Ég hef því reynt að líta framhjá um nokkurt skeið núna og hugsað: þetta getur ekki verið. Það er ekki satt.
En eins og með alla aðra Íslendinga með nokkra sómatilfinningu í brjósti, hefur köggullinn myndast í taugakerfinu, þar situr hann fastur. Ég er reiður eina stundina og þunglyndur hina.
Ég reyni að hugsa mér samfélag þar sem fólk flest þarf ekki að hugsa um pólitík, þar sem flestir hafa það dágott, þar sem börn kunna að tala og lesa á sínum fyrstu skólaárum og fólk hefur hugsað áður en það talar, þar sem fólk safnast saman. Ég reyni að ímynda mér samfélag þar sem fólk horfir á hvert annað með vinsemd og forvitni í augum. Eins og aðrir Íslendingar með nokkurn vott af sómakennd langar mig að reyna að átta mig á hvað hefur gerst.
Ég hef ekki neitt framyfir aðra Íslendinga með sómakennd, nema kannski það helst að hafa búið hálfa ævi í öðru landi og annarri menningu. Þar leið mér aldrei svona. Samt gerðust líka slæmir hlutir þar. Spillingarmál komu upp, þar hafa stjórnmálamenn verið staðnir að ýmsu loðnu. En þá hefur einhver líkt og gripið inn og passað upp á mig sem þegn þess ríkis. Mig langar að skilja í hverju munurinn liggur fólginn.
Til að skilja þessa innrás þarf að leita aftur í tímann og spyrja sig að nokkrum grundvallaratriðum er varða stjórnsýslu landa og þjóða, og sem hafa gleymst í dag. Í 4. Bók Politika eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles (kaflar 4-9) kemur fram að stjórnsýsla sé alltaf samþættuð hugsjón siðfræðinnar á þann veg að hennar æðsta takmark er að búa í haginn fyrir andlegt líf þegnanna, «hið innra líf hugsunar» segir gamli spekingurinn, einmitt það sem ekki er hægt í því tilfinningaróti sem áður er lýst.
„Eitthvað er rotið í ríki Danmerkur.“
Forsagan: íslenskt útgerðarfyrirtæki er staðið að glæpsamlegu athæfi til að komast yfir kvóta í Namibíu. Æðstu valdamenn Namibíu hafa þegið mútugreiðslur frá Samherja upp á rúman miljarð ef gögn eru rétt, ágóðanum af veiði kvótans hefur fyrirtækið skotið undan í skattaskjól.
Sitjandi sjávarútvegsráðherra er náinn vinur forstjóra hins grunaða fyrirtækis, bara það er vanhæfi, en hann hefur líka setið í stjórn fyrirtækisins áður (alvarlegt vanhæfi), og hann tjáir öðrum Íslendingum áhyggjur sínar af geðheilsu forstjórans eftir að þáttur Kveiks með afhjúpun á starfsemi Samherja í Namibíu var sendur út (beyond vanhæfi).
Í Afríkuríkinu eru grunaðir menn leiddir í járnum inn í réttarsal og sitja í varðhaldi. Þeir eru sekir um það sem á lögfræðimáli heitir aðgerðarlaus (passiv) spilling. Íslendingarnir sem greiddu múturnar eru grunaðir um virka (aktiv) spillingu. Formaður spillingarstofnunar Namibíu segir: Svona höfum við tekið á málinu hér. Hvað eruð þið að gera á Íslandi?
Það kemur á daginn að það sem setur mig, og að ég tel, alla aðra Íslendinga með sómakennd, úr jafnvægi, er ekki spillingarmálið sjálft, svo illt sem það er. Heldur sú staðreynd að stjórnsýsla og yfirvöld í landinu aðhafast ekki, fordæma ekki, bera öngvar tönnur. Það verður til þess að siðferðikenndin í manns eigin brjósti hættir að ríma við siðferði yfirvalda. Maður skilur að þeir sem stjórna eru ekki þeir sem maður vill að stjórni. Eitthvað er rotið í ríki Danmerkur.
Þannig er ekkert ritúal að hafa, eins og þegnar landsins hafa heimtingu á. Engin yfirvöld segja mér að svona líðum við ekki. Þetta kallast í lögum almenn forvarnarsjónarmið (Allmennpreventive hensyn). Á mannamáli snýst þetta um réttarfarslegt sjónarmið nauðsynlegt að nýta til að hræða fólk frá því að fremja samskonar glæpi. Það gefur manni tilfinningu að sá sem stjórnar hafi siðferðileg gildi.
Þegar stjórnmálamaður í Noregi er vændur um að hafa nýtt skattpeninga almennings til að búa til litla bryggju fyrir hann sjálfan, eða hafa ráðið einhvern tengdan sér í stöðu, er honum vikið úr embætti samdægurs meðan málið er rannsakað. Fæstir eiga afturkvæmt. Sama gildir um hin Norðurlöndin.
Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gera lögreglurannsókn á tengslum Kristjáns Þórs Júlíussonar við Samherja eða namibísku «hákarlanna» sem þó er vitað að hann var í samskiptum við. Það er látið nægja að hann sjálfur beri af sér sakir í sjónvarpssal. Kristján Þór Júlíusson situr í ráðherrastólnum og surfar á símanum sínum og brosir þegar linsa fréttastofu fer um Alþingi nokkrum dögum eftir hneykslið.
„Ég segi sem þegn þessa lands: Ég vil ekki heyra eitt einasta orð meir um tilfinninglíf Þorsteins Más Baldvinssonar!“
Viðbrögð og ó-viðbrögð
En það er fleira að baki þessum óntoum. Það hefur nefnilega sýnt sig að viðbrögð eru til af hálfu stjórnvalda! Um daginn lá Seðlabankinn undir ámæli fyrir að hafa á kært þetta sama fyrirtæki, Samherja, fyrir brot á gjaldeyrislögum vegna undirverðlagningar á fiski og fyrir að hafa gert húsleit hjá fyrirtækinu, sem dæmt var til stjórnvaldssektar upp á 15 miljónir (Stundin 27. 10.2019). Starfsmenn Seðlabankans fundu lykt, en sektin var dæmd ólögmæt. Vitað er að Samherji hefur selt erlendum fyrirtækjum sem þeir eiga sjálfir fiskafurðir frá Íslandi. Af hverju ætti það ekki að vera á undirverði?
Það slær gneistum af forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur sem lítur framgöngu Seðlabankans «alvarlegum augum». Það er rasería í pontu Alþingis. Það er kallað eftir skýringum frá bankanum, stjórnsýsla hans sögð «ekki fullnægjandi» (Frbl. 10. mars 2019).
Þorsteinn Már forstjóri Samherja heimtar Seðlabankastjóra í fangelsi og alla stjórnina rekna. Hann grætur í viðtölum yfir því hve þetta hafi tekið mikið á hann og fjölskyldu hans. Síðan berast fréttir af því að Seðlabankastjóri Már Guðmundsson sé á leið til Kúala Lúmpúr.
Til að toppa þetta sendir talsmaður Sjálfstæðismanna, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, bréf til Lögreglu Reykjavíkur með kæru á hendur starfsmanni Seðlabankans (Stundin 27.10). Það er þekkt í bók Orwells, 1984, að Winston eigi ekki að spyrja spurninga – hvað verður um bankastarfsmanninn sem spurði?
Nú að viðbrögðum við Samherja-hneykslinu – og hér ber okkur að kjarna máls. Í fyrsta lagi lýsir forsætisráðherra yfir stuðningi sínum við sitjandi sjávarútvegsráðherra. Rökin sem eru höfð eftir henni á Stundinni (14.11) eru þessi: „Tengsl hans við forstjóra Samherja sem hefur nú stigið til hliðar hafa líka legið öllum ljós mjög lengi“. Einmitt rökin fyrir því að hann eigi að víkja!
Lítum nánar á aðgerðir. Á Fréttavef RÚV 2. desember er haft eftir nýskipuðum forstjóra Samherja, Björgólfi Jóhannssyni, að engir starfsmenn Samherja hefðu verið kallaðir til skýrslutöku. Hann segir jafnframt, 20 dögum eftir afhjúpun Kveiks, «að Samherji hafi opnað á samstarf» við embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra. Hafi Samherji heila þökk fyrir! Fyrirtækið segist stefna á að hætta í Namibíu.
Þá fáum við aftur að vita um tilfinningalíf Þorsteins Más, að hann «taki ásökununum af miklum þunga». Ég segi sem þegn þessa lands: Ég vil ekki heyra eitt einasta orð meir um tilfinninglíf Þorsteins Más Baldvinssonar!
Gunnar Smári Egilsson hefur rakið mikilvæga þætti í sögu Samherja á Íslandi og birt á fb-síðu sinni, er það upplýsandi lesefni. Í stuttu máli er greint frá því hvernig þeir hafa hagað yfirtöku á sjávarútvegsfyrirtækjum landsins með fjármagnsfléttum, og skilja eftir sviðna jörð þrátt fyrir fögur loforð. Fyrirtækið hefur haft af þessu gróða upp á miljarða krá. Þær greiningar, og eigin viðtöl, við þá sem lent hafa í járntönnum Samherja, benda til þess að þeir hafi hagað sér á sama hátt á Íslandi á 9. og 10. áratugnum og í Namibíu upp á síðkastið. Eignaraðild Samherja í íslenskri kvótaúthlutun er yfir þeim mörkum sem löggjafarvaldið hefur sett. Engin viðbrögð eru við því. Um er að ræða 8 fjölskyldur sem hafa sölsað undir sig þorra alls kvótans, líkt og Stundin hefur bent á, oftast með samskonar fléttum. Hins vegar er haft eftir sitjandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni á Kjarnanum (24.11) að «megintilgangur kvótakerfisins hafi gengið eftir og gengið frábærlega. Það truflar hann ekki að einhverjir hafi hagnast» á kvótakerfinu.
Áfallið sem hér um ræðir má enn og aftur skilja í ljósi heimspekingsins forna. Maður heldur að maður sé þegn í lýðræðisríki, en vaknar skyndilega upp við svokallaða fámennisstjórn. Aristóteles kallar þetta þá óskynsamlegustu stjórnskipun sem til er.
Þetta stjórnarfar er tvenns konar, annars vegar er það lítil fámennisstjórn sem ræður, hins vegar, eins og í dæmi Íslands anno 2019, er slíkri fámennisstjórn sjálfri stjórnað af nokkrum auðugum fjölskyldum (Bók 4. kap. v). Slík skipan stappar nærri einræði. Einkenni slíks stjórnskipulags, segir hann, er að þar verða «mennirnir mikilvægari en lögin», þar eru sérhagsmunir teknir framyfir hagsmuni þeirra sem stjórnað er. Þarna hverfur gjarna millistéttin. Slík stjórnskipun hefur fleiri afleiðingar.
Ríki sem samanstendur af þrælum og herrum
Um leið og ég gef heimspekingnum orðið, vil ég undirstrika að þó margir halda að þetta sé lýsing á Íslandi í dag, er hér er um 2600 ára gamlan texta að ræða: «Niðurstaðan er ríki sem samanstendur af þrælum og herrum, ekki frjálsum mönnum, af einni stétt sem er fyllt öfund og annarri sem fyrirlítur sína meðbræður. Þetta ástand mála er allri vinsemd víðs fjarri» (4. bók, kafli iv, 6).
Hið frjálsa og fagra Ísland sem forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir lýsti svo fjálglega í ræðu sinni hjá Chatham House í London á dögunum, er ekki frjálst, jafnréttismiðað, nútímalegt og kúl eða án stríða. Stjórnskipun þess minnir á barbarískt samfélag aftan úr forneskju. Og tölum beint út: þunglyndi er í flestum tilvikum reiði sem fólk tekur út á sjálfu sér. Þeir sem vilja og nenna þeir sjá. Þeir sjá óréttlætið í fámennisstjórn landsins, til dæmis hvað varðar deilingu auðlinda. Slíkt vekur reiði. Ef ekkert er að gert, og stjórnvöld halda áfram að hygla elítunni, þróast það yfir í þunglyndi þegnanna. Eða byltingu, eins og Aristóteles varaði við að gjarna gerist í slíkum ríkjum.
Hér er vísað í textann forna til að minna á þá huggun harmi gegn, að það sem er að gerast núna á Íslandi hefur gerst margoft áður í mannkynssögunni. Fámennisstjórnir hafa komið og liðið undir lok, nýjir straumar og stefnur hafa tekið yfir og þegnar aftur getað stundað «innra líf hugsunar». Það er máttur í hugsuninni einni. Það sem maður hugsar sér verður gjarna að veruleika. Nú eru runnir upp þeir tímar að þegnar þessa lands þurfa að sjá fyrir sér fegurra og réttlátara samfélag, og ekki leyfa þeim efa að smjúga inn að «allt verði við það sama». Án slíkra hugsjóna verður byltingin endaslepp, og «sútandtæ» maðurinn setjast við stjórnvölinn að nýju. Byltingin byrjar í hugsun minni og þinni.
Bergsveinn Birgisson rithöfundur
Athugasemdir