Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur ákveðið að nýta sér heimild í lögum til að sneiða hjá fjórum tillögum hæfisnefndar við skipan dómara í nýtt millidómsstig, Landsrétt.
Einn þeirra sem Sigríður vill skipa sem dómara, en var ekki metinn hæfastur af hæfisnefnd, er Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari, eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og samflokksmanns Sigríðar.
Vegna þess er Brynjar vanhæfur við umræðu málanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Vill ekki Ástráð
Einn þeirra sem var metinn hæfastur, en Sigríður vill ekki skipa, hefur verið tengdur við Vinstri græna. Ástráður Haraldsson, sem er reyndur lögmaður og hefur meðal annars verið dósent við Háskólann á Bifröst, hefur hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græna og Alþýðubandalagið. Hann sat í Háskólaráði á níunda áratugnum fyrir Félag vinstri manna, og var meðal annars kallaður „kommi“ í umfjöllun Viðskiptablaðsins árið 2012.
Ástráður er barnsfaðir Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Svandís er vegna þess einnig vanhæf við afgreiðslu málsins hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Aðrir sem Sigríður valdi ekki, en hæfisnefnd mælti með, eru Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður og Jón Höskuldsson héraðsdómari. Þeirra í stað valdi Sigríður héraðsdómarana Ásmund Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiði Bragadóttur.
Lög gera ráð fyrir að fylgt sé hæfisnefnd
Samkvæmt lögum er dómsmálaráðherra óheimilt að skipa dómara, nema þann sem metinn hefur verið hæfastur af sérstakri hæfisnefnd. Er tilgangurinn að forðast pólitískar skipanir sem getur afmáð mörk milli framkvæmdavalds- og dómsvalds. Leið fram hjá því er hins vegar að sækja stuðning til löggjafarvaldsins.
„Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra ...“
„Óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið.“
Málið verður væntanlega tekið fyrir á Alþingi á miðvikudag.
Þeir sem eru á lista dómsmálaráðherra eru eftirfarandi:
Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Þorgeir Ingi Njálsson.
Hæfisnefnd mat hins vegar eftirfarandi hæfust í stöðuna:
Aðalstein E. Jónasson hæstaréttarlögmann, Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann, Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Eirík Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Hervör Þorvaldsdóttur héraðsdómara, Ingveldur Einarsdóttir, settan hæstréttardómara, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmann, Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmann, Jón Höskuldsson héraðsdómara, Kristbjörg Stephensen borgarlögmann, Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Ragnheiði Harðardóttur héraðsdómara, Sigurð Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmann og Þorgeir Inga Njálsson, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness.
Athugasemdir