Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hefur að undanförnu leyst Ólöfu Nordal af sem innanríkisráðherra á meðan hún glímir við veikindi.
Þetta þýðir að einn maður sér um að leiða tvö af stærstu ráðuneytum landsins. Báðir aðstoðarmenn Ólafar eru einnig í leyfi og því mæðir mikið á starfsfólki ráðuneytisins. Í tilkynningum frá Ólöfu hefur hún tekið fram að henni finnist leitt að geta ekki sinnt kosningabaráttunni.
Stundin hefur að undanförnu reynt að ná tali af Bjarna Benediktssyni, starfandi innanríkisráðherra, vegna málefna fimm ára gamals íslensks drengs sem flytja á nauðugan til Noregs í vistun hjá fósturforeldrum til átján ára aldurs. Hvorki Bjarni né aðstoðarmenn hans hafa svarað símtölum.
Ýmis mál sem varða innanríkisráðuneytið hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga og vikur, en meðal annars hefur verið skorað á ráðuneytið að beita sér í málefnum flóttafólks sem fengið hefur synjun frá Útlendingastofnun.
Sjá einnig: Innanríkisráðuneytið neitar að tjá sig
Þannig hefur það reyndar verið undanfarna mánuði og er Bjarni Benediktsson eini ráðherra núverandi ríkisstjórnar sem neitar að tjá sig við Stundina. Þegar lagður var spurningalisti fyrir Bjarna Benediktsson á dögunum vegna kosningaumfjöllunar Stundarinnar vildi hann ekki gefa svör.
Sjá einnig: Bjarni Benediktsson neitaði einn að svara spurningunum
Athugasemdir