Sjómaður úr Vestmannaeyjum, sem ferðaðist til Taílands og átti í sambandi við þarlenda konu, var rekinn frá borði vegna grunsemda skipstjórnarmanna um að hann hefði smitast af ótilgreindum sjúkdómi. Þótt hann hafi starfað á skipinu í tvö ár er hann flokkaður sem lausamaður og fær engan uppsagnarfrest.
Maðurinn, Magni Freyr Hauksson, hefur gegnt stöðu háseta, netamanns og bátsmanns á skuttogaranum Gullbergi VE í tvö ár en situr nú launalaus í landi vændur um að vera smitandi.
„Þeir vildu senda mig í land vegna þess að ég var ekki búinn að sanna það að ég væri ekki með einhvern sjúkdóm,“ segir Magni og tengir kröfu um læknisskoðun við áfangastaðinn. „Þetta eru fordómar á háu stigi.“
Afdrifaríkt ferðalag
Aðdragandi brottrekstursins var að Magni Freyr fór í fyrstu utanlandsferðina í aldarfjórðung. Ferðin var til Taílands. Hann kynntist þarlendri konu sem hann átti í sambandi við í einn og hálfan mánuð, áður en leiðin lá aftur heim á leið til Íslands og Vestmannaeyja. Sambandið er enn á byrjunarstigi og enn óútséð með afdrif þess. Í kjölfarið fylgdi hins vegar atvinnumissir.
Eftir heimkomuna mætti Magni um borð eins og hann hafði verið boðaður til og bjóst ekki við öðru en að farið væri frá landi til veiða eins og venjulega. Þegar hann var hins vegar við að klæða sig í gallann kom skipstjórinn í stakkageymsluna og stillti honum upp við vegg: Hann færi aftur í land í læknisskoðun eða kæmi ekki aftur um borð í skipið.
Athugasemdir