Eins og öllum er væntanlega kunnugt um stendur nú yfir kjaradeila félagsmanna Eflingar við Reykjavíkurborg. Um er að ræða þá félagsmenn Eflingar sem eru á lægstu laununum þrátt fyrir að þeir sinni mjög mikilvægum störfum s.s. í leikskólum, ýmsum umönnunarstörfum og sorphirðu svo helstu þættir séu nefndir. Langstærsti hópurinn er þó ófaglært starfsfólk leikskóla.
Hvað með aðra samninga?
Samningarnir sem gerðir voru á síðasta ári og hafa verið kallaðir „Lífskjarasamningar“ voru milli launamanna og atvinnurekenda á almenna vinnumarkaðnum. Mikilvægt er að hafa í huga að sá munur er á samningum á almennum og opinberum markaði að á almennum markaði er um lágmarkslaunasamning að ræða en samningar á opinbera markaðnum eru fastlaunasamningar. Þetta felur m.a. í sér að á almenna markaðnum getur stundum verið um ýmsar yfirborganir að ræða en slíkt er ekki hjá „hinu opinbera“. Enn hefur ekki tekist að semja og eins og oft, beinist mest athyglin að samningunum við Reykjavíkurborg.
Kröfur og aðrir samningar
Kröfur Eflingar fela m.a. í sér nokkuð meiri hækkun en fólst í lífskjarasamningnum en það er skýrt með því að þörf sé á sérstakri leiðréttingu lægstu kjaranna. Forsvarsmenn launagreiðenda hafa hins vegar borið því við að ekki sé hægt að réttlæta það að ganga lengra í hækkunum en gert var í Lífskjarasamningnum.
Nú hafa ýmis félög Starfsgreinasambandsins líka skrifað undir samning sem er meira í takt við Lífskjarasamninginn en kröfur félagsmanna Eflingar hljóða uppá. Það hefur verið reynt að nota þá undirskrift til að pressa á Eflingu. Hvers vegna ætlar Efling að halda til streitu hærri kröfum. Ástæðurnar geta verið margar en ein er mér þó efst í huga. Húsnæðiskostnaður er hærri í Reykjavík en á flestum stöðum á landinu. Laun eiga að geta staðið undir nauðsynjum. Það ætti því ekki að vera ráðgáta hvers vegna kröfugerð Eflingar er hærri en hin félögin sættu sig við. Það getur ekki verið annað en sanngjörn krafa að fólk geti lifað af launum sínum.
Viðsemjendur Eflingar hafa líka bent á að ef gengið yrði að kröfum Eflingar fyrir hönd ófaglærðs starfsfólks í leikskólum yrði launabilið milli ófaglærðra og faglærðra sem eru með 5 ára háskólanám of lítið. Til stuðnings þessari fullyrðingu hafa laun ófaglærðra eins og þau yrðu í lok 3ja ára samnings verið borin saman við laun faglærðra eins og þau eru núna en eins og flestir vita á eftir að semja við leikskólakennara.
Það er ekki og á ekki að vera áhyggjuefni lægst launuðu starfsmannana að það verði of lítill munur á þeim og öðrum starfsmönnum sem eru á hærri launum. Það sem er fyrst of fremst áhyggjuefni þeirra lægst launuðu og ætti raunar að vera áhyggjuefni okkar allra er að það er ekki hægt að draga fram lífið á þessum launum. Auk þess hefur ekkert komið frá leikskólakennurum um að þeim finnist að launakröfur ófaglærðra séu of háar. Þvert á móti virðast þeir Eflingarstarfsmenn sem hér um ræðir eiga mikinn stuðning meðal annarra starfsmanna, stjórnenda og foreldra. Þessir aðilar eiga hrós skilið fyrir að sýna þennan skilning og þroska þó þeir verði vissulega fyrir ýmsum óþægindum vega þessarar deilu.
Hvað með leikskólakennara?
Þegar búið verður að ganga að kröfum Eflingar kemur vissulega að því að semja þarf við leikskólakennara. Ekki veit ég hverjar kröfur þeirra verða. Það væri samt með öllu rangt ef þær kröfur miðast við árangur ófaglærðra. Bent hefur verið á að leikskólakennarar eru með 5 ára háskólanám. Það er því mun eðlilegra að þeir beri sig saman við aðra starfsmenn Reykjavíkurborgar sem eru með 5 ára háskólanám frekar en ófaglærðra starfsmenn bara af því þeir starfa í sama húsi. Þess vegna væri fróðlegt að sjá samanburð á launum leikskólakennara og t.d. starfsmanna á tækni-, fjármála- eða starfsmannasviði sem eru með 5 ára háskólanám. Það er hinn eðlilegi samanburður fyrir leikskólakennara.
Allra hagur að þessari deilu ljúki sem fyrst
Nú stendur yfir „störukeppni“ milli samningsaðila. Nokkuð sem ég á erfitt með að skilja. Fyrst vil ég nefna að önnur eins samstaða og sást þegar greidd voru atkvæði um verkfallsaðgerðirnar hefur sjaldan sést. Í öðru lagi geta kröfurnar ekki talist annað en sanngjarnar. Það er ekkert réttlæti í því að þeir hópar sem nú eru að fara í verkfall séu stöðugt á lægstu laununum. Við finnum nú hve mikilvæg þeirra störf eru fyrir samfélagið og höfum væntanlega gert okkur vel grein fyrir því áður en til þessara aðgerða þurfti að koma. Stuðningur við þennan hóp í samfélaginu er líka mikill því almennt virðist fólk skilja mikilvægi leikskóla, umönnunarstarfa og sorphirðu. Fjármagn ætti að vera til því við skulum vona að gert hafi verið ráð fyrir launakostnaði sem tæki mið af lögbundnu hlutfalli fag- og ófaglærðra starfsmanna. Hvers vegna eru menn þá í þessari „störukeppni“?
Stjórnvöld einblína oftast á „hvað kostar það okkur að samþykkja“ hvort sem það eru launakröfur, framkvæmdir eða þjónusta. Ef þeim finnst það einhverra hluta vegna vera of mikið neita þau að verða við óskunum/kröfunum. Þetta er af mörgum talið bera vott um ábyrga stjórnun. Svo er þó ekki alltaf. Það sem líka þarf að gera er að meta kostnaðinn sem verður ef stjórnvöld hafna óskunum. Stundum getur höfnunin kostað meira en samþykkið. Afskaplega er ég hræddur um að það eigi við í þessari deilu.
Athugasemdir