Þingmenn Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar vilja að tekið verði alfarið fyrir alla gjaldtöku á námsgögnum grunnskólanema, meðal annars á ritföngum og pappír.
Þetta kemur fram í frumvarpi til breytingar á lögum um grunnskóla sem þingmenn Bjartrar framtíðar ásamt Birgittu Jónsdóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Valgerði Bjarnadóttur lögðu fram á Alþingi í gær.
Í 1. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er kveðið á um að kennsla í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er skylt að nota í námi sínu. Í 3. málslið ákvæðisins segir þó: „Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.“ Leggja þingmennirnir til að þessi málsliður falli brott.
Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013, en þar kemur meðal annars fram að öll börn eigi rétt á grunnmenntun án endurgjalds (28. gr.) og að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra (2. gr.), til dæmis vegna efnahags.
Athugasemdir