Karl Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi fréttamaður, segir að á Íslandi eigi hin nýja þjóðfélagsumræða sér stað á internetinu sem „lýtur stjórn örfárra einstaklinga“.
Að mati Karls er formaður flokks hans, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, fórnarlamb í þeirri umræðu. „Þessa dagana þykir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vera tilvalið skotmark. Þegar hann er annars vegar er allt leyfilegt og oftar er ekki er ráðist að honum persónulega. Ráðherrar þurfa vissulega að geta tekið gagnrýni, en hún þarf að vera heiðarleg og málefnaleg. Og hún á síst að öllu að beinast að persónu viðkomandi,“ skrifar Karl um málið á bloggi sínu á Eyjunni.
Sigmundur fái ekki að verja sig
Karl vísar til þess að „í hinni nýju þjóðfélagsumræðu“ séu „menn sakaðir um að vera hörundsárir“ ef þeir „reyna að bera hönd fyrir höfuð sér“. „Þannig er tryggt að hatursumræðan fái að halda áfram og lifi sjálfstæðu lífi. Umræða er góð, gagnrýni er góð en hatur og einelti er engum til góðs. Línan þar á milli getur verið fín – en hún er til. Við erum komin langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.“
„Við erum komin langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.“
Þá fullyrðir Karl að allt sé leyfilegt í umræðunni og að aldrei þurfi að færa sönnur á yfirlýsingar. „Í hinni nýju þjóðfélagsumræðu, sem fyrst og fremst á sér stað á internetinu, er allt leyfilegt. Það þarf aldrei að færa sönnur eða standa skil á hástemmdum yfirlýsingum um nafngreinda einstaklinga. Þetta er umræða þar sem illmælgi og hatur ræður ríkjum og pólitískt einelti þykir sjálfsagt.“
Gaf til kynna að skynjun þjóðarinnar væri röng
Sigmundur Davíð uppskar gagnrýni um síðustu helgi þegar hann sagði að skýra mætti stuðningsleysi og vantraust á ríkisstjórn hans og stjórnmálamönnum almennt með „rofi milli raunveruleika og skynjunar“ hjá þjóðinni. Þá deildi hann þeirri skoðun Karls að þeir sem segðu hann ekki geta tekið gagnrýni væru að bregðast óeðlilega við tilsvörum hans.
„Það er gömul klisja, en reyndar ekki svo gömul. Það var eftir eitthvert skiptið sem að ég benti á rangfærslur hjá tilteknum flokki í stjórnarandstöðunni, þá sendu þau út línu um það að nú skyldu allir tala um að ég væri svo hörundsár, svo ég noti nú sama orð og þau notuðu. Þannig að það birtist varla þingmaður frá Samfylkingunni í fjölmiðlum nokkra daga í röð öðruvísi en að tala um að ég væri svo hörundsár. Þetta er dæmi um svona pólitíska taktík sem er mikið stunduð af ákveðnum aðilum, að setja út einhverja línu sem allir hamast á til að reyna að stimpla hana inn, þessi stimplunarstjórnmál eins og ég kalla það þangað til ég finn betra orð yfir það. Ég hins vegar hafði í því tilviki ekki gert annað en að leiðrétta rangfærslur,“ sagði hann.
Sigmundur oft gagnrýndur
Sigmundur Davíð hefur ítrekað þurft að þola gagnrýni í störfum sínum sem forsætisráðherra. Nýleg könnun MMR leiddi í ljós að einungis 5% þjóðarinnar töldu hann vera í tengslum við þjóðina. Þá hefur fylgi Pírata mælst hærra en ríkisstjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar samanlagt, en það skýrist að hluta af áðurnefndu rofi milli raunveruleika og skynjunar, að mati Sigmundar. „Sérð það náttúrlega á þessum fylgiskönnunum og þessu ótrúlega fylgi sem Píratar fá.“
Fyrir utan að vera gagnrýndur fyrir yfirlýsingar sínar um kjósendur hefur Sigmundur meðal annars mátt þola mótbyr fyrir yfirlýsingar um sálgreiningar og leyniskýrslur kröfuhafa á Íslandi, sníkjudýr í erlendum matvælum sem breyta hegðunum þjóða og fyrir endurteknar yfirlýsingar um gagnrýnendur sína sem „niðurrifsöfl“ sem hann segir að „aðhyllist öfgakennda hugmyndafræði“.
Athugasemdir