„Okkar barátta snýst að miklu leyti um að gera föngum kleift að eiga í góðum samskiptum við fjölskyldu sína, maka og börn. Þetta er eitt það mikilvægasta í betrunarferlinu og lokun Barnakots um helgar bitnar á börnunum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, í samtali við Stundina.
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum stendur til að loka Barnakoti um helgar, en Barnakot er aðstaða sem sett var upp við fangelsið á Litla-Hrauni til að börn þyrftu ekki að fara inn í bygginguna sjálfa þegar þau heimsækja fanga.
Afstaða hefur mótmælt ákvörðun fangelsisyfirvalda harðlega. „Við skiluðum 70 undirskriftum gegn þessu í gær. Nokkrum klukkustundum seinna kemur tilkynning um að sá tími sem aðstandendur hafa til að skila sér í heimsókn til fanga verði styttur, bæði um helgar og á virkum dögum,“ segir Guðmundur og bendir á að þannig hafi tímaramminn verið þrengdur. „Margir upplifa þetta eins og refsingu, en ég ætla ekki að fullyrða um það.“
Athugasemdir