Lífið er bærilegt og fólk er ágætt. Eiginlega er þetta það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég er spurður út í lærdóminn sem draga má af þessu ári. Árið hefur einkennst af ferðalögum við fyrirlestrahald, frá því að bókin Conspiracy & Populism – The Politics of Misinformation kom út hjá Palgrave Macmillan síðasta haust.
Ég hef því verið upptekinn af því að skoða veröldina og séð að þrátt fyrir allt er hún í ágætis ástandi. Okkur er oft svo tamt að líta einkum á heimsósómann á meðan að út um víða veröld er fólk bara að brosa og hlæja, borða og drekka góð vín og dansa. Þrátt fyrir annmarka á veröldinni held ég að fólk sé upp til hópa hamingjusamt. Þegar maður lifir og hrærist í heimsmálaumræðunni birtist oft önnur mynd af veröldinni en maður sjálfur upplifir á faraldsfæti.
„Mannskepnan getur verið æði þolgóð“
Ég vil ekki gera lítið úr fátækt, fjarri því, en mannskepnan getur verið æði þolgóð. Einhverra undarlegra hluta vegna hef ég sóst í að heimsækja fátækrahverfi veraldarinnar og ég veit ekki hvort að það séu margir sem hafa gengið Rocinha faveluna, stærsta og sumir segja hættulegasta fátækrahverfi heims, í Rio de Janeiro, Comuna trece í Medellín í Kólumbíu, sem er annað alræmt slíkt hverfi, og síðan Soweto í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Ég hafði komið í Rocinha áður en seinni fátækrahverfin tvö heimsótti ég á þessu ári. Þetta eiga að vera með skelfilegustu samfélögum veraldar en upplifun mín er sú að það er óvíða og sjaldan sem maður fær eins blíðar móttökur og á þessum stöðum. Ég hef séð miklu meiri eymd í miklu ríkari samfélögum, þar sem mikil misskipting er til að mynda. Ég fann aldrei fyrir óöryggi í þessum hverfum, var ekki hræddur. Það er oft þannig að þeir sem ekkert eiga að gefa, gefa samt allt. Ég tala ekki portúgölsku en í Ríó var mér boðið til sætis og rétt grillað kjöt á teini og þar sat ég og átti í mínum takmörkuðu samskiptum við fólkið. Allir voru glaðir.
Við mættum stundum sjá fegurðina, og ekki síst gleðina, í hinu fábrotna og einfalda. Það verður stundum stórfenglegt fyrir vikið.
Athugasemdir