Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Ný ríkisstjórn: Stefnuyfirlýsingin í heild sinni

Stjórn­arsátt­máli nýrr­ar rík­is­stjórn­ar sýn­ir að Við­reisn og Björt fram­tíð sættu sig við að hvorki yrði hald­in þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla um að­ild­ar­við­ræð­ur við Evr­ópu­sam­band­ið né kom­ið á upp­boðs­leið í kvóta­kerf­inu, eins og báð­ir flokk­ar vildu fyr­ir kosn­ing­ar.

Ný ríkisstjórn: Stefnuyfirlýsingin í heild sinni
Nýr forsætisráðherra Bjarni Benediktsson kynnti nýja ríkisstjórn til leiks og undirritaðu stjórnarsáttmála. Mynd: Pressphotos

Nýr stjórnarsáttmáli gerir hvorki ráð fyrir uppboðsleið í sjávarútvegi né þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þá er lýst yfir vilja til að lækka skuldir ríkisins niður í ekkert eftir tíu ár og hvorki er ákveðið með skattalækkanir né -hækkanir.

Ný ríkisstjórn setur í hendur Alþingis að afgreiða mögulegt þingmál, sem gæti komið fram, um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Kveðið er á um að það verði hins vegar ekki fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Því er hluti nýs stjórnarsáttmála að koma í veg fyrir að Alþingi samþykki þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en undir lok kjörtímabilsins.

Ekki er útilokað að taka upp markaðstengt afgjald af fiskveiðiauðlindinni, eins og Viðreisn og Björt framtíð boðuðu fyrir kosningar. Stjórnarsáttmálinn kveður þvert á móti á um að ekki verði „gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess“. Hins vegar verði „kannaðir kostir“ þess að gera langtímasamninga um úthlutun kvóta og „samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.“

Stefnt er að því að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga, hækka lífeyrisaldur, hækka frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega og stytta biðtíma í heilbrigðiskerfinu.

Þá verði leitað leiða til að auka aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni og erlendum mörkuðum.

Ekki verði komið á ívilnandi fjárfestingarsamningum vegna nýrrar mengandi stóriðju, eins og gert hefur verið fram að þessu.

Ekki verður tekin upp ný stjórnarskrá, líkt og kosið var um í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, en sú gamla verður endurskoðuð „á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár“ og breytingartillögur lagðar fram ekki síðar en árið 2019. 

Benedikt Jóhannesson, nýr fjármálaráðherra, hefur greint frá því að gætt verði aðhalds í ríkisfjármálum.

Leiðtogar nýrrar ríkisstjórnarÓttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undirrita stjórnarsáttmálann á blaðamannafundi.

Hér birtist stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í heild sinni.

Stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar 2017

Jafnvægi og framsýni eru leiðarstef ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn.

Treysta þarf samkeppnishæfni Íslands. Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt. Forsenda þess að sótt verði fram í átt að bættum lífskjörum er að stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þannig að landsins gæði og núverandi efnahagsbati komi næstu kynslóðum einnig til góða.

Ríkisstjórnin mun setja heilbrigðismál í forgang. Áhersla verður lögð á að landsmenn hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.

Fjölbreytni í atvinnulífinu verður aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, svo sem umhverfisvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Hagsæld landsmanna og þróun þekkingarsamfélags byggist á öflugu menntakerfi sem býður fjölbreyttar námsleiðir og styður við atvinnulífið.

Ríkisstjórnin styður við víðtæka sátt á vinnumarkaði, ábyrgð í ríkisfjármálum og stöðugleika í gengis- og peningamálum. Nauðsynlegt er að sýna ráðdeild í opinberum fjármálum og temja sér öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu.

Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum. Við lagasetningu þarf að gæta þess að fulltrúar ólíkra sjónarmiða hafi rúman tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Viðmót og aðgengi að stjórnsýslu verður bætt, markviss skref stigin til þess að opna bókhald ríkisins og upplýsingaskylda opinberra aðila gagnvart almenningi efld. Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.

***

Heilbrigðismál

Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. 

Stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023. Aðgengi að sérfræðiþjónustu skal bætt í hinum dreifðu byggðum, meðal annars með því að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.

Sérstakt átak verður gert til að stytta biðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan íbúa. Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.

Aukinn þungi verður settur í uppbyggingu í öldrunarþjónustu, sérstaklega heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Unnið verður að fjölgun rýma í dagþjálfun aldraðra og biðtími styttur.

Almannatryggingar

Tryggt verði að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið með það að markmiði að auka lífsgæði og samfélagslega virkni. Tekið verði upp starfsgetumat og örorkulífeyriskerfið þannig gert sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði. Unnið verði að því að efla sjálfstæði fólks með fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur. Ríkisstjórnin mun styðja dyggilega við innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun í samráði við sveitarfélög. Ávallt skal leitast við að fólk með fötlun hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálft.

Lífeyrisaldur hækki í áföngum. Aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað.

Jafnrétti og fjölskyldumál

Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Þar vegur jafnrétti á vinnumarkaði þungt. Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.

Kappkostað verði að þjónusta við börn og unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og að íslenskt samfélag sé barnvænt. Samfélagið styðji ólíkar fjölskyldugerðir og hvetji til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. Réttur barna sé tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.

Hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs verða hækkaðar í öruggum skrefum á kjörtímabilinu.

Menntamál

Traust menntun, óháð efnahag, er mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fái að blómstra. Menntakerfið gegnir lykilhlutverki við að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipta sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld.

Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.

Huga þarf að þörfum grunn- og framhaldsskóla svo leggja megi frekari áherslu á kennslu í skapandi greinum, forritun, hönnun og verknámi, samhliða átaki í hefðbundnum greinum. Fjarnámskennsla verði þróuð enn frekar til að mæta ólíkum þörfum og aðstæðum námsmanna. Efla þarf stuðning við móðurmálskennslu tvítyngdra nemenda, samhliða kennslu íslensku sem annars máls.

Tryggja þarf jafnræði nemenda og valfrelsi með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform og gera þarf skólum kleift að nýta tækninýjungar. Efla skal möguleika eldri nemenda sem ekki hafa lokið framhaldsskóla á hefðbundnum tíma til að ljúka námi. Í því felst sameiginlegur ávinningur fyrir einstaklinginn og samfélagið allt sem felur í sér tækifæri til valdeflingar og velferðar.

Tekið verði upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og lánveitingar LÍN miðaðar við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Hugað verði að félagslegu hlutverki sjóðsins.

Nauðsynlegt er að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.

Vinna þarf markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi sleppir með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga.

Menningarmál

Menning og skapandi greinar verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar í íslensku samfélagi. Ríkisstjórnin mun leggja sig fram um að búa skapandi greinum vandaða umgjörð og gott starfsumhverfi. Myndarlega verður stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina. Endurskoða þarf löggjöf í samræmi við þróun í tækni og tækjabúnaði til afritunar og dreifingar höfundaréttarvarins efnis.

Hlúa þarf vel að menningararfleifð Íslendinga og möguleikum fólks til þátttöku í skapandi umhverfi auk þess sem lögð verður áhersla á að sem flestir fái notið menningar óháð efnahag eða búsetu.

Íslenska málsvæðið er lítið og stuðningur því nauðsynlegur. Máltækniverkefni verði haldið áfram í samstarfi við fræðasamfélagið og atvinnulífið. Ríkið færi útgáfu námsefnis í auknum mæli til sjálfstæðra útgefenda sem gegna mikilvægu menningarhlutverki með fjölbreyttri útgáfustarfsemi.

Íþrótta- og æskulýðsstarfi þarf að sinna af alúð, enda er framlag þess til lýðheilsu, forvarna og almennrar velsældar landsmanna dýrmætt. Mikilvægt er að styðja vel við bakið á íslensku afreksíþróttafólki.

Lög og regla

Unnið skal að uppbyggingu löggæslu og sérstaklega skal horft til aukins álags á landsvísu vegna fjölgunar ferðamanna og landamæraeftirlit styrkt. Efla ber getu lögreglu og ákæruvalds til að bregðast við kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum. Lögð verður áhersla á framkvæmd aðgerðaáætlunar um bætta verkferla vegna kynferðisbrota og lagt til við Alþingi að stafrænt kynferðisofbeldi verði skilgreint í hegningarlögum. Þolendum mansals verði veitt fullnægjandi réttarvernd og stuðningur. Til að draga úr endurkomutíðni í fangelsi skal horft til betrunar við stefnumótun í málaflokknum.

Innflytjendur og útlendingamál

Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana.

Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð.

Einfalda skal veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta ber menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Efnahagsmál og stöðugleiki

Með aðhaldi í ríkisrekstri, sölu eigna sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins og niðurgreiðslu ríkisskulda verður áfram stutt við sterka stöðu í ríkisfjármálum. Áhersla skal lögð á opið og gagnsætt söluferli eigna.

Ríkið nýti betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum. Sett skulu tímasett markmið um betri rekstur og aukna framleiðni hjá hinu opinbera. Stefnt er að því að allar varanlegar útgjaldaákvarðanir rúmist innan hagsveiflunnar. Langtímamarkmið er að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára.

Stofna skal stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.

Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi. Einn vinnumarkaður með jöfnun lífeyrisréttinda og annarra almennra réttinda er lykilatriði sem leiða mun til meira gagnsæis í kjaramálum. Ríkisstjórnin mun styðja aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd sem drög hafa verið lögð að í svonefndu SALEK-samkomulagi.

Skattamál

Hlutverk skattkerfisins sem tekjuöflunartækis fyrir sameiginleg útgjöld verður styrkt og skatteftirlit eflt. Markvisst verður unnið gegn skattundanskotum, þar með talið í skattaskjólum. Sanngjarnt skattaumhverfi dregur úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum til að auka alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja.

Hyggja þarf sérstaklega að skattaumhverfi einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með einföldun og lækkun tryggingagjalds í huga.

Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Í því skyni verður áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti.

Framtíð bankakerfisins

Til langs tíma litið er ekki ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum. Því er mikilvægt að minnka hlut ríkisins í varfærnum skrefum og víðtækri sátt. Áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust.

Sjávarútvegur

Núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútvegi um leið og tekist hefur að tryggja sjálfbærni fiskveiða á Íslandsmiðum. Þá hefur öryggi sjómanna aukist til muna.

Ríkisstjórnin telur kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.

Landbúnaður

Áfram skal lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Velferð dýra verði í hávegum höfð. Skilvirkt eftirlit með dýrum og matvælaframleiðslu verði tryggt, sem og gætt að neytendavernd. 

Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða.

Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Ferðaþjónusta

Vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun. Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.

Nýsköpun og þróun

Myndarlega verður stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina. Leitað verður leiða til að auka aðgengi að vaxtarfjármagni fyrir nýsköpunar- og hugvitsfyrirtæki, að erlendum mörkuðum og nauðsynlegri erlendri sérfræðiþekkingu.

Þannig verður byggt undir öflugt rannsókna- og þróunarstarf og samkeppnishæfni Íslands bætt.

Umhverfis- og auðlindamál

Nýting auðlinda til lands og sjávar verði ætíð í jafnvægi þannig að komandi kynslóðir megi njóta sömu gæða og þær sem nú byggja landið. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að fyrirtæki á Íslandi búi við aðstæður sem gefi þeim færi á að stunda fjölbreyttan atvinnurekstur í sátt við umhverfið.

Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ.

Ekki skal gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verður lögð fyrir Alþingi til samþykktar sem framsýn og fagleg sáttargjörð milli ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd. Unnin verður sérstök áætlun um vernd miðhálendisins.

Ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju.

Eigendastefna verður gerð fyrir Landsvirkjun þar sem meðal annars verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn.

Gerð verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Unnið verður að eflingu græna hagkerfisins.

Samgöngumál

Álag á samgöngukerfið hefur vaxið mikið undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Í því ljósi verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum. Góðar samgöngur eru lykilþáttur í að bæta búsetuskilyrði og fjölga atvinnutækifærum um land allt.

Áhersla verður lögð á að bæta öryggi á vegum og stuðla að hagkvæmum og greiðum samgöngum um landið með því að nýta fjölbreytni og möguleika samgöngukerfisins í heild.

Með því getur samgöngukerfið þjónað betur landsmönnum öllum auk þess sem unnt er að ná betur markmiðum um að dreifa ferðamönnum um landið og efla og styðja við atvinnusköpun sem víðast. Leitað verður fjölbreyttari leiða til að fjármagna samgöngukerfið, meðal annars með samstarfsfjármögnun þar sem það er hagkvæmt. Lögð verði áhersla á gott samstarf við sveitarfélög um allt land við uppbyggingu samgöngumannvirkja í samræmi við þarfir íbúa. Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu“.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.

Byggðamál

Ríkisstjórnin leggur áherslu á markvissar aðgerðir til að treysta byggð í landinu. Húshitunarkostnaður er íþyngjandi á köldum svæðum. Jöfnun búsetuskilyrða með tilliti til almannagæða eins og raforku og fjarskipta eru mikilvægur þáttur í byggðastefnu í stöðugri þróun. Í samvinnu við sveitarfélögin verði reglulega gerð úttekt á aðgengi landsmanna að þjónustu, meðal annars með það fyrir augum að jafna kostnað íbúa við að njóta lögbundinnar grunnþjónustu. Sérstök höfuðborgarstefna verði mótuð í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.

Lýðræðisleg aðkoma íbúa verði styrkt meðal annars í gegnum sóknaráætlanir landshluta. Ljúka skal verkefninu „Ísland ljóstengt“ á kjörtímabilinu og leitast við að styrkja atvinnumöguleika á veikari svæðum með betri fjarskiptatengingum.

Gengis- og peningamál

Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis.

Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og utanaðkomandi sérfræðingum, eftir atvikum á vettvangi Þjóðhagsráðs. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar liggi fyrir á fyrsta starfsári.

Losun hafta á fjármagnsflutninga helst í hendur við sterkari og heilbrigðari efnahagsstöðu landsins.

Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að vinna markvisst áfram að framgangi áætlunar um afnám fjármagnshafta.

Utanríkismál

Grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og NATO, varnarsamningurinn og friðar- og öryggissamstarf, samanber nýsamþykkta þjóðaröryggisstefnu. Huga ber vandlega að samstarfi á norðurslóðum, ekki síst í Norðurskautsráðinu. Áfram verður lögð áhersla á viðskiptafrelsi og alþjóðlega samvinnu á sviði öryggis- og þróunarmála.

Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu. Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

Stjórnarskrá

Unnið verður að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin mun bjóða öllum þingflokkum á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem mun starfa með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tillögur að breytingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019.

Sérstakt markmið er að breytingatillögur fái góða kynningu og umræðu fyrir framlagningu á Alþingi og vandaða þinglega meðferð sem eftir atvikum verði með opnum fundum. Hugað verði að breytingum á kjördæmaskipan með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af síðustu breytingum í þeim efnum. Kosningalöggjöf verði yfirfarin samhliða því starfi með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Ný ríkisstjórn

Guðlaugur segist hafa sóst sérstaklega eftir umhverfisráðuneytinu
FréttirNý ríkisstjórn

Guð­laug­ur seg­ist hafa sóst sér­stak­lega eft­ir um­hverf­is­ráðu­neyt­inu

Guð­laug­ur Þór Þórð­ar­son, þing­mað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins og nýr um­hverf­is­ráð­herra, seg­ist hafa sóst eft­ir því sér­stak­lega að fá að taka við ráðu­neyti um­hverf­is- og lofts­lags­mála þeg­ar fyr­ir lá hvaða ráðu­neyti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn myndi fá. Hann seg­ist ekki hafa sóst sér­stak­lega eft­ir því að verða ut­an­rík­is­ráð­herra áfram.
Áralangar deilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars hafa ratað til lögreglunnar
FréttirNý ríkisstjórn

Ára­lang­ar deil­ur inn­an fjöl­skyldu Ásmund­ar Ein­ars hafa rat­að til lög­regl­unn­ar

Margra ára deil­ur hafa geis­að í fjöl­skyldu fé­lags­mála­ráð­herra, Ásmund­ar Ein­ars Daða­son­ar, um jörð­ina Lamb­eyr­ar í Döl­um. Ásmund­ur Ein­ar bjó á jörð­inni áð­ur en hann sett­ist á þing. Fað­ir hans, Daði Ein­ars­son, rak bú á jörð­inni sem varð gjald­þrota og missti hann í kjöl­far­ið eign­ar­hlut sinn í jörð­inni yf­ir til systkina sinna sjö. Bróð­ir Daða væn­ir feðg­ana um inn­brot í íbúð­ar­hús á Lambeyr­um sem deilt er um.
Hvaða „pólitísku sýn um örlög“ Íslands hafa Vinstri græn?
Ingi Freyr Vilhjálmsson
PistillNý ríkisstjórn

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Hvaða „póli­tísku sýn um ör­lög“ Ís­lands hafa Vinstri græn?

Stjórn­mála­flokk­ar verða að hafa skýra sýn og stefnu um það hvernig land þeir vilja búa til og hvernig sam­fé­lag þeir vilja ekki að verði að veru­leika. Með ákvörð­un sinni um stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur við Sjálf­stæð­is­flokk­inn er orð­ið al­veg óljóst hvert Vinstri græn vilja stefna við mót­un ís­lensks sam­fé­lags, seg­ir Ingi Vil­hjálms­son í pistli.

Mest lesið

Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
1
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.
Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI ævaforn rómversk kveðja
2
Flækjusagan

Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI æva­forn róm­versk kveðja

Hin við­ur­styggi­lega nas­ista­kveðja Elons Musks dag­inn sem Don­ald Trump var sett­ur í embætti hef­ur að von­um vak­ið mikla at­hygli. Kannski ekki síst vegna þess að kveðj­una lét Musk flakka úr ræðu­stól sem var ræki­lega merkt­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Hin fasíska til­hneig­ing margra áhang­enda Trumps hef­ur aldrei fyrr birst á jafn aug­ljós­an hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa...
Sigmundur Davíð ver Musk með hæpnum samanburði
3
Greining

Sig­mund­ur Dav­íð ver Musk með hæpn­um sam­an­burði

Á með­an að öfga­menn og nýnas­ist­ar víða um heim upp­lifa vald­efl­ingu og við­ur­kenn­ingu og fagna an­kanna­legri kveðju Elons Musks spyr fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands hvort ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar ætli í al­vöru að flytja þá fals­frétt að handa­hreyf­ing sem leit út eins og nas­ista­kveðja, frá manni sem veit­ir öfga­full­um sjón­ar­mið­um vængi flesta daga, hafi ver­ið nas­ista­kveðja.
Yfirgangstal með óþægilega hliðstæðu
4
StjórnmálBandaríki Trumps

Yf­ir­gangstal með óþægi­lega hlið­stæðu

Embætt­i­staka Don­alds Trumps vek­ur upp spurn­ing­ar sem við Ís­lend­ing­ar þurf­um að hugsa alla leið, með­al ann­ars í ljósi yf­ir­lýs­inga hans gagn­vart Græn­landi og Kan­ada, seg­ir Frið­jón R. Frið­jóns­son borg­ar­full­trúi. Hann kveðst einnig hafa „óþæg­inda­til­finn­ingu“ gagn­vart því að vellauð­ug­ir tækni­brós­ar hjúfri sig upp að Trump, sem nú fer á ný með fram­kvæmda­vald­ið í lang­vold­ug­asta ríki heims.
Birkir tapaði fyrir ríkinu í Strassborg
6
Fréttir

Birk­ir tap­aði fyr­ir rík­inu í Strass­borg

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafn­aði öll­um kæru­lið­um Birk­is Krist­ins­son­ar vegna máls­með­ferð­ar fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um. Birk­ir var dæmd­ur til fang­elsis­vist­ar í Hæsta­rétt­ið ár­ið 2015 vegna við­skipta Glitn­is en hann var starfs­mað­ur einka­banka­þjón­ustu hans. MDE taldi ís­lenska rík­ið hins veg­ar hafa brot­ið gegn rétti Jó­hann­es­ar Bald­urs­son­ar til rétt­látr­ar máls­með­ferð­ar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
3
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Það rís úr djúpinu 1: Gríðarlegt vatnsmagn leynist á 660 kílómetra dýpi, og demantar
4
Flækjusagan

Það rís úr djúp­inu 1: Gríð­ar­legt vatns­magn leyn­ist á 660 kíló­metra dýpi, og dem­ant­ar

Fyr­ir fá­ein­um dög­um birti vef­rit­ið Science Al­ert fregn um rann­sókn, sem raun­ar var gerð ár­ið 2022, en hef­ur ekki far­ið hátt fyrr en nú. Hér er frá­sögn Science Al­ert. Rann­sak­að­ur var ör­lít­ill dem­ant­ur sem fund­ist hafði í dem­antanámu í rík­inu Bótsvana í suð­ur­hluta Afr­íku. Hér er sagt frá þeirri rann­sókn í vef­rit­inu Nature.com. Í ljós kom að dem­ant­ur­inn hafði mynd­ast...
Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
6
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
5
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár