Ég sat fyrir utan búrrítóstað í Berlín með Guðjóni, heimilislausum jógaiðkanda og anarkista með ADHD sem hefur áður stundað nasískan aktívisma, munkalærdóm, vímuefnasölu og nú síðast flöskusöfnun fyrir mat. „Síðan ég var unglingur hafa hlutir gerst ótrúlega hratt hjá mér,“ segir hann. „Eina vikuna er ég hér og ég veit ekkert hvar ég er næstu viku.“ Þetta var annar mánuður Guðjóns í Þýskalandi, en hann hafði verið á leið til Delhí án indversks landvistarleyfis. Honum var bannað að koma um borð í flugvélina og var því strandaglópur í Berlín.
„Þá mundi ég eftir spádómi sem ég hafði lesið um nokkrum vikum áður. Ég hafði lesið einhvern frankneskan spádóm um að heimurinn myndi færast til betri vegar ef þú gengir suðureftir Evrópu, svo ég ákvað að gera það. Labba berfættur til Rómar.“
Leiðin til Rómar
Guðjón er snögghærður, skeggjaður og grannur. Hann er 29 ára, brosir gjarnan og var léttklæddur í vorsólinni. Fyrir utan litríka Merrild barnabakpokann hans, sem hann safnar flöskum í, bendir ekkert til þess að hann lifi stórkostlega óvenjulegu lífi.
Þegar Guðjóni var ekki hleypt um borð í flugvélina til Indlands fór hann að spjalla við mann í upplýsingabás sem hann hafði áður fengið aðstoð hjá. Þegar Guðjón sagði manninum frá áformum sínum um að ganga til Rómar og spádómnum kom maðurinn honum á óvart. „Það vildi svo til að hann vissi um þetta!“ segir Guðjón og hlær. „Hann fer að tala á fullu, snýr skjánum að mér og sýnir mér einhver kort og ég er strax byrjaður í fokking ævintýrinu.“
Guðjón komst þó ekki til Rómar. Raunar fór hann ekki einu sinni út úr Berlín. Eftir að hafa talað við manninn í upplýsingabásnum hitti hann konu sem var á leið heim úr vinnunni á flugvellinum. „Það vildi svo til að hún var í andlegu stöffi líka,“ segir hann og fær sér sopa af hvítvíni sem var keypt á leiðinni á búrrítóstaðinn. „Fínt hvítvín, það er ekki sem verst. Og hún vildi hjálpa mér og virtist bara vera eitthvað skotin í mér.“ Það var skemmtileg áskorun að venjast samræðutakti manns með athyglisbrest.
Athugasemdir