Hlutbréf í norska bankanum DNB hafa hríðfallið það sem af er degi. Ástæðan er sú að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar gaf í gær út að hafin væri rannsókn á bankanum í kjölfar uppljóstrana Stundarinnar og Kveiks, í samvinnu við Wikileaks og Al Jazeera, á mútugreiðslum Samherja og spillingu tengdri makrílveiðum fyrirtækisins við strendur Namibíu, auk hugsanlegs peningaþvættis í gegnum DNB.
Fall hlutabréfanna var um hádegisbil orðið sex prósent samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins. Það jafngildir því að virði bankans hafi rýrnað um 15 milljarða norskra króna, eða um 200 milljarða íslenskra króna. Mikil viðskipti hafa verið með bréfin en tæplega 12 þúsund viðskipti hafa átt sér stað fyrir tæpa 700 milljónir norskra króna. Þá hefur úrvalsvísitalan norska lækkað um hálft prósent en DNB er langstærsta fyrirtækið í kauphöllinni í Osló.
Virði bréfa í DNB í kauphöllinni í Osló hrundi eftir umfjöllun Stundarinnar og Kveiks 12. nóvember síðastliðinn úr 170,25 stigum og niður í 161,65 föstudaginn 15 nóvember. Síðan þá steig virði bréfa í bankanum hægt og bítandi og 25. nóvember var það orðið 169,20 stig. Daginn eftir lækkaði virði bréfa skarpt en hækkaði aftur á miðvikudag. Það lækkaði svo í gær og er í dag í frjálsu falli. Er vísitala bréfanna nú kominn niður í 155,95 stig.
Athugasemdir