Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir í viðtali við Vísi.is að hælisleitendurnir, sem handteknir voru í Laugarneskirkju í síðustu viku, hafi verið að „svara kalli kirkjunnar“ að undirlagi presta. Þessar upplýsingar segir hann hafa komið fram í samskiptum lögreglu við annan mannanna eftir handtökuna.
„Ég hef fengið áreiðanlegar upplýsingar sem ég treysti um að annar mannanna hafi gefið þá skýringu við lögreglu eftir handtökuna að þetta hafi ekki verið þeirra hugmynd heldur hafi umræddir prestar hringt í þá og boðið þeim að koma í kirkjuna. Hvort þar réði mestu umhyggja fyrir mönnunum eða áhugi á að setja upp sýningu fyrir No Border kverúlantaklúbbinn veit ég ekki. Mennirnir voru því ekki samkvæmt þessu að leita til kirkjunnar á örlagatíma í lífi sínu heldur að svara kalli kirkjunnar,“ er haft eftir Helga.
Toshiki Toma, annar prestanna sem veittu hælisleitendunum skjól, hefur aðra sögu að segja. Fram kemur í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans að hælisleitandi hafi óskað eftir því að fá að fela sig í Laugarneskirkju eða dvelja í tjaldi í garði kirkjunnar. Prestarnir hafi ekki orðið við þeirri beiðni en boðið manninum, auk Alis og Majeds sem senda átti úr landi sömu nóttina, að bíða eftir lögreglu uppi við altari kirkjunnar.
Athugasemdir