Varnarlína hefur verið reist framan við Alþingi vegna þingsetningar sem verður klukkan hálf ellefu. Girðingar hafa verið reistar til að almenningur komist ekki of nálægt þingmönnum og gestum þeirra.
Síðustu ár hefur verið mótmælt við Alþingi við þingsetningu sem hefst með guðþjónustu í Dómkirkjunni. Hefur á stundum gengið mikið á og jafnvel verið veist að þingmönnum. Eitt minnisstæðasta atvikið var þegar eggi var grýtt í höfuð Árna Þórs Sigurðssonar, fyrrverandi alþingismanns Vinstri-grænna. Þingmaðurinn féll við og náðust myndir af atvikinu.
Ekki er vitað til þess að mikilla mótmæla sé að vænta að þessu sinni þrátt fyrir ólgu í stjórnmálum og hamfarir í fylgistapi gömlu flokkanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur boðað að fjárlögin í ár fel í sér íslandsmet í útgjöldum til velferðarmála. Fjárlögin verða kynnt eftir hádegi í dag.
Athugasemdir