Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fól rannsóknarlögreglumanninum Ragnari H. Ragnarssyni, hjá tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar, að kanna verð og notagildi njósnabúnaðar og voru samskipti hans við starfsmann ítalska fyrirtækisins Hacking Team liður í slíkum störfum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem kemur Ragnari til varnar og vísar því á bug að hann „hafi sýnt af sér óeðlilega háttsemi“. Telur lögreglan að fjölmiðlar hafi gefið slíkt í skyn um Ragnar í fréttaflutningi sínum í gær. Í svari við fyrirspurn Stundarinnar segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að Ragnar hafi ekki farið út fyrir heimildir sínar og sinnt þessu verki með vitund embættisins. Þá hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki keypt nefndan hugbúnað, hvorki af þessu fyrirtæki né öðrum.
Óljóst hver misskilningurinn var
Þegar blaðamaður hafði samband við Gunnar Rúnar fyrr í morgun vildi hann ekki svara spurningum um málið í síma. Hins vegar tók hann fram að lögreglan hygðist „leiðrétta þarna misskilning“. Enn er óljóst í hverju sá misskilningur er fólginn.
Þegar óskað var eftir samtali við einhvern sem gæti tjáð sig fyrir hönd tölvurannsókna- og rafeindadeildar lögreglunnar fékk Stundin þau svör að lögregla myndi ekki tjá sig um málið að öðru leyti en með fréttatilkynningu. Núverandi yfirmaður deildarinnar er Theódór Kristjánsson.
Athugasemdir