Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur tekið til starfa sem læknir á Landakoti. Hann er þar á sínum gamla vinnustað en Ólafur Þór er líf- og öldrunarlæknir og starfaði sem slíkur áður en hann var kjörinn á þing, meðal annars á Landkoti, og segir hann að það auðveldi mjög að hefja aftur læknastörf þar eð hann þekki þar hverja þúfu.
„Ég skráði mig í bakvarðarsveitina. Núna þegar ekki eru reglubundnir þingfundir þá get ég skotist hingað upp á Landkot og sinnt afmörkuðum verkefnum þar. Það er voða gaman og gott að geta hjálpað til,“ segir Ólafur Þór. Þau verkefni sem hann sinni tengist COVID-19 faraldrinum en séu þó þess eðlis að hann sé ekki í beinum samskiptum við sjúklinga.
Sinnir læknastörfum meðfram þingmennsku
„Ég hringdi í yfirlækninn hér á mánudaginn og spurði hvort þau gætu eitthvað notað mig og það varð svo úr að ég koma hingað til í þessi verkefni og það verður vonandi til þess að létta á þeim sem hér starfa,“ segir Ólafur Þór enn fremur.
Ólafur Þór sinnir sínum störfum á Alþingi áfram og segir að þau gangi fyrir en hann nýti þann tíma sem gefist til að hjálpa til uppi á Landakoti. „Það er þingfundur á morgun sem ég þarf að sinna en þau verkefni sem ég hef tekið að mér hér eru þess eðlis að ég get þarf ekki að vera við þau í samfellu. Svo veit maður ekki hvernig þetta þróast, það fer allt eftir því hvernig þróun faraldursins verður.“
Athugasemdir