Verðbólgan, sem birtist í hækkun verðlags og samhangandi hækkun verðtryggðra lána, er á hraðri uppleið eftir óvenjulága verðbólgu síðustu ár. Miðað við uppfærða verðbólguspá Seðlabanka Íslands má gera ráð fyrir því að 30 milljóna króna húsnæðislán hækki um 1,2 milljónir króna á næsta ári, eða 50 þúsund krónur á mánuði.
Seðlabankinn telur sig knúinn til að grípa til aðgerða vegna versnandi verðbólguhorfa í dag og á næstunni. Fyrsta skrefið er að Seðlabankinn hefur ákveðið að hækka stýrivexti um hálft prósentustig vegna versnandi verðbólguhorfa, úr 5 prósent í 5,5 prósent.
Stýrivaxtahækkunin kemur í kjölfar launahækkana í kjarasamningum, en Seðlabankinn hafði áður varað við áhrifum launahækkana.
Verðbólguhorfur hafa versnað töluvert frá því í maí samkvæmt yfirlýsingu Seðlabankans. Á sama tíma hafa hagvaxtarhorfur líka versnað og er gert ráð fyrir hálfri prósentu minni hagvexti en áður var ráðgert, eða að hann verði rúmlega 4 prósent í ár og um 3 prósent næstu tvö ár. Hagvöxturinn stafar að mestu af vaxandi einkaneyslu, sem aftur ýtir undir verðbólgu.
Athugasemdir