Sjálfstæðisflokkurinn mælist með næstum tvöfalt meira fylgi en næsti flokkur, í nýrri könnun MMR á stuðningi við flokka í alþingiskosningum. Flokkurinn eykur fylgi sitt um sex prósentustig frá síðustu könnun og mælist með 27,4% fylgi.
Næst á eftir Sjálfstæðisflokknum kemur Samfylkingin með 14,7% fylgi. Þá mælast Píratar, Miðflokkurinn, Vinstri græn og Viðreisn öll með um 10% fylgi, en Framsóknarflokkurinn 8% og Sósíalistaflokkurinn 4,7%.
Síðasta könnun MMR var gerð fyrir rúmum mánuði síðan, en þá mældist Sjálfstæðisflokkur með 21,3% fylgi. Á þeim mánuði sem er liðinn, og einkennist af vaxandi vanda vegna heimsfaraldurs COVID-19, hefur Miðflokkurinn tapað 2,6% fylgi, flokkur Fólksins misst 1,1% af fylgi sínu og þeim fækkað um 1% sem velja aðra flokka en þá sem hér hafa verið nefndir.
Í síðustu könnun Gallup, sem birt var 29. febrúar síðastliðinn, fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 22% fylgi.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn uppskeri vel í könnuninni vegnar hinum ríkisstjórnarflokkunum ekki eins vel. Vinstri græn standa í stað en Framsóknarflokkurinn bætir við sig 0,7% fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina stóreykst hins vegar. Hann mælist nú 52,9% og hækkar um rúm fjórtán prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 38,8%.
Athugasemdir