Hluthafar Bláa lónsins hafa greitt sér út rúmlega 12,3 milljarða króna arð frá árinu 2012 en leita nú á náðir ríkisins eftir greiðslu á hluta af launum 400 starfsmanna sinna í kjölfar útbreiðslu Covid-19.
Tólf milljarða arðgreiðslur hluthafanna myndu nægja til að greiða óskert laun alllra starfsmanna Bláa lónsins í tvö ár miðað við heildarlaunagreiðslur fyrirtækisins árið 2018. Ársreikningur fyrir 2019 liggur ekki fyrir.
Árið 2018 ár greiddi Bláa lónið laun upp á tæplega 6,2 milljarða króna og var hagnaður fyrirtækisins 3,7 milljarðar króna þetta. Eigið fé Bláa lónsins - eignir mínus skuldir - var 12,4 milljarðar þetta ár og eignfjárhlutfall fyrirtækisins var 56 prósent.
Hæsta arðgreiðslan
Hæsta arðgreiðslan í rekstrarsögu Bláa lónsins var greidd í fyrra vegna ársins 2018, rúmlega 4,1 milljarður króna, upphæð sem var 400 milljónum krónum hærri en hagnaðurinn árið á undan. Arðgreiðslan 2017 nam rúmlega tveimur milljörðum, 2016 var greiddur út tæplega 1.600 milljóna króna arður og 2015 var arðurinn rúmlega 1.330 milljónir króna.
Viðskiptavinir Bláa lónsins eru ferðamenn að 98 prósent leyti. Vegna útbreiðslu Covid hafa flugsamgöngur til og frá Íslandi nær alfarið dottið niður og þar með koma erlendra ferðamanna til landsins. Vegna þessa hrynja rekstrarforsendur Bláa lónsins í kjölfar COVID-19 faraldursins.
Grímur: „Þungbær en óhjákvæmileg aðgerð“
Íslenska ríkið mun í kjölfar þessarar háu arðgreiðslu nú greiða 75 prósent af launum 400 starfsmanna Bláa lónsins næstu mánuði á móti 25 prósenta hlut eigenda fyrirtækisins. Fyrirtækið var með 764 starfsmenn í vinnu fyrir útbreiðslu Covid en sagði 164 upp fyrir nokkrum dögum og greindi svo frá því fyrir helgi að 400 starfsmenn myndu fara á hlutabæturnar sem íslenska ríkið greiðir.
Tilkynning Bláa lónsins vakti athygli þar sem fyrirtækið var með henni eitt það fyrsta sem sagðist ætla að nýta sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar í kjölfar heimsfaraldursins þrátt fyrir að vera eitt besta stadda fyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu. Hlutabótaleiðin er aðferð til að minnka höggið af efnahagskreppunni vegna COVID-19 faraldursins, bæði fyrir fyrirtæki í rekstri eins og ferðaþjónustu sem verða fyrir miklum búsifjum, og eins til að vernda hag starfsfólksins sem um ræðir með því að gera því kleift að halda vinnunni í gegnum þetta samspil ríkisins og einkafyrirtækja.
Tekið skal fram að fyrirtækið lokaði Bláa lóninu og öðrum rekstrareiningum sínum þann 23. mars og hefur því engar tekjur um þessar mundir. Fyrirtækið er því í erfiðri stöðu eins og öll önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. En ef það er eittthvert fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ætti að geta lifað af þessi harðindi þá er það Bláa lónið vegna þess að rekstur þess hefur verið nær fordæmalaus síðastliðin ár. Fyrirtækið á eigið fé upp á 12 milljarða króna þó skrúfast hafi snögglega fyrir tekjustreymið.
Í tilkynningu til starfsmanna Blá lónsins um uppsagnirnar og rekstarstöðu Bláa lónsins þann 26. mars sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti hluthafinn: „Aðgerðin er okkur þungbær en óhjákvæmileg í ljósi aðstæðna.“
Athugasemdir