Útgerðarfélagið Samherji mun gera öðrum útistandandi hluthöfum Eimskipafélags Íslands yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra í skipafélaginu í gegnum eignarhaldsfélag sem haldið hefur utan um útgerð Samherja í Namibíu og sem á félag á Kýpur sem greiddi mútur til ráðamanna í Namibíu á árunum 2014 til 2019.
Tekið skal fram að forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, hefur neitað því að Samherji hafi greitt mútur í Namibíu, meðal annars á þeim forsendum að enginn núverandi eða fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins hafi verið dæmdur fyrir þetta. Áður en Björgólfur tók við starfinu af Þorsteini Má Baldvinssyni hafði sá síðarnefndi hins vegar ekki neitað mútugreiðslunum í Namibíu aðspurður um málið og hefur hann ekki ennþá gert það persónulega.
Samherji greindi frá því á þriðjudagskvöld að umrætt félag þess á Íslandi, Samherji Holding ehf., myndi gera öðrum hluthöfum í Eimskipum yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra í félaginu í kjölfarið á því að útgerðarfélagið keypti rúmlega 3 prósenta hlut í því með framvirkum samningi. Fyrir vikið fór eignarhlutur Samherja Holding upp fyrir 30 prósentin og sökum þessa ber félaginu að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í bréf þeirra.
Líkt og Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, sagði í tilkynningu til Kauphallar Íslands á þriðjudagskvöldið: „Samherji Holding hefur aukið hlut sinn í Eimskipafélagi Íslands hf. um 3,05% í 30,11% í fyrirtækinu. Samherji mun nú, innan fjögurra vikna, gera öðrum hluthöfum tilboð svo sem lög áskilja. Tilgangur Samherja með þessum auknu hlutafjárkaupum er fyrst og fremst að sýna þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips, þeim árangri sem náðst hefur að undaförnu og á eftir að koma betur í ljós á næstu misserum.“
Stærstu hluthafar Eimskipafélagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir eins og Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og fleiri sjóðir. Samherjafélagið er hins vegar stærsti einstaki hluthafinn.
Af þessu sést hvernig rekstur og viðskipti Samherja í Namibíu, sem og í öðrum Afríkuríkjum, og Kýpur tengist starfsemi Samherja á Íslandi með óbeinum hætti í gegnum það alþjóðlega net eignarhaldsfélaga sem Samherji hefur byggt upp í gegnum árin og sem teygir sig víða um lönd.
Nefnt skal að Björgólfur Jóhannsson starfaði ekki hjá Samherja á þeim sem mútugreiðslurnar áttu sér stað í Namibíu en þessar greiðslur, og tengd mál, eru nú til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi.
Kýpurfélagið sem greiddi múturnar
Félagið Samherji Holding ehf. hét áður Samherji IT ehf. og skipti félagið um nafn í kjölfarið á því að Samherja hf. var skipt upp í tvö félög árið 2018. Innlenda starfsemin, og starfsemi Samherja í Færeyjum, er inni í félaginu Samherji Ísland ehf. á meðan fjárfestingin í Eimskipum og fjárfestingar Samherja erlendis, meðal annars í Nambíu, eru inni í félaginu Samherji Holding ehf., í gegnum önnur eignarhaldsfélög.
Samherji Holding ehf. á félag sem heitir Fjárfestingarfélagið Sæból ehf. og er það þetta félag sem á tvö eignarhaldsfélög á Kýpur, Esju Seafood Limited og Esju Shipping Limited, sem kalla má miðpunkt erlendrar starfsemi Samherja. Þessi félög hétu Fidelity Bond Investments og Miginato Holding Limited.
Bæði þessi félög voru með bankareikninga í DNB bankanum norska þar til skömmu eftir að Samherjamálið kom upp í í Namibíu en þá sagði DNB upp viðskiptunum við Samherja. Fyrir skiptinguna á Samherjasamstæðunni í tvennt 2018 var Fjárfestingarfélagið Sæból ehf. dótturfélag Samherja hf.
Esja Seafood Limited hefur bæði verið eigandi eins félags Samherja í Namibíu, Katla Seafood Namibia, og einnig var þetta félag notað til að greiða hálfan milljarð króna í mútur til félagsins Tundavala Investments Limited í Dubaí, eins og rakið hefur verið í umfjöllunum Stundarinnar, Kveiks og Al Jazeera, á grundvelli gagna frá Wikileaks.
Eigandi Tundavala Investments var athafnamaðurinn James Hatuikulipi sem er einn af fjórmenningunum sem nú situr í gæsluvarðhaldi í Namibíu, grunaður um að hafa tekið við mútugreiðslum frá Samherja, meðal annars umræddum greiðslum frá Esju Seafood.
Kaupa og selja fisk frá Íslandi
Eins og Stundin fjallaði um í apríl í fyrra, þegar blaðið fjallaði um ársreikninga þessara Kýpurfélaga, eru þessi tvö félög Samherja á Kýpur, Esja Shipping Limited og Esja Seafood Limited, einnig notuð til að kaupa og selja fisk frá Íslandi og til annarra landa.
Eins og sagði í umfjöllun Stundarinnar þá eiga félögin í miklum viðskiptum með fisk frá íslenskum dótturfélögum Samherja og kaupa á hverju ári fiskafurðir frá þeim og öðrum erlendum félögum Samherja upp á milljarða króna. Árið 2014 keypti Esja Seafood til dæmis fiskafurðir af félögum Samherja á Íslandi og í öðrum löndum fyrir tæplega 16,6 milljónir dollara, eða rúmlega 2,1 milljarð íslenskra króna og árið áður námu þessi viðskipti 14 milljónum dollara, eða rúmlega 1,6 milljörðum króna. Í ársreikningnum er tekið fram að þessi viðskipti við tengda aðila séu gerð á „markaðsverði“ en ómögulegt er að ganga úr skugga um það á hvaða forsendum þau eru gerð og hvort fiskurinn sé seldur til Kýpur á sama verði og fiskur sem Samherji selur til ótengdra aðila.
Félögin á Kýpur voru einnig notuð til að selja þann fisk sem félög Samherja hafa veitt í Namibíu og þar áður í Marokkó og Máritaníu í gegnum útgerðina Kötlu Seafood sem Samherji seldi árið 2013. Eins og Stundin fjallaði um koma mögulegar mútugreiðslur einnig fyrir í heimildum um starfsemi Samherja í Máritaníu og Marokkó en tekið skal fram að engar heimildir eru fyrir því að slíkar mútugreiðslur hafi átt sér stað, líkt og raunin var í Namibíu síðar.
Þessar upplýsingar voru áhugaverðar þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafði sagt við Stundina í febrúar 2019 að Samherji hefði aldrei stofnað fisksölufyrirtæki á Kýpur. „Við stofnuðum aldrei sölufyrirtæki á Kýpur og það er alveg ljóst hvar sölufyrirtæki Samherja eru,“ sagði Þorsteinn aðspurður um reksturinn á Kýpur.
Í ásreikningi Esju Seafood er sala á fiski hins vegar sögð vera einn helsti tilgangur félagsins: „Helsti tilgangur fyrirtækisins hélt áfram að vera sala á fiski, framleiga á fiskiskipum, eignarhald á langtímafjárfestingum og fjármögnun dótturfélaga og annarra tengdra félaga.“
„Við stofnuðum aldrei sölufyrirtæki á Kýpur“
Þessi félög á Kýpur taka því við og miðla fjármunum innan Samherjasamstæðunnar og út úr henni og halda utan um eignarhald á útgerðum í löndum eins og í Namibíu. Eimskipafélagið er svo bara eitt af þeim félögum sem er inni í þeirra félagasamstæðu sem Samherji Holding ehf. heldur utan um í dag.
Hagnaðist um 70 milljón dollara
Dæmi um það hvernig Samherji hefur tekið fjármuni frá starfsemi sinni í Afríku og til Íslands í gegnum þessi Kýpurfélög og móðurfélag þess, Fjárfestingarfélagið Sæból sem áður hét Polaris Seafood, er til dæmis hvernig 35 milljónir dollara runnu til Samherja hf. í gegnum þessa félagasamstæðu árið 2013. Árið 2013 seldu dótturfélög Samherja á Kýpur útgerðina Kötlu Seafood til rússneska útgerðarmannsins Vitali Orlov fyrir um 20 milljarða króna. Þetta ár voru 35 milljónir dollara greiddar í arð til Samherja hf. frá Polaris Seafood, nú Fjárfestingarfélaginu Sæbóli ehf., eða 4,2 milljarðar króna á gengi þess tíma, líkt og fjallað var um í DV árið 2013.
Samherji var á þessum tíma einnig byrjað að veiða í Namibíu en þetta gerðist árið 2012, um það leyti sem Samherji fór að átta sig á því að erfitt gæti orðið fyrir félagið að komast yfir sjófrystikvóta í Marokkó og Máritaníu og að mögulega gæti verið lag að selja þá útgerð sem Samherji rak í þessum löndum. Veiðar Samherja í Namibíu áttu svo eftir að aukast mikið á næstu árum, sem og þær fjárhæðir sem útgerðin greiddi til spilltra ráðamanna í landinu í skiptum fyrir makrílkvóta.
Af þessu sést svo meðal annars hvernig meðal annars Afríkustarfsemi Samherja er notuð til að fjármagna móðurfélagið í Samherjasamstæðunni á Íslandi og fjárfestingar þess í annars konar rekstri en sjávarútvegi hér á landi.
Athugasemdir