Allir vita að í leikhúsi þurfa leikmyndir nú til dags ekki að eltast við raunveruleikann. Svartan dúk má nota til að tákna hvort heldur er heiðina sem Lér konungur ráfar um eða kastala Makbeðs. Mislitir flekar táknuðu húsakynni reykvískrar verkamannafjölskyldu í Degi vonar eftir Birgi Sigurðsson og líktust ekki hót slíkum húsakynnum eins og þau voru í raun og veru. Og svo framvegis. Þetta erum við öll farin að líta á sem eðlilegan hlut.
Hins vegar verða leikmyndir í bíó að eltast við raunveruleikann. Með aðeins örfáum undantekningum núorðið (helst Dogville og Manderlay eftir Von Trier) eru leikmyndir ævinlega raunsæislegar. Þær geta verið misglæsilegar og misíburðarmiklar en þær ganga nánast aldrei á svig við veruleikann í þeim mæli sem nú er gert í leikhúsinu. Þegar Lér kóngur er kvikmyndaður dugar ekki annað en að fara upp á raunverulega heiði. Kóngur og fífl hans standandi á segldúk þrumandi móti sjáanlegum vindvélum …
Athugasemdir