Einbýlishús sem Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri vefsíðunnar Viljans og fyrrverandi eigandi fjölmiðlanna Pressunnar og DV, keypti og greiddi fyrir meðal annars með auglýsingasamningi hjá miðlum sínum er ekki lengur í hans eigu. Björn Ingi fékk einnig kúlulán hjá sjóðstýringarfyrirtækinu GAMMA til að fjármagna kaupin. Umrætt einbýlishús komst í eigu félags sem fyrrverandi starfsmaður GAMMA á en hefur nú verið selt aftur. Björn Ingi hefur siglt mikinn öldusjó síðustu misseri en eftir að hafa flogið hátt í viðskiptalífinu hefur hann þurft að sæta því að missa eignir sínar á nauðungaruppboðum, auk þess sem gerð hafa verið hjá honum árangurslaus fjárnám.
Umrætt einbýlishús, sem er 238 fermetrar og stendur við Kirkjustétt í Reykjavík, keypti Björn Ingi með næsta fáheyrðum hætti um mitt ár 2016 af Guðmundi Gauta Reynissyni, einum helsta eiganda Húsgagnahallarinnar. Kaupin voru fáheyrð að því marki að Björn Ingi greiddi Guðmundi Gauta hluta kaupverðsins með 24 milljóna króna auglýsingainneign hjá fjölmiðlum sínum, eins og greint var frá í Stundinni í desember árið 2017. Ætla má að sú auglýsingainneign hafi átt að nýtast Húsgagnahöllinni, Dorma, Betra baki eða öðrum fyrirtækjum sem Guðmundur Gauti átti eða tengdist. Ekki náðist í Guðmund Gauta til að spyrjast fyrir um hvort hann hefði nýtt sér auglýsingainneignina alla.
Fjármagnað með tveimur kúlulánum frá GAMMA
Björn Ingi fékk einnig tvö kúlulán frá sjóðstýringarfyrirtækinu GAMMA til að fjármagna kaupin. Lánin, að upphæð 13 og 22 milljónir króna, fékk Björn Ingi frá sjóðnum GAMMA: Credit Oppurtunity Fund. Lánin sem um ræðir voru veitt til fjögurra og hálfs mánaðar og skyldu þau uppgreidd 30. desember árið 2016. Ári síðar, 8. desember 2017, voru lánin hins vegar enn á veðbandayfirliti hússins að Kirkjustétt. Heildarkaupverð hússins var 97 milljónir króna.
Björn Ingi seldi hins vegar félaginu AH Verktökum ehf. húsið árið 2018, samkvæmt afsali dagsettu 12. febrúar það ár. Samkvæmt afsalinu var þá búið að aflétta lánunum af veðbandayfirliti hússins. Kaupsamningur vegna þeirra viðskipta er hins vegar ekki aðgengilegur og því ekki hægt að fullyrða um hvernig þau viðskipti fóru fram eða hvað AH Verktakar greiddu fyrir húsið.
Kaupverð fæst ekki uppgefið
AH Verktakar er í eigu þeirra Arnars Haukssonar og föður hans, Hauks Halldórssonar. Arnar er fyrrverandi starfsmaður GAMMA og bróðir Gísla Haukssonar, stofnanda GAMMA og forstjóra þess allt þar til í mars árið 2018. Stundin hafði samband við Arnar og spurðist fyrir um hvernig það hefði komið til að félag hans hefði eignast húsið að Kirkjustétt. Arnar svaraði því til að hann hefði frétt af því að Björn Ingi vildi selja húsið og það hefði verið keypt í gegnum félagið AH Verktaka. Spurður hvert kaupverðið á húsinu var vildi Arnar engu svara um það og sagði það trúnaðarmál. Sem fyrr segir var kaupverð hússins 97 milljónir króna þegar Björn Ingi keypti það. Arnar sagði jafnframt að kaup félags hans á húsinu að Kirkjustétt tengdust á engan hátt lánveitingum GAMMA til Björns Inga.
AH Verktakar seldu svo húsið til hjónanna Þorláks Morthens, Tolla, og Guðrúnar Magnúsdóttur og er afsal þess efnis frá 8. janúar síðastliðnum. Kaupsamningur er ekki aðgengilegur og því ekki opinbert hvert kaupverð hússins var í þeim viðskiptum. Arnar Hauksson vildi heldur ekki tjá sig um það þegar Stundin leitaði eftir því.
Gjaldþrot og nauðungaruppboð
Stundin hefur áður fjallað um viðskipti og fjárhagsvandræði Björns Inga Hrafnssonar. Eftir að fjölmiðlafyrirtæki hans, Pressan og DV, urðu gjaldþrota hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn vegna gruns um meiri háttar skattalagabrot. Rannsóknin tengdist millifærslum frá fyrirtækjunum yfir á hans eigin reikninga en þeirri rannsókn lauk í febrúar á síðasta ári án þess að ástæða væri talin til að aðhafast í málinu.
Í janúar síðastliðnum voru fjórar eignir Björns Inga að Másstöðum í Hvalfjarðarsveit boðnar upp að beiðni ríkisskattstjóra, Hvalfjarðarsveitar, Vátryggingafélags Íslands, sýslumannsins á Vesturlandi, Landsbankans og Íslandsbanka. Foreldrar Björns Inga búa á Másstöðum og seldu syni sínum eignirnar. Í febrúar voru svo tvær sumarbústaðajarðir í eigu félags Björns Inga, Kringluturnsins ehf., sem hann á með viðskiptafélaga sínum, Arnari Ægissyni, boðnar upp að kröfu Grímsnes- og Grafningshrepps. Aðra jörðina keypti Ferðahúsið ehf. á 220 þúsund krónur en uppboð á hinni jörðinni var afturkallað.
Þá féll dómur í Héraðsdómi Vesturlands 19. febrúar síðastliðinn þar sem Birni Inga var gert að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. 80 milljónir króna. Dómurinn féllst á að veðsetningu á eignum félagsins, sem gerð var með lánssamningi milli Pressunnar og Björns Inga, yrði rift. Í dómnum segir að ekkert hafi komið fram um að Björn Ingi hafi í raun og sann lánað Pressunni umrædda fjármuni.
Athugasemdir