Davíð Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, er mótfallinn því að fórnarlömb ofbeldis af hálfu kirkjunnar manna fái sanngirnisbætur frá hinu opinbera. Hann segist hafa beðið fyrir fórnarlömbunum og vilja gjarnan hitta þau, en sér finnist „skrítið“ að ríkið sé að borga fólkinu peninga. „Hvers vegna á að borga peninga?“ spyr hann. Þetta kemur fram í viðtali við biskupinn sem birtist í Fréttatímanum í dag og hefur vakið gríðarlega athygli.
Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar frá 2012 brugðust starfsmenn óeðilega við ásökunum um ofbeldi starfsmanna kirkjunnar. Þá voru gerðar tilraunir til að þagga ásakanirnar niður, meðal annars af hálfu Patrick Breen sem er enn er að störfum hjá kirkjunni og gegnir hlutverki staðgengils biskups.
„Munu peningar hjálpa þessu fólki? Ég hef mörgum sinnum beðið fyrir fórnarlömbunum. Ég las messur fyrir þau,“ segir Davíð Tencer í viðtali við Fréttatímann. „Ef ég get hjálpað meira, þá er ég tilbúinn til þess. En þessar bætur eru eins og refsing fyrir kaþólsku kirkjuna. Mér finnst skrítið að ríkið ætli að borga þær.“ Davíð er einnig mótfallinn því að kirkjan sjálf greiði þolendum sanngirnisbætur.
Umfjöllun blaðsins og viðtalið við biskupinn í heild má lesa hér.
Athugasemdir