Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Umdeild fortíð ráðherra nýrrar ríkisstjórnar

Ráð­herr­ar nýrr­ar rík­is­stjórn­ar hafa ver­ið kynnt­ir. Einn þeirra þáði leynistyrki upp á tugi millj­óna frá stór­fyr­ir­tækj­um, ann­ar tal­aði máli bank­anna sem ráð­herra á með­an eig­in­mað­ur­inn átti tæp­an millj­arð í hluta­bréf­um með kúlu­láni og þriðji fékk á sig van­traust í fé­laga­sam­tök­um áð­ur en stjórn­mála­fer­ill­inn hófst vegna „vinavæð­ing­ar“.

Umdeild fortíð ráðherra nýrrar ríkisstjórnar
Nýir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðnaðar-, nýsköpunar og ferðamálaráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Mynd: Pressphotos

Stjórnmálamenn með afar umdeildan bakgrunn eru á meðal ráðherra nýrrar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. 

Einn þeirra, Guðlaugur Þór Þórðarson, þáði tæplega 25 milljónir króna í leynilega styrki frá útrásarfyrirtækjum og átti milligöngu um að Landsbankinn og FL Group útveguðu samtals 45 milljónir króna í leynistyrki til Sjálfstæðisflokksins. 

Annar ráðherrann, nú fyrir hönd Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, var til umfjöllunar í rannsóknarskýrslu Alþingis vegna þeirrar stöðu að eiginmaður hennar hafði fengið kúlulán fyrir hlutabréfum í Kaupþingi, sem starfsmaður bankans, upp á 900 milljónir króna, til að kaupa hlutabréf í bankanum. Ekki hafði verið upplýst um þann hagsmunaárekstur ráðherrans þegar hún kom fram sem ráðherra og varði íslensku bankana af mikilli hörku.

Þá vék annar ráðherra Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir, úr stöðu formanns Geðhjálpar í kjölfar vantraustsyfirlýsingar eftir harðvítugar deilur og ásaknir um „vinavæðingu“, áður en hún hóf stjórnmálaferil sinn.

Í meðfylgjandi úttekt á bakgrunni nýrra ráðherra er fjallað um umdeild atriði á ferli þeirra, en ekki er um að ræða tæmandi úttekt á hæfi þeirra, reynslu eða áherslum.

Forsætisráðherra faldi skýrslu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnti stjórnarsáttmálann í gær ásamt formönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Á blaðamannafundinum sögðust þeir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé vilja ástunda ný vinnubrögð í ríkisstjórn og boðuðu aukið gegnsæi, opnari stjórnsýslu, meiri samvinnu og samráð, en ríkisstjórnin er mynduð tveimur dögum eftir að nýr forsætisráðherra var staðinn að ósannindum vegna skýrslu sem fól í sér áfellisdóm yfir stefnu Sjálfstæðisflokksins á sviði skattrannsókna og skattalöggjafar en hann ákvað að halda skýrslunni leyndri fyrir kjósendum fram yfir kosningar.

Í nýrri ríkisstjórn fær Sjálfstæðisflokkurinn sex ráðherrastóla, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo, auk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm af átta nefndarformönnum á Alþingi og forseta Alþingis, en Unnur Brá Konráðsdóttir er tilnefning flokksins til forseta Alþingis.

Ráðherrrar ViðreisnarBenedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra.

 

Auk Bjarna eru þetta ráðherrar Sjálfstæðisflokksins: 

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra,
  • Sigríður Á Andersen, dómsmálaráðherra,
  • Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra,
  • Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, byggða- og sveitastjórnarmála, 
  • Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

 

Viðreisn fær þrjá ráðherra. Þetta eru: 

  • Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra,
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra,
  • Þorsteinn Víglundsson, félagsmálaráðherra.

 

Ráðherrar Bjartrar framtíðar eru:

  • Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, og
  • Björt Ólafsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra.

Nýir ráðherrar Íslands

Lykilmaður í styrkjamálinu

Guðlaugur Þór Þórðarson

Utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór ÞórðarsonNýr heilbrigðisráðherra.

Guðlaugur Þór, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og oddviti í Reykjavík norður, fékk minnstan stuðning allra oddvita Sjálfstæðisflokksins, eða rúmlega 24 prósenta stuðning í sínu kjördæmi. Hann er umdeildur eftir styrkjamálið svokallaða fyrir bankahrunið.

Guðlaugur Þór var einn af lykilmönnum í styrkjamálinu svokallaða árið 2009, þegar í ljós kom að hann hefði átt milligöngu um háa styrki til Sjálfstæðisflokksins áður en lög sem takmörkuðu styrki til stjórnmálaflokka tóku gildi. Fram kom að Guðlaugur Þór hefði átt milligöngu um styrki frá 10 fyrirtækjum. Meðal annars styrkti útrásarfélagið FL Group Sjálfstæðisflokkinn um 25 milljónir króna og Landsbankinn um 30 milljónir króna. Á sama tíma viðhafði Sjálfstæðisflokkurinn stefnu, sem hafði að mati höfunda nýbirtrar skýrslu um skattaskjólsviðskipti Íslendinga, skaðleg áhrif.

Guðlaugur Þór svaraði ekki spurningum um aðkomu sína að því að útvega styrki, en athafnamaðurinn Þorsteinn M. Jónsson, forstjóri Vífilfells, og Steinþór  Gunnarsson, fyrrverandi yfirmaður verðbréfadeildar Landsbankans, sem síðar var dæmdur í fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, greindu seinna frá því að Guðlaugur Þór hefði haft samband við þá og beðið um styrki vegna bágrar fjárhagsstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór var sjálfur sá stjórnmálamaður sem hæsta styrki hafði fengið. Löngu eftir að styrkjamálið komst í umræðu, þann 4. júní 2010, greindi Guðlaugur loks frá því að hann hefði þegið 24,8 milljónir króna í styrki frá stórfyrirtækjum fyrir prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík 2006. Enginn stjórnmálamaður þáði hærri leynistyrki en hann. Meðal fyrirtækjanna sem Guðlaugur Þór þáði styrki frá voru Baugur, FL Group og Fons.

Guðlaugur Þór greindi aldrei frá þriðjungi styrkjanna sem hann fékk, upp á níu milljónir króna.

Haustið 2010 svöruðu 73 prósent svarenda í könnun MMR því til að þeir vildu að Guðlaugur Þór segði af sér þingmennsku. 10 prósent kváðust sátt við ákvörðun hans um að halda áfram. Þá ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins um að stórir styrkþegar flokksins skyldu segja af sér, en Guðlaugur Þór hafnaði því

Hann hélt áfram og er nú aftur orðinn ráðherra.

Aðkoma Guðlaugs Þórs að umdeildri skýrslu Vigdísar Hauksdóttur var til umræðu á síðasta ári. Skýrslan, um einkavæðingu bankanna hina síðari, var kennd við fjárlaganefnd án þess að hafa fengið meðferð nefndarinnar og voru í henni að finna villur, auk þess sem málsaðilar fengu ekki tækifæri til að tjá sig og hafði verið leitast við að forðast að þeir fengju veður af henni fyrir kynningu hennar á blaðamannafundi.

Guðlaugur Þór er varaformaður Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna AECR, sem fordæmdi valdaránstilraun tyrkneska hersins gegn AKP, flokki Recep Tayyip Erdoğan forseta Tyrklands. Á meðal þeirra sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur lag sitt við í samtökunum eru stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem þekktir eru fyrir þjóðernisofstæki og andstöðu við fóstureyðingar og lifnaðarhætti hinseginfólks. Sjálfstæðisflokkurinn er eini hægriflokkurinn á Norðurlöndum sem tilheyrir samtökunum að færeyska Fólkaflokknum undanskildum. 

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu

Kristján Þór Júlíusson

Menntamálaráðherra 

Kristján Þór JúlíussonNýr menntamálaráðherra.

Fráfarandi heilbrigðisráðherra, er kennaramenntaður og með skipstjórnarpróf. Hann hefur einna helst víðtækan bakgrunn í sjávarútvegs- og sveitarstjórnarmálum, fyrir utan fjögurra ára ráðherrareynslu.

Sem heilbrigðisráðherra talaði hann fyrir einkavæðingu og stóð fyrir grundvallarbreytingu á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu með ákvörðun um opnun einkarekinna heilsugæslustöðva sem keppa um viðskiptavini við aðrar stöðvar. 

Eins vakti athygli þegar ráðherrann sagðist fyrst hafa heyrt af áformum um að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ í fréttum RÚV þegar mynd af honum með fjárfesti sem kom að verkefninu fannst á vef móðurfélags fyrirtækisins sem fékk úthlutað lóð til framkvæmdarinnar. Kristján skýrði það með því að hann hefði vissulega hitt manninn, sem hefði kynnt fyrir honum hugmyndir um einkaskurðstofu í Klíníkinni, en á þeim fundi hefði ekkert verið rætt um áform um einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

Hörð frjálshyggjukona 

Sigríður Á. Andersen

Dómsmálaráðherra

Sigríður Á. AndersenNýr dómsmálaráðherra.

Sigríður hefur setið á Alþingi frá árinu 2015 og var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði gegn umdeildum búvörusamningi á síðasta kjörtímabili. Áður var hún varaþingmaður frá árinu 2008 en hún hefur tekið virkan þátt í starfi flokksins frá unga aldri.  Sigríður hlaut frelsisverðlaun Sambands ungra sjálstæðismanna árið 2016 fyrir „bar­áttu sína fyr­ir frelsi ein­stak­lings­ins til at­hafna og viðskipta“.  

Sigríður er hörð frjálshyggjukona og er einn hægrisinnaðasti ráðherra sem setið hefur á Íslandi. Hún er menntaður lögfræðingur og starfaði sem slíkur hjá LEX lögmannsstofu frá árinu 2007 til 2015. Hún var einn af stofnendum frjálshyggjumiðilsins Vefþjóðviljans og sat um árabil í stjórn félagsins.

Sigríður sagði tækifæri til einkavæðingar felast í fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum vegna bágra launa. Hún lagðist einn þingmanna gegn stofnun Jafnréttissjóðs Íslands með þeim orðum að tillagan væri vonbrigði og ekkert annað en „enn eitt rík­is­út­gjalda­mál­ið.“ Í umræðum um virðisaukaskatt sagði hún að of mikil áhersla væri lögð á mat, því helst ættum við „ættum við kannski öll að kaupa aðeins minna af mat.“ Hvatti hún til þess að horft yrði á stóru myndina og hætt „að fókusera á mat“.

Sigríður hefur vakið athygli í umræðum um umhverfismál, meðal annars í kosningaþætti Sjónvarpsins í haust þegar hún lýsti því yfir að hún flokkaði ekki rusl á heimili sínu. Hún hefur meðal annars lagt til að grænir skatta á bíla og eldsneyti verði afnumdir, vegna þess að framræst land valdi meiri gróðurhúsaáhrifum en bifreiðanotkun. Sigríður hefur barist fyrir minni skattlagningu vegna bíla og eldsneytis. Eftir að hópurinn París 1,5 greindi stefnu stjórnmálaflokka í umhverfismálum fyrir síðustu kosningar gagnrýndi hún umhverfisumræðu og sagði hana á villigötum og sagði að hún hefði verið „hertekin af óbilgjörnum hópum sem nota þau til að ná fram ýmsum öðrum pólitískum markmiðum sínum“, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk falleinkunn fyrir stefnu sína í umhverfismálum.

Styrktur af fyrirtækjum í sjávarútvegi

Jón Gunnarsson

Ráðherra samgöngumála, byggða- og sveitastjórnarmála

Jón GunnarssonNýr samgönguráðherra.

Jón Gunnarsson, hefur setið á þingi frá árinu 2007, og er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur fengið hæstu styrki frá útgerðinni. Á þingi hefur hann lagt áherslu á að skapa sjávarútvegsfyrirtækjum langtímaöryggi, einfalda veiðigjaldakerfið og sagt að það sé óráð að markaðurinn ráði ferðinni við útreikning veiðigjalda. Þá hefur hann lagst eindregið gegn uppboðsleiðinni á kvóta.

Hann var formaður atvinnuveganefndar þegar meirihluti nefndarinnar ákvað að bæta fjórum virkjanakostum við þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun í nýtingarflokk, þvert á niðurstöður rammaáætlunar. Áður hafði hann reynt að bæta átta virkjunarkostum við tillöguna en bakkað vegna mótstöðu sem hann mætti á þinginu. Undir lok síðasta kjörtímabils vöktu ummæli hans um tónlistarkonuna og náttúruverndarsinnan Björk Guðmundsdóttur svo mikla reiði að borgastjóri Reykjavíkur sagði hann verða að biðjast afsökunar eða sitja uppi með ævarandi skömm, eftir að Jón sagði Björk „frekar daufa til augnanna á bakvið grímuna“.

Þegar mótmælendur söfnuðust saman í Panamagrill fyrir utan Hótel Sögu þar sem þingmenn voru við veislu í Súlnasalnum kallaði hann einn úr hópi mótmælenda aumingja. Í kjölfarið hafnaði hann því að Sjálfstæðisflokkurinn eða forystumenn hans væru „á kafi í einhverjum aflandseyjamálum,“ eins og hann orðaði það og sagðist byggja það á Panama-gögnunum. 

Yngsti ráðherrann 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar

Þórdís Kolbrún GylfadóttirNýr iðnaðarráðherra.

Þórdís Kolbrún er yngsta konan til þess að verða ráðherra á Íslandi. Hún er menntaður lögfræðingur og var aðstoðarmaður Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu frá árinu 2015. Áður hafði hún verið framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna frá vorinu 2013. Hún hefur ekki setið á þingi en þegar hún var í framboði í haust sagðist hún hafa áhuga á stjórnmálum af því að þau væru skemmtileg, krefjandi og gefandi. Með einföldum og sanngjörnum leikreglum mætti hvetja fólk til góðra verka og verðmætasköpunar. Þórdís Kolbrún er aðeins 29 ára gömul og er yngsta konan til að gegna ráðherraembætti á Íslandi.

Úr hjarta Engeyjarveldisins:„Loforðið var svikið“

Benedikt Jóhannesson

Fjármála- og efnahagsráðherra

Benedikt JóhannessonNýr fjármálaráðherra.

Benedikt hefur mikla reynslu úr viðskipta- og atvinnulífinu og er með BS-próf í stærðfræði og hagfræði frá Háskólanum í Wisconsin og bæði masters- og doktorspróf í tölfræði frá Florida State University.

Benedikt er stofnandi og formaður Viðreisnar. Hann komst naumlega á þing og fékk aðeins um 6 prósent stuðning í Norðuausturkjördæmi í alþingiskosningunum. Áður starfaði hann sem útgefandi og ritstjóri Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnhagsmál. Samkvæmt hagsmunaskráningu Alþingis heldur hann áfram sem ritstjóri Vísbendingar samhliða starfi sínu í stjórnmálum. Ekki kemur þar fram að hann sé eigandi útgáfufélagsins Heims, sem gefur út Frjálsa verslun, tímarits sem fjallar um efnahagsmál, málaflokk ráðuneytis Benedikts.

Benedikt hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og var meðal annars stjórnarformaður Nýherja áður en hann sagði af sér eftir kosningar til að forðast hagsmunaárekstur.

Í kringum framboð hans hafa verið rifjuð upp umdeild viðskipti hans. Í nóvember 2015 seldu hann og eiginkona hans hluti í fyrirtækinu fyrir ríflega 130 milljónir króna, rúmri viku áður en stjórnarfundur ákvað að auka hlutafé þess og þannig þynna út hluti eigenda um nær 10 prósent. Sérfræðingur um góða stjórnarhætti sagði þetta „óheppilegt“ í samtali við DV en Benedikt sagði ekkert óeðlilegt við viðskiptin eða tímasetningu þeirra. Óttar Guðjónsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, rifjaði upp viðskipti Benedikts í grein í Morgunblaðinu í aðdragana alþingiskosninga og kallaði eftir skýringum. Benedikt svaraði honum samdægurs á Facebook-síðu sinni og segist hafa fengið leyfi regluvarðar fyrir viðskiptunum. Þá hafi Fjármálaeftirlitið ekki talið ástæðu til að aðhafast í málinu.   

Benedikt var ansi fyrirferðarmikill í íslensku viðskiptalífi í kringum aldamótin, en hann var stjórnarformaður í félögum á borð við Burðarás, Skeljung, fjárfestingarfélagið Haukþing og Eimskip. Þá tók Benedikt sæti Bjarna Benediktssonar, frænda síns, í stjórnum N1 og BNT, árið 2008, nokkrum árum eftir að sá síðarnefndi tók sæti á Alþingi.

Benedikt komst í fréttir árið 2012 þegar í ljós kom að Gildruklettar, eignarhaldsfélag í hans eigu, Einars Sveinssonar, frænda Benedikts og Halldórs Teitssonar, hefði skuldað Sparisjóðnum í Keflavík hálfan milljarð króna árið 2010. Þetta kom fram í skýrslu sem endurskoðendafyrirtækið PwC vann fyrir Fjármálaeftirlitið um starfsemi sparisjóðsins. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2013, en ekkert fékkst upp í rúmlega 647 milljóna króna kröfur sem lýst var í félagið. Þegar DV spurði Benedikt út í málið sagðist hann ekkert vita um það, þrátt fyrir að hafa átt þriðjungshlut í félaginu. „Ég kom ekki svo mikið að þessu félagi þannig að ég get ekki svarað miklu um það. Ég var aldrei í stjórn þarna,“ sagði hann.

Árið 2008 skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Benedikt sem formann stjórnar nýrrar sjúkratryggingastofnunar, Sjúkratrygginga Íslands, sem ætlað er að semja um og kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins. Þar tók Benedikt meðal annars þátt í vinnu sem miðaði að því að skapa aukið rými fyrir einkarekstur og einkavæðingu í gegnum sjúkratryggingar.

Benedikt tilheyrði lengi vel Evrópuarmi Sjálfstæðisflokksins, og var meðal annars formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, en sagði sig úr flokknum árið 2014 þegar ljóst var orðið að kosningaloforð stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi aðildarumsókn yrðu ekki efnd. „Lof­orð er lof­orð – og lof­orðið var svikið,“ sagði hann um þessa atburðarás á landsþingi Viðreisnar nú í september. „All­ir voru svikn­ir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið.“ Í apríl 2009 skrifaði hann grein í Morgunblaðið þar sem hann hélt því fram að íslenska þjóðin myndi festast í fátæktargildru ef ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu.

900 milljóna króna leyndur hagsmunaárekstur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirNýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þorgerður Katrín sat á Alþingi á árunum 1999–2013 fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var menntamálaráðherra 2003–2009 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2005–2010. Sem menntamálaráðherra einkavæddi hún meðal annars Iðnskólann í Reykjavík, einn stærsta framhaldsskóla landsins, sem sameinaðist Fjöltækniskóla Íslands. Úr varð Tækniskólinn ehf. og er hann í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi – SFS, Samtaka iðnaðarins, Samorku, og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Þorgerður átti síðar eftir að sitja í stjórn Tækniskólans fyrir hönd SFS.  

Sem ráðherra var Þorgerður Katrín harðorð í garð þeirra sem gagnrýndu íslenska efnahagsundrið og sagði meðal annars að sérfræðingur Merryll Linch þyrfti á endurmenntun að halda, eftir að hann sagði í júlí 2008 að með áframhaldandi aðgerðaleysi sínu myndu stjórnvöld keyra íslensku bankana í þrot. Á þeim tíma vissi enginn að hún átti sjálf gríðarlega hagsmuni undir í málinu en eiginmaður hennar, Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kaupþings, fékk 1.700 milljóna króna kúlulán, sem hann fékk frá bankanum til hlutabréfakaupa, afskrifað í kjölfar hrunsins. Nöfn þeirra hjóna eru ofarlega á blaði í 2. bindi rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslenska bankakerfisins þar sem fjallað er um þá stjórnmálamenn og maka þeirra sem höfðu heildarlánastöðu sem var hærri en 100 milljónir króna. Þorgerður Katrín sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um málið og tók sér tímabundið hlé frá þingstörfum þann 17. apríl 2010. Hún tók aftur sæti á Alþingi þann 13. september 2010, sat á þingi út kjörtímabilið og beitti sér meðal annars af hörku gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og stjórnarskrá Íslands.

Eftir að Þorgerður hætti á þingi fór hún að vinna fyrir Samtök atvinnulífsins sem forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs. Um var að ræða nýtt svið innan samtakanna með það að markmiði að þróa einkarekstur í menntamálum. Meðal þess sem samtökin leggja áherslu á er að „auka skilvirkni skólastarfs“. Markmiðið sé að stytta allt skipulagt nám um allt að tvö ár þannig að lokapróf úr framhaldsskóla verði við 18 ára aldur. Þetta markmið rímar vel við áherslur Sjálfstæðisflokksins en Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, stytti framhaldsskólanám um eitt ár á síðasta kjörtímabili. Þorgerður Katrín skilaði inn afar jákvæðri umsögn, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, um umdeilt LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar. Í henni segir meðal annars að frumvarpið komi til móts við helstu sjónarmið samtakanna. „Í heildina eru breytingar þær sem boðaðar eru á LÍN, námslánum og námsstyrkjum til bóta fyrir íslenskt menntakerfi. Samtök atvinnulífsins mæla því með að frumvarpið verði afgreitt eftir málefnalega umfjöllun Alþingis,“ segir í umsögn Þorgerðar. Sem kunnugt er hlaut frumvarpið mikla gagnrýni en það var meðal annars sagt skerða jafnrétti til náms. Í því var einnig lagt til að tekjutenging afborgana af námslánum yrði afnumin, vextir allt að þrefaldaðir og námsstyrkur veittur öllum nemendum, óháð efnahag og þörf. Háskóli Íslands og fjöldi annarra umsagnaraðila vöruðu við því að frumvarpið yrði óbreytt að lögum.

Athygli vakti þegar Þorgerður Katrín hélt því fram í viðtali við Útvarp Sögu þann 30. desember að fólk sem stjórnist af „öfundargeni“ hefði alið á togstreitu á milli útgerðarmanna og þjóðarinnar.  Sem þingkona Sjálfstæðisflokksins barðist Þorgerður af mikilli hörku gegn veiðigjöldunum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði á útgerðarfyrirtæki. Sem frambjóðandi Viðreisnar hefur Þorgerður lagt áherslu á að skapa sátt milli útgerðarinnar og þjóðarinnar. Fer hún með málefni sjávarútvegsins í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Þorgerður var strikuð út af 8,2 prósent kjósenda Viðreisnar í kjördæmi hennar í alþingiskosningunum. Enginn annar þingmaður var strikaður oftar út, ef undanskilinn er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. 

Talsmaður lítilla launahækkana

Þorsteinn Víglundsson

Félagsmálaráðherra

Þorsteinn VíglundssonNýr félagsmálaráðherra.

Nýr félagsmálaráðherra hefur vakið athygli sem málsvari þess að almennir launþegar fái sem minnstar launahækkanir, svo tryggja megi stöðugleika í hagkerfinu.

Þorsteinn starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2013 áður en hann var kjörinn á þing. Sem slíkur vakti hann meðal annars athygli þegar hann varð málsvari þess að almenningur fengi sem minnstar launahækkanir, svo forðast mætti verðbólgu, á þarsíðasta ári. Hann varaði við því að launahækkanir mættu ekki verða meira en þrjú til fjögur prósent. „Við erum einfaldlega komin á endastöð,“ sagði hann. „Við erum að gera miklu meira en að hringja viðvörunarbjöllum. Við erum í raun og veru í krísuástandi. Við höfum vaxandi áhyggjur af raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða launa, það er hvernig launakostnaður fyrirtækja hér er að hækka í samanburði við nágrannalönd okkar.“ Launahækkanir urðu þó mun meiri en það, um 11,3 prósent á síðasta ári. Verðbólga mælist nú um 1,8 prósent og hagvöxtur um tíu prósent.

Þorsteinn ræddi ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna um 45 prósent í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann sagði að búast mætti við því að hann beiti sér fyrir breytingum á lögum um kjararáð á þingi. „Mér finnst þetta meingallað fyrirkomulag og það hefur verið deilt um þetta áratugum saman,“ sagði hann meðal annars.

Þorsteinn var einnig framkvæmdastjóri SAMÁL, Samtaka álframleiðenda. Sem framkvæmdastjóri lagðist hann ítrekað gegn hærri sköttum á álfyrirtækin, meðal annars í umsögnum til Alþingis og í greinarskrifum. „Ég myndi halda að stjórn­völd fagni því þegar sam­keppn­is­staða út­flutn­ingsaðila sé góð, en fari ekki að veikja hana með skött­um,“ sagði Þor­steinn meðal annars í viðtali við Morgunblaðið þegar ríkisstjórnin ákvað að framlengja orkuskatti á stóriðju til ársins 2018. Skattgreiðslur álveranna hafa verið talsvert í umræðunni undanfarin ár og fyrirtækin beita ýmsum aðferðum til að komast hjá skattgreiðslum á Íslandi.

Þorsteinn er prókúruhafi í tveimur fyrirtækjum, annars vegar B.M. Vallá ehf. og Hlutdeild, fasteignafélags ehf. hins vegar. B.M. Vallá var stofnuð af föður Þorsteins, Víglundi Þorsteinssyni, sem Víglundarskýrslan er nefnd eftir, en Víglundur færði fram ásakanir á hendur ráðamönnum, embættismönnum og eftirlitsaðilum vegna endurreisnar íslenska bankakerfisins. Auk þess situr Þorsteinn í stjórn fjögurra fyrirtækja, Hlutdeild, fasteignafélags ehf., Lindarflöt ehf., Starf-vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. og Vertigo ehf.   

Í stjórnmál eftir vantraustsyfirlýsingu

Björt Ólafsdóttir

Umhverfis- og auðlindaráðherra

Björt ÓlafsdóttirNýr umhverfisráðherra.

Björt „brennur fyrir umhverfismálum og nýrri nálgun í atvinnumálum,“ sagði í umsögn um hana á vef Bjartrar framtíðar.

Björt er með BA-próf í sálfræði og kynjafræði og masterspróf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.

Björt Ólafsdóttir var meðal annars formaður Geðhjálpar árin 2011 til 2013, sem endaði með harðri deilu milli hennar og Geðhjálpar. Stjórn Geðhjálpar samþykkti vantrauststillögu á Björt Ólafsdóttur nokkrum dögum áður en hún lét af störfum sem formaður, meðal annars sökuð um „vinavæðingu“, og hóf svo þátttöku í stjórnmálum.

Talsmaður breyttra vinnubragða

Óttarr Proppé

Heilbrigðisráðherra

Óttarr ProppéNýr heilbrigðisráðherra.

Óttarr kom inn á þing fyrir Bjarta framtíð árið 2013, eftir að hafa verið í borgarstjórn frá árinu 2010 og setið í stjórn Besta flokksins. Hann er tónlistarmaður og lagahöfundur með hljómsveitunum HAM, Dr. Spock og Rass.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, skipaði Óttarr formann þverpólitísks þingmannahóps sem átti að meta hvort og þá með hvaða hætti væri þörf á heildarendurskoðun á löggjöf um málefni innflytjenda. Í kjölfarið voru ný útlendingalög samþykkt á Alþingi, en markmið laganna var að auka mannúð. Óttarr hefur sjálfur sagt að málefni flóttamanna sé hans hjartans mál. Eitt af því sem kveðið var á í lögunum sem tóku gildi um áramótin var að ríkið hætti að refsa hælisleitendum fyrir að koma til Íslands á fölsuðum eða stolnum skilríkjum. Hins vegar festu lögin í sessi vald innanríkisráðherra til að skylda útlendinga, aðra en norræna ríkisborgara, til að vera alltaf með vegabréf eða annað kennivottorð meðferðis við dvöl hér á landi. Lögin skylda útlendinga til að sýna skilríki að kröfu lögreglu og veita upplýsingar sem sanna að dvöl þeirra á Íslandi sé lögmæt. Óhlýðnist útlendingar þessari kröfu er lögreglu heimilt að gera húsleit hjá þeim.

Óttarr hefur einnig talað fyrir bættum vinnubrögðum á Alþingi og sagt að afhjúpanir á Panamaskjölunum væru eins og högg í magann. Að þau sýndu að hér búa tvær þjóðir, önnur væri þjóð forréttinda og innmúraðra valda og svo allir hinir.

Hann hóf síðan stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Viðræðunum var slitið og Óttarr skýrði það með því að „á endanum reyndist hugmyndin um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um áframhald viðræðna við ESB annars vegar, og umbætur í kvótakerfinu hins vegar, of stór biti fyrir menn að kyngja. Björt framtíð hefur frá upphafi verið skýr um það að við erum tilbúin að axla ábyrgð til góðra verka en ekki lélegra. Við höfum staðið fast á þeim prinsipum og munu gera það áfram.“ Í stjórnarsáttmálanum sem var undirritaður í dag var þó ekki kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður um ESB og óljóst hvaða umbætur eiga að verða á kvótakerfinu.

Milli stjórnmála og viðskipta

Bjarni Benediktsson

Forsætisráðherra

Bjarni BenediktssonNýr forsætisráðherra.

Bjarni Benediktsson er menntaður lögfræðingur og hefur langa reynslu af viðskiptum og stjórnmálum.

Dagana fyrir kynningu á nýrri ríkisstjórn hefur Bjarni Benediktsson svarað fyrir skýrslumálið svokallaða, þar sem hann ákvað að birta ekki skýrslu um skattaskjólseign Íslendinga fyrr en eftir alþingiskosningarnar. Hann var staðinn að ósannindum í viðtali um málið. Bjarni sagði skýrsluna ekki hafa verið tilbúna áður en Alþingi var slitið í haust, en í ljós kom að hún hafði verið tilbúin mánuði áður.

Bjarni á að baki langa sögu umdeildra viðskipta, hagsmunatengsla, hagsmunaárekstra og ákvarðana sem tengjast stöðu hans.

Hann átti aðkomu að því að setja ströng skilyrði fyrir kaupum á gögnum um Íslendinga í skattaskjóli.

Bjarni er hins vegar sjálfur einn þeirra Íslendinga sem átti eignir í skattaskjóli, ásamt föður sínum og frændum.

Í upphafi stjórnmálaferils síns var Bjarni bæði tengdur inn í viðskipti og stjórnmál. Það er til marks um stöðu Bjarna strax fyrir hrun að hann, þá þingmaður, var meðal annars staddur á næturfundi í fjárfestingafélaginu Stoðum, sem áður hét FL Group, sem sóttur var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, skuggastjórnanda Glitnis, og fleiri. Þess ber að geta að FL Group var eitt þeirra félaga sem styrkti Sjálfstæðisflokkinn og meðlimi flokksins leynilega með háum upphæðum áður en lög fyrirbyggðu slíkt, og var ekki látið uppi um styrkina. Þremur dögum áður en Bjarni átti næturfundinn, þar sem yfirtaka Glitnis var rædd, náði faðir hans að selja eign sína í peningamarkaðssjóði Glitnis fyrir 500 milljónir króna og senda fjármunina til Flórída. 

Bjarni var einn af aðilunum sem tóku þátt í viðskiptafléttu í febrúar 2008. Hann skrifaði þá undir samning í umboði eigenda félagsins Vafnings. Við tók flókin viðskiptaflétta, þar sem Vafningur fékk lánaða 10,5 milljarða króna til þess að endurfjármagna félagið Þáttur International, sem var í eigu Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Benedikt er faðir Bjarna. 

Í sama mánuði, febrúar 2008, ræddu Davíð Oddsson, Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um verulegar hættur sem steðjuðu að bönkunum, ákvað Bjarni, sem þá var þingmaður, að selja öll hlutabréf sín í Glitni fyrir um 126 milljónir króna. Faðir hans, Benedikt Sveinsson, seldi fyrir 850 milljónir króna á sama tíma. Vitneskja, sem Bjarni gat nálgast bæði úr viðskiptum og úr stjórnmálum, um erfiða stöðu bankans, var ekki á færi margra. 

Vantraust hefur skapast vegna hagsmunaárekstra Bjarna í tíð hans sem fjármálaráðherra. Í lok ársins 2014 seldi Landsbankinn, sem er í eigu ríkissins, félagi í eigu Einars Sveinssonar, frænda Bjarna, Borgun í lokuðu söluferli. Fyrirtækið greiddi svo fyrri eigendum sínum arð upp á 800 milljónir króna, sem var fyrsta arðgreiðsla þess síðan 2007. Bjarni kvaðst enga aðkomu hafa haft að málinu, en Landsbankinn hefur ákveðið að sækja rétt sinn vegna sölunnar. 

Bjarni var einn þeirra sem lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið fyrir kosningarnar 2013. Hann sneri hins vegar baki við loforðinu eftir kosningar og var gagnrýndur harðlega fyrir. Vegna „loforðasvika“ var klofningsframboðið Viðreisn stofnað af Benedikt Jóhannessyni. Ný ríkisstjórn Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins boðar hins vegar ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið, nema í lok kjörtímabilsins ef Alþingi ákveður svo.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Ný ríkisstjórn

Guðlaugur segist hafa sóst sérstaklega eftir umhverfisráðuneytinu
FréttirNý ríkisstjórn

Guð­laug­ur seg­ist hafa sóst sér­stak­lega eft­ir um­hverf­is­ráðu­neyt­inu

Guð­laug­ur Þór Þórð­ar­son, þing­mað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins og nýr um­hverf­is­ráð­herra, seg­ist hafa sóst eft­ir því sér­stak­lega að fá að taka við ráðu­neyti um­hverf­is- og lofts­lags­mála þeg­ar fyr­ir lá hvaða ráðu­neyti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn myndi fá. Hann seg­ist ekki hafa sóst sér­stak­lega eft­ir því að verða ut­an­rík­is­ráð­herra áfram.
Áralangar deilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars hafa ratað til lögreglunnar
FréttirNý ríkisstjórn

Ára­lang­ar deil­ur inn­an fjöl­skyldu Ásmund­ar Ein­ars hafa rat­að til lög­regl­unn­ar

Margra ára deil­ur hafa geis­að í fjöl­skyldu fé­lags­mála­ráð­herra, Ásmund­ar Ein­ars Daða­son­ar, um jörð­ina Lamb­eyr­ar í Döl­um. Ásmund­ur Ein­ar bjó á jörð­inni áð­ur en hann sett­ist á þing. Fað­ir hans, Daði Ein­ars­son, rak bú á jörð­inni sem varð gjald­þrota og missti hann í kjöl­far­ið eign­ar­hlut sinn í jörð­inni yf­ir til systkina sinna sjö. Bróð­ir Daða væn­ir feðg­ana um inn­brot í íbúð­ar­hús á Lambeyr­um sem deilt er um.
Hvaða „pólitísku sýn um örlög“ Íslands hafa Vinstri græn?
Ingi Freyr Vilhjálmsson
PistillNý ríkisstjórn

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Hvaða „póli­tísku sýn um ör­lög“ Ís­lands hafa Vinstri græn?

Stjórn­mála­flokk­ar verða að hafa skýra sýn og stefnu um það hvernig land þeir vilja búa til og hvernig sam­fé­lag þeir vilja ekki að verði að veru­leika. Með ákvörð­un sinni um stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur við Sjálf­stæð­is­flokk­inn er orð­ið al­veg óljóst hvert Vinstri græn vilja stefna við mót­un ís­lensks sam­fé­lags, seg­ir Ingi Vil­hjálms­son í pistli.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
4
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
5
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár