Ísland er að mörgu leyti vel í stakk búið að takast á við efnahagsleg skakkaföll vegna Covid-19 veirunnar, ekki síst í ljósi þess hve skuldastaða ríkis og heimila er góð. En viðnámsþróttur hagkerfis gagnvart ófyrirséðum áföllum veltur ekki aðeins á slíkum þáttum heldur einnig á því að samsetning atvinnulífsins sé fjölbreytt og útflutningsstoðir traustar. Sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á ferðaþjónustu og tengdar greinar sem drifkraft hagvaxtar undanfarin ár, meðal annars með rausnarlegum skattaívilnunum, gerir okkur sérstaklega berskjölduð gagnvart efnahagsskelli kórónafaraldursins og kallar á stórtækar aðgerðir.
Bein hlutdeild ferðaþjónustu var 8,6 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2018, en 4 prósent í Noregi og Þýskalandi og 2,2 prósent í Danmörku. Þetta er sú atvinnugrein sem verður fyrir fyrsta og versta högginu vegna faraldursins og dómínóáhrifin um allt atvinnulífið gætu orðið gríðarleg, enda treysta þúsundir fyrirtækja á afleiddar tekjur frá ferðaþjónustu og hátt í 10 prósent af útlánum stóru bankanna eru til ferðaþjónustufyrirtækja.
Ef vel er haldið á spilunum getur ríkisvaldið stígið inn og komið í veg fyrir að tímabundinn skellur verði að langri og djúpri kreppu. Við núverandi kringumstæður duga þó hefðbundnar örvunaraðgerðir skammt. Raunar færu þær illa saman við markmið heilbrigðisyfirvalda, því út frá sóttvarna- og lýðheilsusjónarmiðum er það kappsmál að fólk fari minna út að borða og skemmta sér, fresti veisluhaldi, klippi sig sjálft frekar en að fara á hárgreiðslustofu og geri sér færri ferðir í Kringluna. Til að ráða niðurlögum faraldursins þarf einfaldlega efnahagsleg starfsemi að dragast talsvert saman næstu vikur og mánuði. Á þessu tímabili skiptir öllu að fólk fái skjól og þurfi ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
Frumvarp félagsmálaráðherra um minnkað starfshlutfall og hlutabætur er skref í rétta átt, sérstaklega í ljósi þeirra mikilvægu breytinga sem hafa orðið á því í meðförum þingsins. Ólíklegt er þó að aðgerðirnar nægi til að afstýra gjaldþrotum og stórauknu atvinnuleysi. Það sama gildir um fram komið frumvarp ríkisstjórnarinnar um frestun á gjalddaga skatta. Slík úrræði kunna að vera mikilvæg til að kaupa tíma til að undirbúa stórtækari aðgerðir, en ein og sér fela þau fyrst og fremst í sér að greiðsluvandanum og kostnaðinum af efnahagshögginu er smurt yfir lengra tímabil með þeim afleiðingum að fyrirtækin munu standa uppi veikburða og stórskuldug eftir fáeina mánuði. Skattfrestunin er líka óhnitmiðuð aðgerð, því hún gagnast ekki bara fyrirtækjum í greiðsluvanda heldur einnig hinum sem standa vel og þurfa ekki á slíkri aðstoð að halda.
Til að dempa kóróna-skellinn gæti þurft róttækari aðgerðir. Frönsku hagfræðingarnir Emmanuel Saez og Gabriel Zucman, sem báðir starfa við Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum, leggja til að ríkið gerist eins konar þrautavaragreiðandi (e. payer of last resort) og tryggi þannig að fyrirtæki geti áfram greitt laun og staðið undir nauðsynlegum viðhalds- og rekstrarkostnaði í stað þess að fara í þrot. Jafnframt verði stutt með sambærilegum hætti við þá sem eru sjálfstætt starfandi.
Mörgum spurningum er ósvarað um hvernig best væri að útfæra slíkar björgunaraðgerðir, en í grunninn snúast þær um að ríkið stígi mjög myndarlega inn og viðhaldi greiðsluflæði í hagkerfinu til að koma í veg fyrir allsherjarhrun. Kostnaðurinn yrði gríðarlegur og hlypi hugsanlega á hundruðum milljarða, en hann þarf hins vegar að vega og meta með hliðsjón af kostnaðinum sem langvarandi samdráttur og efnahagshrun hefði í för með sér. Og staðan er þannig að það getur kostað miklu meira – bæði heilsufarslega og efnahagslega, fyrir samfélagið allt og fyrir ríkissjóð – að gera of lítið heldur en of mikið.
Aðgerðir þar sem ríkið gerist þrautavaragreiðandi myndu snúast um að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum frá greiðsluþroti. Þá er gengið út frá því að grundvöllur fyrir áframhaldandi verðmætasköpun þeirra sé enn til staðar þegar útbreiðsla veirunnar er hætt að lama ferðaþjónustuna og samkomubanni hefur verið aflétt. Engar tekjur koma í stað þeirra sem þegar hafa tapast vegna minni viðskipta, en verðmætin sem nú þarf að bjarga felast m.a. í viðskiptasamböndum, þekkingu og innviðum fyrirtækjanna.
Allsherjar björgunarpakki fyrir þær atvinnugreinar sem verða fyrir mesta högginu myndi fela í sér að lögmál markaðshagkerfisins væru tekin úr sambandi tímabundið til að hindra efnahagslega eyðileggingu. Fyrirtækjum sem ættu að fara í þrot samkvæmt lógík markaðarins yrði haldið á lífi og verðmæti sem ellegar myndu skipta um hendur fengju að vera áfram á sínum stað. Allt yrði þetta á kostnað ríkisins og fæli í sér viðurkenningu á því hve stórkostlega háður hinu opinbera einkageirinn er. Þetta verður óvenju augljóst á krísutímum en gildir ekkert síður þegar allt leikur í lyndi. Þótt það vilji stundum gleymast er raunin auðvitað sú að enginn gæti átt neitt, ekkert fyrirtæki gæti starfað og engin eðlileg viðskipti farið fram án þeirrar umgjörðar sem ríkið markar með lögum og reglum og viðheldur með löggæslu, dómstólum, útgáfu gjaldmiðils, samkeppnis- og fjármálaeftirliti og auðvitað skattheimtunni sem fjármagnar allt heila klabbið.
Þegar ráðist er í björgunaraðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi er full ástæða til að gera kröfu um að ríkisaðstoð til fyrirtækja sé háð skýrum skilyrðum um samfélagslega ábyrgð, umfram þá sjálfsögðu kröfu að ekki verði farið í uppsagnir eða fyrirtækin blóðmjólkuð með arðgreiðslum og kaupum á eigin hlutabréfum. Ef við leyfum okkur að hugsa út fyrir rammann væri til dæmis hægt að krefja öll stærri fyrirtæki, sem vilja halda áfram að fá ríkisaðstoð meðan kóróna-röskunin gengur yfir, um að minnka kolefnisfótspor sitt varanlega, draga úr launamun innan vinnustaðar, loka skattaskjólsreikningum og taka frá sæti í stjórn fyrir fulltrúa kosinn af starfsmönnum líkt og tíðkast á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Það væri að minnsta kosti glapræði að gefa út opinn tékka og dæla opinberu fé í fyrirtæki skilyrðislaust. Í einhverjum tilvikum gæti jafnvel verið æskilegt að ríkið tæki yfir kerfislega mikilvæg fyrirtæki til skemmri eða lengri tíma.
Til að fyrirbyggja algert hrun þarf líklega að setja atvinnulífið í einhvers konar öndunarvél samhliða markvissum aðgerðum til að verja velferð heimila. Um leið verður þó að horfast í augu við að gríðarleg óvissa ríkir um þróun ferðaþjónustu og flugsamgangna í heiminum næstu mánuði og ár. Það er óskhyggja að láta eins og eftirspurnarskellurinn fyrir ferðaþjónustuna sé aðeins tímabundinn og raunar ólíklegt að það gríðarlega vægi sem hún hefur haft í vaxtarlíkani Íslands undanfarin ár sé sjálfbært eða æskilegt til lengri tíma.
Ferðaþjónusta er lágframleiðnigrein þar sem laun eru alla jafna lág og minni þörf fyrir sérmenntað vinnuafl en í ýmsum öðrum útflutningsgreinum. Eins og fjármálaráð benti á árið 2018 hefur hinn gríðarlegi vöxtur greinarinnar „birst í hærra raungengi, versnandi samkeppnisstöðu annarra útflutningsgreina og ruðningsáhrifum“. Viðbrögð við kóróna-skellinum mega ekki verða til þess að viðhalda fram í rauðan dauðann starfsemi sem er ólífvænleg til langs tíma og grafa þannig undan fjölbreytni í atvinnulífi.
Öndunarvélin ætti fyrst og fremst að miða að því að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum, dempa skellinn og gera hina efnahagslegu aðlögun bærilegri. Ríkisaðstoð til fyrirtækja gæti þannig farið stiglækkandi eftir því sem fram líður og þá tækju við hefðbundnari örvunaraðgerðir til að halda uppi eftirspurnarstigi í hagkerfinu, auka ráðstöfunartekjur og bæta lífskjör fólks.
Athugasemdir