Tónlistarhátíðin Secret Solstice, sem átti að fara fram 26. til 28. júní í Laugardalnum, verður ekki haldinn. Miðar á hátíðina munu gilda á hátíð næsta árs.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu hátíðarinnar. Þar segir að tónlistarmennirnir sem áttu að koma fram á hátíðinni í ár, þar á meðal Cypress Hill, Primal Scream, Lil Pump, Nýdönsk og Ensími, muni þess í stað koma fram á næsta ári. Þá á hátíðin að fara fram 25. til 27. júní, að sögn aðstandenda.
Nokkur styr hefur staðið um hátíðina á undanförnum árum. Til stóð að Reykjavíkurborg styrkti hátíðina um 8 milljónir króna í ár eftir að hátíðin hafði dregið að borga 19 milljóna skuld við borgina, sem nú hefur verið greidd að fullu. Hljómsveitin Slayer fékk hins vegar ekki borgað að fullu fyrir framkomu á hátíðinni 2018 og stendur nú í málaferlum. Tóku nýir rekstraraðilar við í kjölfarið. Reykjavíkurborg hefur sagt að málaferli Slayer snúi að engu leyti að borginni.
Hátíðin hefur verið gagnrýnd þar sem skipt var um kennitölu, en nýr eigandi hennar, Guðmundur Hreiðarsson Viborg, er tengdur fyrri eigendum hátíðarinnar. Stjúpsonur hans, Jón Bjarni Steinsson, var upplýsingafulltrúi hátíðarinnar, en hann er kvæntur Katrínu Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrra rekstrarfélagsins. Hún er systir Friðriks Ólafssonar, eiganda gamla félagsins, og dóttir Jóns Ólafssonar, athafnamanns og eins helsta styrktaraðila.
Athugasemdir