Umfjöllun Íslands í dag um auglýsingaherferð Mjólkursamsölunnar (MS) 28. maí síðastliðinn var unnin gegn greiðslu MS til 365. Þetta staðfestir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, í samtali við Stundina. Í lista sem Stundin hefur undir höndum sem sendur var til Gallup yfir efnisþætti Íslands í dag, magasínþáttar Stöðvar 2, er innslagið um fyrirtækið kallað „MS plögg“. Kjarninn vakti fyrst athygli á þessu orðalagi í Gallup-listanum en útskýrði ekki hvernig á því stæði.
Svanur Valgeirsson, auglýsinga- og mannauðsstjóri 365, staðfestir í samtali við Stundina að greitt hefði verið fyrir „plöggið“. Hann segir að mistök hafi átt sér stað við vinnslu efnis og því hafi ekki verið tekið fram að um kynningu að ræða. Í gær birti Neytendastofa leiðbeiningar til fjölmiðla um hvernig gera skuli auglýsingar auðþekkjanlegar frá sjálfstæðu ritstjórnarefni. Þar kemur skýrt fram að duldar auglýsingar sé ólöglegar.
Fyrirtækið örvar umræðu
Innslagið sem keypt var fjallar um auglýsingaherferð MS sem nefnist Örnefni á Íslandi. Hægt er að horfa á kynninguna hér. Viðtal er við Guðný Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, þar sem hún kynnir Örnefni á Íslandi sem er sagt vera nýjasta átak MS á mjólkurfernum. „Þetta er létt og skemmtileg nálgun og gerir fólk áhugasamt um landið í leiðinni,“ segir Guðný. Því næst segir Ásgeir Erlendsson, dagskrárgerðarmaður í Íslandi í dag, frá því hvernig mjólkin sé pökkuð á Selfossi. „Það var spenna í loftinu í vélasalnum í gær, enda eru fyrstu fernurnar með nýja örnefna átakinu að koma í búðir um þessar mundir,“ segir Ásgeir.
Athugasemdir