Lífsstílsbloggarinn Tinna Alavis vill ekki tjá sig um auglýsingar í umfjöllun hennar um barnaafmæli dóttur hennar, sem hún birti á bloggsvæði sínu. Ástæðan er að hún vill ekki að athygli færist á afmæli dóttur hennar.
Viðskiptablaðið fjallaði um að níu fyrirtæki hefðu styrkt barnaafmæli sem Tinna hélt á dögunum, en fyrirtækin greiða Tinnu fyrir að birta myndir af vörum þeirra í umfjöllunum á bloggi og samfélagsmiðlum.
Í samtali við blaðamann Stundarinnar segir Tinna ekki vilja tjá sig um færsluna í opinberum fjölmiðlum þar sem umfjöllunin varðar dóttur hennar.
„Vegna þess að þetta er afmæli dóttur okkar og við vildum ekki setja þetta inn á svona opinberan miðil, svona stóran,“ segir Tinna við fyrirspurn blaðamanns og bætir við: „Þannig að við vorum að hugsa um að hafa þetta bara á blogginu.“
Í færslu sem Tinna birti í gær um barnaafmæli dóttur sinnar eru myndir úr afmælinu, af gestum, veitingum og skreytingum og níu fyrirtæki nefnd á nafn sem komu að veislunni.
„Síðustu þrjú árin hef ég haldið úti síðunni Alavis.is þar sem ég fjalla um mitt daglega líf & áhugamál,“ skrifar Tinna meðal annars í lýsingu á vefsíðunni. Þar kemur ekki fram að flestar færslur enda með smáu letri þar sem tekið er fram að færslurnar séu kostaðar.
Tinna fjallar gjarnan um barnavörur á bloggi sínu og á samfélagsmiðlum þar sem dóttir hennar er aðalviðfangsefni myndanna. Í seinustu viku fjallaði hún til dæmis um barnaföt frá Polarn O. Pyret. Í færslunni eru myndir af dóttur hennar, heima hjá sér, klædda kjól frá fyrirtækinu, og skrifar Tinna meðal annars:
„Ég tók nokkrar myndir af Ísabellu minni í dag í nýja kjólnum sínum frá Polarn O.Pyret. Hún var ótrúlega sátt með lífið & tilveruna eins & sést á myndunum. Þessi litla dama verður 3. ára í næsta mánuði & bíður spennt eftir afmælinu sínu. Ísabella elskar að fá ný föt & ég er ekki frá því að henni finnist það skemmtilegra en að fá nýtt dót!“
Athugasemdir