Mbl.is, vefur Morgunblaðsins, heldur áfram að birta nýjar fréttir þrátt fyrir að fréttamenn á vefmiðlum hafi lagt niður störf klukkan tíu í morgun.
Þetta er í annað verkfallið vegna kjaradeilu Blaðamannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins, en síðasta föstudag lögðu meðlimir einnig niður störf. Kjarasamningslaust hefur verið á milli félaganna í tíu mánuði. Vinnustöðvunin nær til Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Sýnar og RÚV. Starfsmennirnir sem leggja niður störf eru ljósmyndarar, myndatökumenn og fréttamenn á vefmiðlum og mun verkfallið standa til klukkan 18 í kvöld.
Þrátt fyrir þetta hafa að minnsta kosti fimm fréttir birst eða verið uppfærðar á Mbl.is frá því klukkan tíu. Það sama gerðist síðasta föstudag á meðan verkfallið stóð yfir. „Það eru auðvitað bara blaðamenn sem vinna á vefmiðlum sem eiga að skrifa þessar fréttir og þeir lögðu niður störf þannig að þetta er hreint og klárt verkfallsbrot,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, við það tilefni. „Ef hver sem er gæti gengið inn í þau störf sem eru lögð niður yrði verkfallsrétturinn einskis virði. Hann hefur hingað til verið virtur á Íslandi.
Stundin, Kjarninn og Birtingur hafa þegar náð samningum við Blaðamannafélagið.
Athugasemdir