Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, vill að þeir aðilar sem nýta auðlindir í sameign þjóðarinnar og selja til þriðja aðila greiði auðlindagjald af nýtingunni. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Lilju Sigurðardóttur, varaþingkonu Framsóknarflokksins, um málið.
„Ráðherra hyggst leggja mat á þann möguleika að taka upp auðlindagjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda landsins í sameign þjóðarinnar, svo sem í tengslum við orkuvinnslu, námuvinnslu og nýtingu ferðaþjónustu á sérstæðri náttúru þar sem um takmörkuð gæði gæti verið að ræða,“ segir í svari Bjartar. Ekki er gert ráð fyrir upptöku nýrra auðlindagjalda í fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.
Björt bendir á að það heyri ekki allar náttúruauðlindir undir sitt málefnasvið en segist ætla að beita sér fyrir vinnu í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti við að greina hvernig réttindum til nýtingar náttúruauðlinda er háttað, gagnsæi í úthlutun réttinda og sjálfbærni nýtingarinnar, meðal annars í samhengi við ákvæði um auðlindamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Í umræddri stefnuyfirlýsingu er hnykkt sérstaklega á því að við ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skuli ekki „gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess“.
Í sjávarútvegskafla stjórnarsáttmálans kemur fram að kannaðir verði kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og „samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna“.
Þá segir að stofnaður verði stöðugleikasjóður sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.
Athugasemdir