmi á milli álits hæfnisnefndar þegar Landsréttur var upphaflega skipaður og niðurstöðu hennar nú. „Helstu breytingar eru að störf Ásmundar sem landsréttardómari gefa honum reynslu sem færa hann upp fyrir einn af hinum umsækjendunum,“ skrifar hann og bendir sérstaklega á hæfni umsækjenda í ritun dóma. „Nú er sá skipaði hæfastur í því matsatriði en sá sem gengið var fram hjá síðast minnst hæfur. Það verður auðvitað ekki tekið af endurskipuðum dómara að reynsla hans af dómarastörfum jókst við að vera skipaður sem dómari, sem er kannski helsta ástæða þess að hæfnimat hans virðist hækka frá því síðast. Það hljómar hins vegar ekkert rosalega sanngjarnt þar sem reynslan fékkst vegna ólöglegrar skipunar. Niðurstaðan er kannski rétt en hún er langt frá því að vera sanngjörn.“
Í færslu á Facebook í gærkvöldi bætir Björn Leví við óútkomnu greinina. „Það sem er ekki í greininni og ég var að fatta eftir að ég sendi inn greinina, er að ef það er satt, að hæfnisnefndin skilaði bara uppfærðu áliti miðað við það sem hefur gerst fyrstu skipuninni. Þá þýðir það ákveðna viðurkenningu á gildi niðurstöðu hæfninefndarinnar í fyrstu skipuninni. Núverandi dómsmálaráðherra staðfesti semsagt gildi fyrstu niðurstöðunnar sem þáverandi dómsmálaráðherra hafnaði og breytti.“
„Það er þá annað hvort fordæming á ákvörðun fyrrum dómsmálaráðherra eða endurtekin mistök“
Hann segir að ef hæfnismatið hafi verið gallað eins og Sigríður Andersen sagði þegar hún skipaði dómara, þá ætti það að vera gallað núna. „Dómsmálaráðherra hlýtur að skilja það miðað við fyrri stuðning sinn við fyrrum dómsmálaráðherra,“ skrifar hann. „Samt fer hún eftir niðurstöðu nefndarinnar. Það er þá annað hvort fordæming á ákvörðun fyrrum dómsmálaráðherra eða endurtekin mistök ef upphaflega álit hæfninefndarinnar var gallað. Kaldhæðnislegt, er það ekki? Áslaug Arna var óvart að dissa Sigríði Andersen.“
Athugasemdir