Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vill ekki ræða um málefni aflandsfélagsins Wintris á Alþingi. Þá hefur hann ekki viljað svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið. Líkt og fram kom í vikunni átti félagið, sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu Sigmundar, hundruð milljóna kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Sem kunnugt er lék Sigmundur lykilhlutverk í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sneru að þrotabúunum og kröfuhöfum þeirra.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í morgun var spiluð upptaka af tilraun fréttamanns til að ræða við Sigmund um málið eftir þingfund í gærkvöldi. „Sigmundur, viltu ræða við okkur um þetta félag?“ spurði fréttamaðurinn Tryggvi Aðalbjörnsson. Sigmundur brást við hlæjandi og sagði: „Láttu ekki svona.“ Aðspurður hvers vegna hann vildi ekki svara spurningum um málið sagði Sigmundur: „Eins og ég er búinn að segja ykkur þá er ég ekki að svara fyrir fjármál eiginkonu minnar frekar en aðrir þingmenn um fjármál þeirra maka.“ Í kjölfarið mátti heyra Sigmund loka dyrum á eftir sér.
Forsætisráðherra birti pistil um eiginkonu sína á vefsíðu sinni í gær. Þar kom meðal annars fram að í aðdraganda þingkosninganna 2013 hefði Sigmundur íhugað að upplýsa um kröfu Önnu Sigurlaugar í þrotabúin, en hætt við.
Athugasemdir