Stjórnarformaður stærsta hluthafa laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, Atle Eide, segir að framtíð fiskeldis liggi ekki í sjókvíaveldi við strendur landa heldur í aflandseldi úti á rúmsjó. Atle Eide er stjórnarformaður Salmar AS, norska laxeldisrisans sem á meirihluta í Arnarlaxi, og lét hann þessi orð falla á sjávarútvegsráðstefnu í Bergen í Noregi í fyrradag samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðunni Salmon Business.
Stjórnarformaðurinn lýsti því í erindi sínu hvernig Salmar AS leggur nú mikla fjármuni í að þróa tæknilausnir í fiskeldi sem byggja á aflandseldi, að koma risastórum sjávarmannvirkjum fyrir úti á rúmsjó þar sem laxeldið fer fram. Með þessu verður í komið í veg fyrir helstu neikvæðu umhverfisáhrifin af sjókvíaveldi.
Samtímis reynir Arnarlax að fá frekari leyfi til að stunda sjókvíaeldi við stendur Íslands, þrátt fyrir að stjórnendur fyrirtækisins telji að framtíð fiskeldis í sjó liggi úti á rúmsjó en ekki upp í harða landi í fjörðum eins og í Noregi og á Íslandi. Fjölþætt vandræði fylgja sjókvíum í fjörðum landa, meðal annars laxalús og slysasleppingar auk laxadauða.
Í kynningu á starfsemi Salmar AS á ráðstefnunni í Bergen er því lýst hvernig fyrirtækið vinni jöfnum höndum á báðum þessum sviðum í dag: Við sjókvíaveldi við strendur landa annars vegar og svo hins vegar að aflandseldi í sjókvíum úti á rúmsjó hins vegar.
Sjókvíaeldi á eldislaxi við strendur Íslands er því að hefjast nú af fullum krafti á sama tíma og þessi gerð fiskeldis er á undanhaldi í umræðum um framtíð fiskeldis í heiminum vegna þeirra umhverfisáhrifa sem sjókvíaveldið hefur.
Fiskeldisiðnaðurinn gerbreyttur eftir tíu ár
Í erindi sínu í Bergen ræddi Atli Eide meðal annars um að vaxtamöguleikarnir í fiskeldi væru miklir: „Einungis þrjú prósent af þeim mat sem við neytum í dag kemur úr sjónum. Möguleikarnir eru miklir. Við teljum að Atlantshafið sé eðlilegustu heimkynni Atlantshafslaxsins.“
Vaxtamöguleikarnir sem Atli nefnir liggja hins vegar ekki í auknu sjókvíaveldi við strendur hinna ýmsu landa eins og Noregs, Íslands og Skotlands. Möguleikarnir á auknu strandeldi í Noregi eru til að mynda afar takmarkaðir og eru stjórnvöld hætt að gefa út ný leyfi fyrir nýjum sjókvíum að langmestu leyti. Noregur framleiðir nú þegar meira en milljón tonn af eldislaxi á ári en laxeldisfyrirtækin norsku vilja fimmfalda þessa framleiðslu.
„Við teljum að fiskeldisiðnaðurinn verði breyttur að verulegu leyti eftir tíu ár miðað við hvernig hann er í dag“
Þessi fimmföldun mun varla eiga sér stað með auknu strandeldi og alls ekki auknu strandeldi í Noregi þar sem norska strandlengjan er nú þegar mett af sjókvíum og Norðmenn hafa fyrir margt löngu áttað sig á neikvæðum afleiðingum sjókvíaeldisins. Síðustu nýju leyfi sem gefin voru út voru boðin upp á uppboði um sumarið 2018 og seld dýrum dómum.
Tilgangurinn að lágmarka umhverfisáhrif
„Möguleikarnir á sjálfbæru laxeldi eru takmarkalausir. En þessir möguleikar krefjast tæknibreytinga. Við teljum að fiskeldisiðnaðurinn verði breyttur að verulegu leyti eftir tíu ár miðað við hvernig hann er í dag,“ sagði Atli Eide í erindi sínu.
Hann vísaði sérstaklega til aflandskvíar sem til stendur að Salmar AS byggi utan fyrir strönd Skotlands í gegnum dótturfélag sitt Scottish Sea Farms. Salmar AS rekur nú þegar eina slíka kví, Ocean Farm 1, 5 kílómetrum fyrir utan ströndum Noregs. Ástæðan fyrir notkun slíkra aflandskvía er að „lágmarka áhættuna á mengun, laxalús og slysasleppingum“ eins og segir á vefsíðunni Salmon Business.
Aflandskvíin í Skotlandi mun bera heiti Ocean Farm 2 og verður hún tvöfalt stærri en Ocean Farm 1 í Noregi. „Við viljum fara frá því að smíða stórt yfir í að smíða stærra. […] Þessi verður að öllu leyti staðsettur úti á rúmsjó. Hann verður eins og olíuborpallur. Vonandi getum við byrjað að byggja hann nú í sumar. Við erum að fullklára hönnunina,“ segir Atle Eide.
Umrædd eldiskví Salmar AS í Skotlandi mun taka um 3 milljónir laxa í einu. Þetta þýðir framleiðslugetu upp á um 18 þúsund tonn sé miðað við að meðaltalssláturstærð á tveggja ári laxi sé sex kíló. Til samanburðar þá voru flutt út 27 þúsund tonn af eldislaxi á Íslandi í fyrra. Tvær slíkar aflandssjókvíar myndu því getað framleitt landsframleiðslu Íslands á eldislaxi, miðað við framleiðsluna í fyrra, og umhverfisáhrifin af slíkri framleiðslu væri lítil í samanburði við sjókvíaeldið sem Salmar AS stundar á Íslandi í gegnum Arnarlax.
Athugasemdir